Í gærkvöldi var sýndur á RÚV lokaþáttur Leitarinnar að Raoul Moat. Þessir áhrifamiklu þættir eru byggðir á sönnum atburðum og þótt samræður lögreglumanna og ýmislegt fleira sé skáldað er raunverulegri atburðarás fylgt í meginatriðum. Það er svo sem ekkert nýtt í því að siðblindir morðingjar drepi fólk og leggi síðan á flótta en sérstætt að allstór hópur fólks skipi sér í lið með óþokkanum og geri sitt besta til að tefja fyrir lögreglunni og leggja stein í götu hennar.
Í fyrsta þættinum voru sýndar klippur úr sjónvarpsfréttum frá árinu 2010, já, það eru ekki nema þrettán ár síðan ofbeldismaðurinn Raoul Moat drap ungan mann fyrir þær einar sakir að hafa farið á nokkur stefnumót með fyrrum sambýliskonu hans. Raoul þessi hafði misþyrmt og kvalið konurnar í lífi sínu árum saman og einnig lagt hendur á börnin sín. Hann hafði fátt sér til málsbóta en samt fullyrti þetta fólk að hann væri hetja, bæði konur og karlmenn.
Hetjuskapurinn að þeirra mati fólst í því að sætta sig ekki við að fyrrum kærasta héldi áfram með líf sitt og reyndi að eiga sér heilbrigt og ánægjulegt ástarsamband. Að taka fram vopn skjóta nýja manninn til bana og gera tilraun til að drepa barnsmóður sína og fyrrum sambýliskonu, móður hennar og systur voru að þeirra mati eðlilegt viðbrögð. Það er svo óskiljanlegt að nokkur manneskja geti afsakað gerðir eins og þessar, geti skrifað andstyggilega pósta á netið þar sem lítið er gert úr þolendum hans og lögreglan hundskömmuð fyrir viðleitni sína til að ná honum og handtaka.
Þættirnir eru einstaklega vel unnir og leikararnir frábærir. Lee Ingleby í hlutverki rannsóknarlögreglumannsins Neil Adamson kemur einstaklega vel til skila togstreitunni sem skapast þegar lögreglan er að reyna að vinna starf sitt en veit að hvert skref þeirra er grandskoðað og gagnrýnt af almenningi. Hann er í þröngri stöðu við endalok leitarinnar er spennan áþreifanleg. Ofbeldismaðurinn sér sjálfan sig sem þolanda og telur gerðir sínar réttlætanlegar og skiljanlegar svo menn óttuðust að hann myndi reyna að ögra lögreglunni til að skjóta sig. Það hefði snúið almenningsálitinu endanlega lögreglunni í óhag. Þættirinir eru aðgengilegir inn á vef RÚV og ef einhver hefur misst af þeim er óhætt að mæla með að horfa á þá þar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.