Sigríður Björnsdóttir er frumkvöðull hér og þótt víðar væri leitað í listmeðferð eða art therapy en er einnig myndlistarkona og var framsækin sem slík. Eftir útskrift úr myndlistarskóla og sem myndmenntakennari langað hana að vinna með börnum sem lágu á spítala. Þegar hún sá góðan árangur listmeðferðarinnar vildi hún vinna með fleirum þar sem þessi meðferð gæti gagnast og hóf að vinna með föngum. Sigríður vann í fjölda ára á barnadeild Landspítala og fór í víða um heim til að halda fyrirlestra á alþjóðlegum barnalæknaráðstefnum. Sigríður er nú komin á tíræðisaldur en gaf út bók á dögunum, Dieter Roth in My Life en fyrr á þessu ári kom út bók um ævi og störf Sigríðar, Art Can Heal eftir Ágústu Oddsdóttur og Egil Sæbjörnsson og bók um list hennar kom út fyrir nokkrum árum.
Sigríður fæddist í Ásum í Skaftártungu, hún er prestsdóttir og segist hafa verið sjálfstætt barn og unað sér úti við leik. Þar hafi hún m.a. legið og horft upp í skýin og velt fyrir sér margbreytilegum formum þeirra. Hún minnist þess líka að á heimilinu hafi verið myndlistarbók sem henni þótti mikið varið í og gleymt sér við að skoða. Hún fór síðar í Verslunarskólann og svo lá leiðin í Myndlista- og handíðaskóla Reykjavíkur.
Börnin opnuðu sig í gegnum myndirnar
Sigríður sat við borð heima í foreldrahúsum eftir útskrift sem myndlistarkennari árið 1952 þegar henni varð litið á eldspýtnastokk. „Ég var eitthvað að fikta við hann en á annarri hliðinni er mynd af unglingi á hækjum og það kveikti í mér. Þarna hugsaði ég með mér; hvað með öll veiku börnin sem eru á stofnunum, við höfum ekkert lært um þau eða sent til þeirra í æfingakennslu.
Ég hafði eignast dóttur og hún var eftir hjá foreldrum mínum. Ég sá þörfina til að mennta mig og fá einhver réttindi þegar mér varð ljóst að ég yrði einstæð móðir svo ég gæti skapað okkur heimili. Þess vegna fór ég í myndlistarnámið en það sem á eftir kom var köllun. Mér fannst ég verða að vinna með veikum börnum á stofnunum og til þess yrði ég að fara á stofnanir. Ég var bara að reyna að komast til útlanda. Á þesum tíma fannst mér ekkert sjálfsagðara en að ég skrifaði heilbrigðismálaráherra Bretlands. Ég skrifaði honum og sagði eins og var, þörfina hjá mér að læra að vinna með veikum börnum á sjúkrahúsum en á þessum tíma var ekkert barnasjúkrahús komið á Íslandi.
Ráðherra skrifaði mér til baka og sagði að búið væri að ráða mig á Great Ormond Street- barnaspítalanum, ég ætti að tala við forstjóra spítalans, Mr. Ruterford. Hann útvegaði mér aðstöðu með kennurunum og bókaði herbergi fyrir mig á hosteli beint á móti British Museum. Ég fékk aðstöðu hjá skólakennurunum þar sem ég gat fylgt þeim á deildir og fylgst með börnum.
Þarna voru greinilega mjög veik börn líkamlega. Ég var aldei feimin við að gera það sem mér fannst ég þyrfti að gera, þau gátu litað þó að þau væru illa á sig komin, ég hjálpaði þeim að finna stöðu ef þess þurfti og ég sá með tímanum að börnin fóru að hressast. Starfsfólkið var allt mjög almennilegt og ég fékk mikil viðbrögð á hvað þetta hafði góð áhrif á krakkana, m.a. að þau börn sem höfðu legið undir sæng fóru að rísa upp úr rúmunum.
