Í fyrstu tveimur hlutum viðtalsins lýsti Reynir Jónasson æskuárunum í Reykjadal, menntaskólaárunum á Akureyri og námi í orgelleik í Hafnarfirði og Kaupmannahöfn. Einnig greindi hann frá þátttöku sinni í danshljómsveitum í Reykjavík og síðan flutningi til Húsavíkur þar sem hann gegndi stöðu skólastjóra Tónlistarskólann og var mikilvirkur í tónlistarlífinu nyrðra í átta ár.
Pípuorgelið í Neskirkju
„En svo kom að því að ég fluttist suður aftur. Raggi Bjarna æsti mig upp í það. Kannski var ég orðinn hálfleiður á Húsavík og langaði að breyta til aftur. En ég var ekki nema tæp tvö ár á Sögu með Ragga. Ég var farinn að fá mér í staupinu og hálfpartinn drakk mig út úr starfinu. Samt var þetta gaman og ég var þarna með ágætismönnum. Það var skemmtilegt að spila á Sögu.
Ég vann á sjö stöðum á þessum tíma. Ég fékk hlutastarf í Álftamýrarskóla hjá Ragnari Júlíussyni, kunningja mínum frá Akureyri, og í Fossvogsskóla hjá Kára Arnórssyni sem hafði áður verið á Húsavík; spilaði á Borginni með Jónasi Dagbjartssyni og svo á Sögu með Ragga Bjarna. Í Fríkirkjunni í Hafnarfirði var ég einnig, að vísu í litlu starfi, en ég hafði þar aðgang að pípuorgeli og fannst gott að geta æft mig þar.
Í Neskirkju var gamla orgelið, hinn versti laupur frá mestu niðurlægingarárum Austur-Þýskalands. Það var því bylting að fá þetta fína pípuorgel í kirkjuna. Haukur Guðlaugsson söngmálastjóri benti mér á þýskan orgelsmið í Bandaríkjunum. Hann kom hingað, og ég fór vestur til að skoða þessi orgel, og ég æsti Jón Stefánsson organista í Langholtskirkju til að fara með mér. Þessi amerísk-þýsku orgel voru svo vígð sama daginn í Langholtskirkju og Neskirkju. Sá dagur er líklega ánægjulegasti dagurinn í tónlistarsögu minni. Ég var organisti og kórstjóri í Neskirkju frá 1973 til 2002, tók við því starfi af Jóni Ísleifssyni, en áður hafði ég sungið í kórnum um skeið.“
Skemmtilegur tími í Neskirkju
„Sr. Jón Thorarensen var að hætta þegar ég kom. Ég spilaði við eina athöfn með honum og það fór vel á með okkur. Sr. Jóhann Hlíðar var þarna fyrsta árið mitt; ég þekkti hann frá Akureyri. Sr. Frank var þarna líka og sr. Guðmundur Óskar Ólafsson (hálfbróðir Flosa). Jú, það voru einhverjar deilur í kirkjunni. Þórður gamli Þórðarson kirkjuvörður átti einhvern þátt í þeim. Og segja má um sr. Frank að hann hafi verið sjálfum sér verstur.
Sr. Örn Bárður taldi það goðgá að ég yrði lengur í starfi en til sjötugs. Ég hætti á afmælisdaginn minn en hefði gjarnan viljað vera að minnsta kosti eitt ár í viðbót til að rétta fjárhaginn örlítið. Ég hafði skrifað upp á víxil og mátti borga þrjár og hálfa milljón fyrir mann sem ég þekkti nánast ekki neitt. Þannig tapaði ég öllu sparifénu sem ég hafði safnað með ærinni fyrirhöfn í 10 ár.
En tíminn í Neskirkju var skínandi skemmtilegur. Og dásamlegt var að fá þetta pípuorgel. Ég spilaði á það þegar ég tók upp plötu sem mætti kannski kalla helsta afrek mitt. Sjálfur gaf ég einnig út harmonikkuplötuna Gamlar minningar á vinyl og disk árið 1978. En árin 1972 og 1974 hafði Svavar Gests gefið út með mér tvær plötur þar sem ég spilaði 30 vinsæl lög á nikkuna í bæði skiptin. Ég hélt líka tónleika á ýmsum stöðum, m.a. á Húsavík þar sem ég spilaði á nýja pípuorgelið á mínum fyrri vinnustað. Það er mikið puð í kringum allt slíkt.“
Margir eftirminnilegir samstarfsmenn
„Það er svo sem ekkert eitt merkilegra en annað á mínum ferli. Það var ánægjulegt að spila með Elly Vilhjálms, þeirri frábæru söngkonu. Ég spilaði ekki mikið með henni en hún kom þarna niður í Sjálfstæðishús í einhverri danslagakeppni, SKT minnir mig. Hún söng þá lagið Margt fer öðruvísi en ætlað er með hljómsveit Svavars; þau höfðu ekkert þekkst þegar þetta var. Ég lék þarna með og þetta er eina lagið sem til er með mér á tenórsaxófón, og það var sem sagt Elly Vilhjálms sem söng. Ég er nú bara sæmilega ánægður með það!
