Nóbelsverðlaunahafinn Toni Morrison lést þann 5. ágúst árið 2019. Hún var þá áttatíu og átta ára. Toni var meðal fremstu rithöfunda Bandaríkjanna á síðustu öld og hún hafði sterka rödd og var óvægin í gagnrýni sinni á samfélagið.
Hún, Maya Angelou og Alice Walker áttu það sameiginlegt að vera femínistar og hafa djúpan skilning á stöðu kvenna en einnig því algjöra valdaleysi sem flestar þeldökkar konur búa við. Þekktust er Toni fyrir söguna Beloved eða Ástkær eins og hún var kölluð á íslensku. Þar tekst hún á við þrælahaldið og afleiðingar þess. Í fyrstu skáldsögu sinni The Bluest Eyes er hins vegar í forgrunni þrá allra kvenna eftir viðurkenningu fyrir útlit sitt, fá að passa inn í og njóta aðdáunar. Aðalsöguhetjan Pecola þarf þó að gjalda dýru verði uppfyllingu óska sinna. Toni skrifar ævinlega af miklu raunsæi og yfirvegun jafnvel þegar um sára hluti er að ræða. Hún er ekkert að hlífa lesendum sínum, ekki frekar en Maya Angelou í sjálfsævisögulegu skáldsögum sínum og ljóðinu Phenomenal Woman.
Í skáldskap sínum dregur Toni upp litríkar og áleitnar myndir. Hún er líka einstaklega fjölhæf hvað varðar stíl og viðfangsefni. Um ævina skrifaði hún ellefu skáldsögur, auk þeirra sem þegar hafa verið nefndar mætti benda á, Sula, Song of Solomon, Jazz, Paradise og God Help the Child en þær eru allar frábærar. Auk Nóbelsverðlaunanna hlaut hún Pulitzer-verðlaun, National Book Awards og orðu fyrir framúrskarandi framlag sitt til amerískra bókmennta og orðu Bandaríkjaforseta fyir frelsisbaráttu og fleira og fleira.
Obeldið allt um kring
Toni fæddist í Lorain í Ohio þann 18. febrúar árið 1931. Hún var skírð Chloe Anthony og bar ættarnafnð Wofford. Faðir hennar var verkamaður og móðirin heimavinnandi. Hann varð ungur vitni að því þegar hópur hvítra manna réðst inn í hverfið þar sem hann bjó og hengdi tvo svarta kaupsýslumenn. Þeirra eini glæpur var að njóta velgengni. Þetta setti djúp spor í sálarlíf hans og þess vegna settist hann að í Lorain með fjölskyldu sína en þar bjuggu eingöngu svartir. Þrátt fyrir það sluppu þau ekki við ofbeldið. Dag nokkurn kom leigusali þeirra og kveikti í húsinu þar sem þau bjuggu meðan þau voru öll heima til að sýna óánægju sína yfir því að þau höfðu ekki borgað leiguna á réttum tíma. Viðbrögð fjölskyldunnar voru að hlæja að þessu. Síðar sagði Toni það einu leiðina til að varðveita eigin heilindi frammi fyrir svo ömurlegum rustahætti.
Á æskuheimili hennar var sagnahefðin haldin í heiðri og hún ólst upp við draugasögur, þjóðsögur og frásagnir af lífi forfeðra sinna og mæðra. Toni drakk þetta í sig og hafði næma tilfinningu fyrir máli. Hún las mikið og var í ræðumennskuliðinu í framhaldsskóla. Hún lauk námi frá Howard-háskóla árið 1953 með BA-prófi í ensku. Hún var fyrsti þeldökki ritstjórinn til að fá ráðningu hjá Random House. Þar starfaði hún frá 1967 til ársins 1983 þegar helgaði sig ritstörfum eingöngu. Random House gaf hút hennar fyrstu bók árið 1973 og þótt hún vekti litla athygli til að byrja með hefur hún unnið á í gegnum árin og er nú á leslista í flestum bandarískum framhaldsskólum.
Meðal einlægra aðdáenda hennar eru Oprah Winfrey og Barack Obama. Hún er þekkt fyrir meitlaðar og fallegar setningar þar á meðal:
„Tungumálið verndar okkur öll gegn geigvænleika hluta sem hafa ekkert nafn.“ „Tungumálið eitt og sér er hugleiðsla.“
„Þú vilt fljúga, þá verðurðu að gefa upp á bátinn allan þann skít sem heldur þér niðri.“
„Ef þig langar að lesa bók sem ekki hefur verið skrifuð enn verður þú að skrifa hana.“
„Á einhverjum tímapunkti í lífinu verður fegurð heimsins nóg. Þú þarft ekki að mála hana, mynda hana eða einu sinni muna hana. Hún er nægir.“