Svo kom að því að mér fannst að nú hefði ég æft mig í að vinna með líkamlega veikum börnum, en þeim leið andlega illa mörgum hverjum. Ég hugsaði því með mér að ég þyrfti að komast að á einhverjum geðspítala þar sem börn væru og fór að spyrjast fyrir um slíkan. The Maudestley Hospital varð fyrir valinu. Ég pantaði viðtal við yfirmann deildarinnar, prófessor Cameron, og ég fékk að koma í heimsókn. Þegar fundi okkar var lokið bauð hann mig velkomna. Ég lærði mjög mikið þarna. Forstöðukonan, Ms. Forward, var iðjuþjálfi og var ein með deildina en hafði lærlinga svo var ég líka þarna. Hún sinnti mér einstaklega vel. Ég fór að vera djarfari og láta börnin mála á veggina. Börnin þarna voru mjög veik mörg hver en þetta voru meira og minna börn sem höfðu verið mjög vanrækt í æsku.“
Aðspurð segir Sigríður að það hafi þurft allt aðra nálgun á börnin sem voru andlega veik en þau sem voru líkamlega veik. „Það var allt öðruvísi, maður gat verið miklu djarfari með þessi börn. Undirstöðunálgunin var sú sama, að segja þeim ekki að gera hlutina heldur að veita þeim tækifæri til að skapa. Ég gaf ég börnunum tækifæri til að tjá sig í sköpun og opna þá á eitthvað og þau tjáðu sig mikið í gegnum myndirnar,“ segir Sigríður.
„Þarna vann ég í ár, tíminn var mjög lærdómsríkur og ég hafði áttað mig á hversu áhrifaríkur þáttur frjáls og persónuleg myndsköpun er í þroskaferli barna og við úrlausn tilfinningalegra og sálrænna vandamála sem þau tjá í myndum.“
Kynntist eiginmanninum á fyrsta degi í Kaupmannahöfn
Eftir þennan lærdómsríka tíma lá leiðin til Kaupmannahafnar. „Mér fannst ég verða að kynnast því hvernig þessum málum væri háttað á Norðurlöndunum. Og alltaf var Adda mín hjá foreldrum mínum. Ég skrifaði til yfirlæknisins á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn og yfirlæknis á einkaspítala. Ég var með bréf frá mínum fyrrverandi yfirmönnum um hvað ég hafði verið að gera og var boðin velkomin á báða staði. Ég fór á Ríkisspítalann og bjó á KFUK-hosteli rétt hjá Sívala turninum.
Ég var rétt búin að koma mér fyrir þegar ég hitti stúlku sem bjó þarna líka og sagðist vera að fara á hátíð sem Svisslendingar héldu um kvöldið. Það væri kvöldverður og dansað og hún spurði mig hvort ég vildi ekki koma með. Hún var með kærasta og vin sem átti að vera minn borðherra. Sá kom svolítið seint þannig að við fengum þrjá lausa stóla við borð. Þá settist ég beint á móti ungum manni sem mér fannst mikill furðufugl. Hann var krúnurakaður og gerði skrýtnar kúnstir, og allt öfugt við það sem aðrir gerðu. Þetta var Dieter Roth sem átti eftir að verða eiginmaður minn. Þegar ballið var búið gengum við fjögur út í fallega ágústnóttina en við Dieter fórum að hittast eftir þetta.“
„Sigga leikkona er komin“
Eftir dvölina í Kaupmannahöfn fór Sigríður heim og hafði samband við Kristbjörn Tryggvason, yfirlækni á barnadeild Landspítala, og hann tók henni sérlega vel. „Barnadeildirn var á 3. hæð í gamla spítalnum. Þarna gekk ég með fyrsta barn okkar Dieters, Karl, svo fæddist Björn og loks Vera. Kristbjörn var fastheldinn og þéraði mig í sex ár. Einu sinni kom hann til mín og sagði: „Sigríður, ég sé að það sem þér eruð að gera með börnunum er mjög mikilvægt“. Hann gaf mér algjört frelsi til að gera það sem ég vildi. Ég var með stóran bakka fullan af sandi og passaði bara vel að ekkert færi í rúmin og ég var með undirlak til þess að börnin sem voru rúmföst gætu leikið sér.“