Ég spilaði líka með Sigrúnu Jónsdóttur á gamla Hótel Norðurland á Akureyri, hún var elskuleg manneskja og stórfín söngkona með mikið tónsvið. Mér fannst hún hafa glatast þegar hún settist að í Noregi. Ég var einmitt að hlusta á hana núna áðan syngja hið undurfallega lag Löngum hef ég átt í erjum eftir Valdimar Auðunsson, þann fína músíkant. Það voru fleiri lög sem hann gerði listilega vel. Ég kynntist honum og við spiluðum einu sinni saman. Ég bað hann að spila þetta lag með mér og þá sagði hann: „Ég veit ekkert hvort ég kann að spila það.“ Svo spiluðum við lagið og mér fannst það mikill heiður.
Svavar Gests reyndist mér vel eins og ég sagði. Það voru þó ekki allir sem hrósuðu honum. Og það voru margir betri trommuleikarar til. En hann var stór í bransanum og útvarpsþættir hans, Sunnudagskvöld með Svavari Gests, voru geysilega vinsælir eins og ég nefndi. Svo kom Raggi Bjarna sem söngvari í hljómsveitina. Hann hafði þá verið í Skandinavíu hálft annað ár og búinn að ná sér í danska konu. Það hafði verið óregla á honum áður, en nú var hann svolítið eins og breyttur maður. Seinna réð hann mig svo í hljómsveit sína eins og ég nefndi áður. Hann spilaði á píanó og samdi líka lög. Móðir hans var ein af betri söngkonum hér og pabbi hans, Bjarni Böðvarsson, landsþekktur tónlistarmaður. Það var gott að spila með Ragnari.“
Magnús Ingimarsson
„Magnús Ingimarsson var píanóleikarinn í hljómsveitinni hjá Svavari. Hann brá sér í tónmenntakennaradeild, lenti svo á sjúkrahúsi í einar sex vikur og æfði sig þá í nótnaskrift og útsetningu og varð rosalega hæfileikaríkur útsetjari. Faðir hans, Ingimar Óskarsson, var undramaður sem gat víst farið vikulega niður í útvarp og flutt erindi af munni fram. Magnús spilaði líka á saxófón. Við spiluðum eitt sinn nokkuð erfitt lag saman þar sem þurfti tvo saxófóna. Ég spilaði á tenórsaxofón en hann á altsaxófón eins og ekkert væri. Magnús var fjórgiftur og dó langt um aldur fram. Þegar hann var orðinn ansi lasinn hringdi hann í mig og bað mig að spila sænskt lag eftir Andrew Walter á harmóniku við útförina. Þetta var nokkuð snúið lag, en það vildi svo vel til að ég átti það á nótum. Ég var þá á akkúrat á förum í tveggja vikna ferð til Ítalíu. Magnús dó fimm eða sex vikum eftir þetta samtal og mér tókst að spila lagið í Langholtskirkju á undan sjálfri athöfninni. Magnús er mér afar eftirminnilegur.“
Haukur Morthens
„Haukur Morthens hringdi eitt sinn í mig og vildi fá mig og tvo aðra með sér í mánaðarferð til Íslendingabyggða í Kanada. Hinir voru Eyþór Þorláksson gítarleikari og Guðmundur Steingrímsson trommuleikari; og ég var með rafmagnsbassa. Við æfðum stíft og flugum til Toronto og áfram til Winnipeg þar sem Haukur var gerður að heiðursborgara. Og við fengum gullmerki í barminn. Ég tapaði því og það finnst mér alveg hræðilegt! Haukur stóð sig mjög vel og það var haldin veisla þar sem sá merki vesturíslenski borgarstjórnarmaður Magnús Elíasson var gestgjafinn. Í veislunni var margt heiðursfólk, meðal annarra Haraldur Bessason, skólabróðir minn frá Akureyri. Hann var á þeim tíma prófessor við Manitobaháskóla. Hann var tveimur árum á undan mér í MA og ég kynntist honum gegnum vin minn, Jón Bjarman, sem var frændi Haralds.
