Að sanna að ég sé ég!

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.

 

Danmörk er það land sem flestir landar mínir sem sækja til vegna náms eða starfa. Ég held að ég hafi heyrt að yfir 10 þúsund Íslendingar séu búsettir þar í landi. Ég átti heima í Danaveldi um árabil og á rétt á einhverjum greiðslum þaðan. Ég hef átt danskt bankakort lengi þar sem þó nokkrar upphæðir fara í gegnum árlega.

Vegna hertra öryggisreglna fékk ég upplýsingar um að ég þyrfti að ná mér í nokkuð sem heitir MitID sem er auðkenni og lykill að öllum gáttum bankakerfisins, ella væri kerfið að loka á nefið á mér. Ég bað son minn að hjálpa mér við þetta. Hann sótti vandræðalaust app í símann minn og nú byrjaði ballið. Taktu mynd af forsíðu vegabréfsins, farðu svo aftast í vegabréfið og legðu símann þar og upp kemur beiðni um að þú takir mynd af sjálfri þér. Þegar það er gert kemur svarið. Þú passar ekki við sjálfa þig. Myndirnar eru ekki nógu líkar. Við reyndum aftur og aftur. Taktu niður gleraugun, lagaðu hárið, ekki brosa, brostu. Ekkert dugið. Ég passaði bara aldrei við sjálfa mig enda fjögur ár síðan passamyndin var tekin. Nýr sími prófaður. En það gekk ekkert betur. Ég bað vinkonu mína að hjálpa mér. Hennar tilraunir fóru á sömu leið.

Ég beit ég á jaxlinn og ákvað að fara í danska sendiráðið til að kanna hvort þar væri hjálp að fá. Afgreiðslustúlkan brosti vandræðalega og sagðist fá daglegar fyrirspurnir um þetta sama vandamál. Sendiráðið gæti ekkert gert, en ég gæti reynt að fá mér nýtt vegabréf og fara svo í myndatökuferlið strax í kjölfarið helst sama dag til þess að ég hefði ekki tekið neinum breytingum. Stúlkan vissi um eldri hjón sem höfðu farið þessa leið og hún hafði tekist!

Hitt ráðið var að fara til Danmerkur á borgaraskrifstofu og fá hjálp þar. Ég var búin að kynna mér hvað þyrfti af skjölum fyrir heimsókn á borgaraskrifstofuna. Ég útvegaði mér fæðingarvottorð (á mínum aldri væri kannski eðlilegra að það væri dánarvottorð!) og skjöl frá danska skattinum og spurði sendiráðskonuna hvort ég þyrfti virkilega danskt vitni líka eins og ég hafði frétt. Hún fullyrti að svo væri ekki.

Svo vildi til að ég var á leið til Danmerkur og pantaði mér því tíma hjá borgaraþjónustunni í leiðinni. Ég vélaði sonardóttur mína til þess að koma með mér og bera vitni um að ég væri sú sem ég segðist vera. Hún hefði miklu frekar viljað vera að versla á Strikinu. Við tókum leigubíl eftir endilangri Kaupmannahöfn fyrir drjúgan pening og fórum í biðröð. Elskulegur ungur maður kallaði okkur upp og ég var með öll réttu skjölinn. Hann fór að kenna mér á kerfið og spyr svo hvort ömmubarnið væri vitnið mitt. Ég hélt nú það. Má ég sjá þitt MitID spyr hann. Hún átti eðlilega ekkert slíkt í fórum sínum. Þar fór þessi tilraun í vaskinn. Hann fór að reyna margreyndu leiðina í símanum. Honum tókst heldur ekki að láta mig passa við sjálfa mig.

Þekkir þú virkilega engan með MitID sem getur komið og borið vitni? Ég neita og hann segist þá ekki geta gert neitt meira fyrir mig. Mig langaði mest til þess að setjast niður og gráta. En eldri konur gráta ekki, allra síst fyrir framan ömmubarn. Ég hringdi því í vin sem átti danskan vin sem ég hringdi í. Vinurinn var á leið til læknis en með því að taka leigubíl og láta bílinn bíða gæti hann skotist inn og sannað þessi ósköp – að ég væri ég.

Tveimur og hálfum tíma seinna kvöddum við afgreiðslumanninn sem gaf mér „fimmu“ af gleði yfir því að ég gæti farið heim til Íslands með MitID í símanum. Nú er eins gott að ég týni ekki símanum eða gleymi öllum aðgangsorðunum sem ég þurfti að semja á staðnum. Ef það gerist þarf ég að fara aftur í Hafnar til þess að byrja ferlið upp á nýtt. Er nokkuð hægt að flækja þetta meira

Sigrún Stefánsdóttir apríl 15, 2024 08:16