Á þessum tíma þegar þú kemur heim fyrir 1960 voru börnin skilin mikið eftir ein í sínum rúmum, hverju skilaði það sem þú gerðir? „Já, börn á sjúkrahúsum á þessum tíma voru skilin mikið eftir ein og hérlendis höfðu foreldrar einungis fengið að heimsækja börn sín tvisvar í viku, klukkustund í senn en það var talið að foreldrar hefðu truflandi áhrif á börnin. Listmeðferðin skilaði sér í því að barnið fyndi traust og öðlaðist hugrekki til að tjá sig í myndum. Þessi sköpun skilaði sér í meiri vellíðan hjá börnunum, þeim leið miklu betur og það var augljóst. Læknarnir á Landspítalanum sáu og töluðu um það, sérstaklega yfirlæknirinn, Kristbjörn.“
Þetta hefur verið dásamlegt fyrir börnin og stuðlað að þeim leið betur, hafði þetta keðjuverkandi áhrif á allt bataferlið? „Já, það er rétt, börnunum leið miklu betur sem manneskjum inni á spítalanum þegar þau höfðu einhver skapandi viðfangsefni. Það var svo yndislegt hvernig börnin tóku á móti mér á hverjum morgni þegar ég kom keyrandi inn sandinn og fleira, þá komu þau sem höfðu fótavist hlaupandi á móti mér og kölluðu svo inn í sjúkrastofurnar: „Sigga leikkona er komin, Sigga leikkona er komin“. Þetta yljaði mér alltaf, þetta var svo fallegt.“
Kynnti listmeðferðina um allan heim
Það urðu straumhvörf að segja má að upp úr 1970 þegar norrænt barnalæknaþing var haldið í Reykjavík. Sigríður hélt að því tilefni sýningu á verkum barnanna á spítalnum og fylgdu myndunum textar sem börnin sögðu um myndirnar sínar. Og sýningin vakti athygli.
„John Lind, yfirlæknir barnadeildarinnar á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, var mjög hrifinn og bauð mér að koma út og setja upp svona sýningu, en það er stórt listagallerí á Karólínska sem listamenn geta leigt fyrir sýningar. Sýningin vakti mikla athygli, þarna komu blaðamenn, útvarpsfólk og alls konar fjölmiðlafólk til að tala við mig. Ég sat yfir sýningunni og hafði gert plakat um hana og sett í umslög til að senda vinum mínum þegar John Lind kom einn daginn og vildi endilega að ég sendi þau í umslögum merktum Karólínska og það var úr.“
Það var upphafið að ferðum Sigríðar út um allan heim. „Mér var boðið eftir þetta á hvert einasta barnalæknaþing í árafjölda þar til ég ákvað sjálf að nú væri komið gott og ég treysti mér ekki lengur að fara um 2000. Á þingunum var ég með slide-myndir og talaði út frá myndunum, las aldrei af blaði, en sagði frá tilfellarannsóknum. Ég fór víða, m.a. til Manilla, Nýju-Deli, Argentínu, Ástralíu og Sao Paulo.“
Sigríður hóf síðan að starfa náið með John Lind og Ivonny Lindquist sem var forstöðumaður listmeðferðardeildar á háskólasjúkrahúsinu í Umeå. Þau kynntu listmeðferðina á þingum víða um heim og mikilvægi leiks og skapandi þátta til að stuðla að betri líðan barna, bæði tilfinningalega og andlega, og hvernig þau gætu tjáð erfiða upplifun og líðan með myndsköpun. Listmeðferðin hafði góð áhrif á börnin og líðan þeirra og John Lind hafði gert könnun sem sýndi að listmeðferð hafði góð áhrif á læknisfræðilega meðferð sem börn undirgengust.