Haukur var pottþéttur maður og kurteis og bragðaði ekki áfengi. Ég var ákaflega stoltur yfir að fá að spila með honum. Við tróðum upp á Íslendingadeginum á Gimli. Við fórum líka til Banff og Markerville, á slóðir Stephans G., þar sem hús hans var vígt sem eitt af minjasöfnum Albertafylkis. Haukur hafði skipulagt ferðina í þaula. Við fengum allt frítt en ekkert kaup. Haukur var þó með einhvern gjaldeyri og lét mig hafa 100 dollara og ég keypti fyrir þá eitthvað handa stelpunum mínum. Við vorum svo viku í Toronto í lokin og ég hlustaði þar m.a. á heimsfrægan þeldökkan djasspíanista. Ég var býsna hætt kominn á Young Street á leiðinni á tónleikana. Ég var alltaf að taka flassmyndir. Unglingar voru að fíflast þarna og ég tek eina mynd og held svo bara áfram, en þá er allt í einu sparkað aftan í mig. Leigubílstjóri sem var þarna sá hvað gekk á og kallaði í mig og þannig bjargaðist þetta.“
Fleiri minnisstæðir tónlistarmenn
„Fleiri tónlistarmenn mætti nefna sem ég hef starfað með. Ég spilaði t.d. í tvígang á píanó í Naustinu um tíma, og þá stundum með Jose Riba og Karli Lilliendahl en stundum einn. Það var gaman að spila í Naustinu og þangað komu margir skemmtilegir gestir, t.d. Haraldur Bessason sem var þar stundum með seinni konu sinni Margréti.
Þannig gæti ég haldið áfram. Skúla Halldórssyni og konu hans kynntist ég í Naustinu og þau tóku mig stundum heim með sér á Brekkustíginn vestast í Vesturbænum, yndislegar manneskjur. Sigfúsi Halldórssyni kynntist ég lítillega; hann var afskaplega ljúfur maður og engin stórmennska í honum. Og Jón Ásgeirsson þekki ég vel, hann er náfrændi Agnesar konu minnar. Þá er Jón Sigurðsson í bankanum mér minnisstæður, „Jón banki“. Hann var textahöfundur númer eitt. Hanna Pálsdóttir vinkona mín vann með honum í bankanum um tíma og sagði að hann hefði verið þar með troðfullar skúffur af textum.“
Níræður og einn með nikkuna í troðfullu Háskólabíói
„Ég var að verða þrítugur þegar ég smakkaði vín fyrst. Mér fannst góð lyktin af koníaki og drakk það fyrst bara með kaffinu en síðan átti ég það til að fá mér hressingu á mánudagsmorgnum og drekka svo allan þann dag. Þetta átti ekki við mig. Ég fór á Vog árið 1990 tæplega sextugur og var þar í tíu daga og hef ekki drukkið síðan.
Í nærri þrjátíu ár hef ég spilað á peysufatadaginn í Kvennaskólanum. Þá er farið vítt og breitt um bæinn alveg frá kl. 9 og til klukkan að ganga tvö og sungin sömu lögin, m.a. lagið Ég er kominn heim við texta Jóns banka. Og ég spilaði líka við stærstu útskrift í sögu Kvennaskólans á þessu ári (2022) þar sem 200 nemendur voru brautskráðir og ég var mættur með nikkuna í troðfullu Háskólabíói og 200 stúdenta á sviðinu. Þá var aldeilis tekið lagið.
Ýmislegt óvænt getur komið upp. Um daginn var ég fenginn til að spila við útför í Hafnarfjarðarkirkju, átti að spila á nikkuna í 20 mínútur fyrir athöfnina og svo My way eftir athöfn og síðan einnig í erfidrykkjunni. Þegar til sjálfrar athafnarinnar kom var ekki búið að opna orgelið en sex manna kór mættur á staðinn. Ég snerti því aldrei orgelið en spilaði sálmana á nikkuna og kórinn söng, dúndurflottur lítill kór. Einn kórfélaganna er Benedikt kunningi minn, ættaður að norðan. Annars hef ég ekki spilað við útfarir í 10–15 ár. Þetta var þónokkur áreynsla því að þrekið er farið að minka. Ég fer að geta sagt eins og faðir minn sálugi sagði eitt sinn á sjúkrahúsi:
Fjörið þrýtur, þrekið dvín,
þreyttur hnýt að beði.
Enginn lítur inn til mín,
engrar nýt ég gleði.“
Hér lauk spjallinu við ljúfmennið Reyni Jónasson sem eitt sinn var í könnun á vegum tímaritsins Fálkans valinn vinsælasti harmónikuleikari landsins. Einstakur maður og lítillátur og höfðingi heim að sækja. Einstök hjón, Agnes og Reynir.
Baldur Hafstað skrifar fyrir Lifðu núna