„Þetta eru allt „Die Hard“ kylfingar. Þeir eru búnir að ákveða að fara í golfferðina sína hverju sem tautar og raular. Þeir spara bara á öðrum sviðum,“ segir Jóhann Pétur Guðjónsson, eigandi GB ferða. Ferðaskrifstofum sem selja golfferðir ber saman um að salan á þeim sé orðin svipuð og hún var fyrir hrun jafnvel ívið meiri. Fyrstu tvö árin eftir hrun hafi kylfingum fækkað talsvert sem fóru í til útlanda að spila en það hafi jafnað sig aftur.
Komnir yfir miðjan aldur
Hjá GB ferðum er allt uppselt í apríl en enn er hægt að komast í ferðir í maí. „Það eru næstum allar ferðir uppseldar í vor,“ segir Hörður B. Arnarson hjá Heimsferðum. Starfsfólk hjá Úrval Útsýn hafði svipaða sögu að segja, þar voru nokkur laus sæti í apríl og maí. Hörður segir að yfir áttatíu prósent þeirra sem fara á vegum Heimsferða í skipulagðar golfferðir séu komnir yfir miðjan aldur. Jóhann Pétur segir að flestir sem fari slíkar ferðir séu á aldrinum 40 til 65 ára. „Annars er þetta fólk á öllum aldri,“ bætir hann við.
Konurnar ekki eins duglegar
Jóhann Pétur segir að það séu karlar sem taki sig saman og fari í golfferðir, það sé algengast. „Þetta eru átta, tíu , tólf og allt upp í tuttugu manna karlahópar sem eru að spila saman á sumrin. Á vorin og haustin fara þeir svo í golfferðir. Næst algengast er að það séu pör eða hjón. En ég sé minna af kvennahópum. Konurnar mættu alveg vera duglegri að taka sig saman og fara í skipulagðar golfferðir. Þær sem fara í slíkar ferðir skemmta sér ekki síður vel en karlarnir,“ segir Jóhann Pétur.
Sérstakur klúbbur
Icelandair rekur sérstakan klúbb fyrir kylfinga, Icelandairs golfers. „Það er að fjölga í klúbbnum hjá okkur en hann er ætlaður fyrir þá sem fara oftar en einu sinni á ári til útlanda að spila golf,“ segir Svava Sigurjónsdóttir sem stýrir klúbbnum. Árgjaldið í klúbbinn er tæpar níu þúsund krónur. Meðal fríðinda sem félagsmenn njóta eru að þeir mega mega taka með sér golfsett í farangri án þess að greiða fyrir það sérstaklega. Golfsettið má þó ekki vera meira en 25 kíló. Ekkert takmark er á fjölda ferða innan gildistíma kortsins. Golfferðir eru misdýrar. Ódýrustu helgarferðirnar kosta frá hundrað þúsund krónum á mann í tvíbýli.