Hvað fannst læknum á þingunum yfirhöfuð um listmeðferð sem var ný af nálinni? „Þeir voru allir bæði mjög góðir við mig og afar ánægðir með það sem ég var að gera. Þetta var einstaklega gefandi,“ segir Sigríður en hún lenti í ýmsum ævintýrum á ferðum sínum. „Ég fór til Buenos Aires í Argentínu með mínum yndislega vini Halldóri Hansen barnalækni en þar voru alls staðar vopnaðir verðir og ástandið í landinu ekki gott. Þegar maður kom á ráðstefnuhótelið voru sex verðir vopnaðir rifflum sem stóðu fyrir framan það og miðuðu á mann. Einn daginn treysti ég mér ekki snemma um morguninn á ráðstefnuna en Halldór sagði mér að þegar hann kom þá kom út var hann stöðvaður skyndilega af einum verði sem miðaði á hann og spurði ákveðinn: „Where is Sigga!?“ Sigríður hlær að þessu og segir að augljóslega hafi verið fylgst vel með fólki. „Ég ákvað einu sinni að ganga frá leirmunum barnanna á Íslandi á þessu þingi og setja upp aftur til að gæta öryggis vegna þess að það höfðu munir horfið. Þar sem ég stóð og var að ganga frá, var allt í einu miðað á mig byssu eins og ótíndan glæpamann. Ég reyndi að útskýra hvað ég væri að gera og hver ég væri en það sem verra var, þeir skildu enga ensku og ætluðu að ýta mér inn í eitthvert herbergi,“ segir hún og viðurkennir að þetta hafi ekki verið skemmtileg reynsla.
Vildi ná til fleiri með listmeðferð
Sigríður hafði mikla ástríðu fyrir starf sínu. Þegar hún og læknarnir urðu þess áskynja hve góð áhrif listsköpunin hafði á börnin langaði hana til að ná til fleiri þar sem listmeðferðin gæti leitt til góðs. Svo fór að hún hóf að vinna með föngum.
„Mig langaði að vinna með föngum og setti upp námskeið fyrir fanga á Litla-Hrauni. Ég setti brúnan umbúðapappír á veggina og svo máluðu þeir á. Þeir voru sjö í hóp og myndirnar voru á stærð við þá sjálfa. Þeim leið ljómandi vel þarna hjá mér og voru indælir. Þeir sátu svo í hring og töluðu um myndirnar sínar en þeir voru bljúgir gagnvart þessu og tóku af mér það loforð að ég myndi aldrei sýna myndirnar. Ég hef að sjálfsögðu staðið við það.“
Á þessum tíma hafði ég kynnst fanga í Skotlandi, Jimmy Boile, en hann hafði verið óeirðarunglingur í fátækrahverfi í Glasgow. Hann sagði mér að alltaf þegar vinirnir fóru út í kvöldin höfðu þeir meðferðis hnífa ef einhverjir myndu ráðast á þá. Jimmy var myndhöggvari. Ég fór á tímabili sérstakar ferðir til að heimsækja hann í fangelsið í Glasgow en hann var lífstíðarfangi og hafði drepið mann. Ég var alveg óhrædd við að fara til hans og þegar ég mætti í fangelsið var mér sagt að Jimmy biði með hádegisverð fyrir mig uppi í herberginu sínu,“ segir hún og brosir að minningunni. „Ég hafi mikla trú á listmeðferðinni. Ken Murry var yfirfangavörður þarna og yndislegur maður en hann sagði að myndsköpunin hefði haft mjög jákvæð áhrif á Jimmy, fólk fann breytinguna á fanganum. Þetta rak mig áfram til að fylgjast með honum. Ég fékk svo Norræna húsið til að bjóða honum hingað til að halda fyrirlestur og hann hélt þar einnig sýningu á höggmyndum sínum. Við stóðum saman og tókum á móti fólki við innganginn. Ég trúði svo á þennan bata. Ég treysti sjálfri mér og hafði trú á þessu tæki sem listmeðferðin er. Hún er tæki til að tjá tilfinningar sínar og vinna með og losa sig við erfiðar tilfinningar. Myndsköpunin er þá notuð til að vinna með sig persónulega og þroskast í gegnum hana.“
Gefur út bók á tíræðisaldri
Sigríður segist hafa látið af störfum fyrir aldamótin síðustu eftir farsæla starfsævi. Hún er þó ekki sest í helgan stein. Það er ekki í hennar eðli að sitja aðgerðarlaus. Hún hefur unnið að myndlistinni og nú er hún búin að gefa út bók, komin vel yfir nírætt.
„Já þetta hefur tekið mikinn tíma en ég fékk mikla þörf til að skrifa um fyrrverandi eiginmann minn, Dieter Roth, í lífi mínu. Ástæðan er í sannleika sagt sú að ég hef lesið í viðtölum í bók og tímaritum, en Dieter var frægur maður, ýmislegt sem alls ekki var satt. Fyrst varð ég mjög sár og sorgbitin og sagði við sjálfa mig; hvernig getur hann logið svona? En svo hugsaði ég með mér að það þýddi ekkert að fárast yfir þessu. Ég ákvað að skrifa bók og lýsa þar daglega lífinu okkar, fólk gæti þá séð hvernig hlutirnir voru,“ segir Sigríður sem var fyrirvinna heimilisins að miklu leyti og vann að myndlistinni á kvöldin þegar börnin voru sofnuð. „Við höfðum hvorki ryksugu né þvottavél fyrstu árin. Dieter vann að sinni myndlist heima á daginn meðan ég vann á barnadeildinni en við vorum af þeirri kynslóð að konan átti að sjá um heimilisstörfin. Hann þvoði krökkunum á kvöldin og kom þeim í háttinn og gerði það mjög fallega en ég sá um matargerð, þvott og öll heimilisstörfin. Hann fór síðan út á kvöldin í vinnu við leirbrennslu á keramíkverkstæðinu Glit en þá var hann farinn að drekka. Hann leyndi því fyrir mér allt hjónabandið að hann drakk. Mér fannst hann heill og heiðarlegur en smám saman fór ég að átta mig á þessu. Hann hafði tvær hliðar. Ég ákvað að segja í bókinni blátt áfram og myndrænt frá okkar lífi, ekkert öðruvísi,“ segir Sigríður.
Hún segir hjónabandið hafa verið erfitt og að hún fundið að hún vildi ekki vera í því eins og eins og það var en Dieter hafi aldrei viljað ræða hlutina. „Ég vild fá að ræða hlutina en gat það ekki og það var mjög erfitt, hann lokaði á mig og mínar tilfinningar og ég varð niðurbrotin. En Dieter átti erfiða æsku, ólst upp í stríðinu og faðir hans var handtekinn af Rússum og var í fangelsi þar til stríðinu lauk. Móður hans tókst að senda Dieter og bróður hans til Sviss en hún komst ekki strax sjálf. Þeim var komið fyrir hjá fósturforeldrum og Dieter lenti hjá gyðinugum sem höfðu flúið Þýskaland, þetta voru listamenn og hjónin mjög tónelsk. Dieter var það sjálfur og hlustaði mikið á klassíska tónlist. Hann var mikið skammaður sem barn og var mjög tortrygginn, ég sé það núna. Hann var mjög góður við börnin sín og margt mjög gott í honum en hann var erfiður. Ég vann mig svo í gegnum sorgina og reiðina sem fylgdi hjónabandinu en ég held að Dieter hafi aldrei horfst í augu við sjálfan sig í þessum efnum.“
Sigríður segir að þau Dieter hafi unnið hvort í sínu lagi að listinni. „Við unnum sitt í hvoru lagi, hann vann á daginn og ég á kvöldin að minni myndlist. Dieter sýndi minni list í raun miklu meiri virðingu en ég sjálf. Hann hengdi upp myndirnar mínar, setti ljóðin mín á sýningu í Kaupmannahöfn. En hann var listamaðurinn í mínum huga.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna