Tengdar greinar

Lifði af árás morðingja

Salman Rushdie hlýtur bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í ár og fær þau afhent í Háskólabíói 13. september næstkomandi. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að skáldsögur Salmans Rushdies séu heillandi, heimspekilegar og upplýsandi sögur fyrir lesendur sem eru tilbúnir að uppgötva nýja heima. En þekktastur er Salman án efa fyrir skáldsöguna Söngvar Satans og að hafa þrátt fyrir dauðdóm klerkastjórnarinnar í Íran haldið áfram að skrifa og gefa út bækur.

Í ellefu ár neyddist Salman til að lifa í felum því reikna mátti með að öfgamenn gerðu atlögu að lífi hans til að öðlast hetjusess í hugum klerkanna og svipað þenkjandi manna. Hann hefur um árabil búið í Bandaríkjunum ásamt konu sinni Elizu Griffiths ljóðskáldi. Hann lýsir því á einkar fallegan hátt í nýjustu bók sinni, Hníf, hvernig þau kynntust á bókmenntahátíð árið 2017. Þau urðu öruggari með sig eftir því sem tíminn leið og þess vegna kom það þeim í opna skjöldu þegar svartklæddur maður réðst upp á svið því að í the Chautauqua Institution í New York þar sem Salman ætlaði að flytja fyrirlestur og stakk  rithöfundinn hvað eftir annað. Vinur hans sem sat uppi á sviðinu og hópur áhorfenda náði að yfirbuga manninn og bjarga lífi Salmans en hann var illa særður, meðal annars missti hann sjón á öðru auga, taugar og sinar í annarri hönd hans voru mikið skemmdar og ótal stungusár voru víða á líkamanum einkum á hálsinum. Þetta gerðist fyrir tveimur árum og í bókinni Hnífur lýsir hann aðdraganda og eftirmálum árásarinnar.

Hnífur reiddur í návígi

Forlagið hefur gaf nýverið út þá bók út í þýðingu Árna Óskarssonar í tilefni þess að Salman hlýtur verðlaunin og kemur hingað til lands til að veita þeim viðtöku. Hnífur er áhrifamikil bók, fádæma vel skrifuð og hlýtur að snerta alla Íslendinga á alveg sérstakan hátt um þessar mundir vegna nýliðinna atburða á menningarnótt. Það er flestum óskiljanlegt að nokkur geti tekið sér vopn í hönd og ráðist gegn annarri manneskju af ofsa og grimmd af litlu tilefni. En það gerði árásarmaðurinn í Chautauqua. Þolandi hans lifði af og færir heiminum einstæða innsýn inn í hvernig er að standa í þeim sporum að mæta í návígi manneskju sem er staðráðin í að drepa þig.

Það er ekki annað hægt en að dást Salman bæði sem manneskju og rithöfundi. Að hafa í þrjátíu ár haldið áfram að skrifa og senda frá sér bækur þrátt fyrir þá ógn sem vofði yfir höfði hans vegna þeirrar yfirlýsingu klerkanna að hann væri réttdræpur sýnir sjaldgæft hugrekki. Margur hefði án efa fremur kosið að leggja árar í bát. Bækur hans eru ljóðrænar og textinn oft ákaflega fallegur. Söngvar Satans, Miðnæturbörn, Harún og sagnahafið, Hinsta andvarp márans og Jörðin undir fótum hennar hafa áður komið út á íslensku en undirrituð mælir með að lesa líka Shalimar the Clown. Í þessum bókum njóta höfundareinkenni hans sér einkar vel.

Sílesandi frá barnæsku

Salman Rushdie fæddist í Bombay á Indlandi 19. júní 1947. Foreldrar hans voru múslimar frá Kashmiri-héraði. Pabbi hans, Ahmed, var lögfræðingur að mennt, lærði í Cambridge-háskóla á Bretlandi, enda Indland enn undir breskum yfirráðum þegar Salman fæddist. Mamma hans Negin Bhatt var aftur á móti kennari. Ahmed vann fyrir hið opinbera en var sagt upp þegar í ljós kom að fæðingarvottorðið sem hann hafði skilað inn þegar hann fékk vinnuna hafði verið breytt í þá veru að yngja hann um nokkur ár. Eftir það flutti fjölskyldan til Pakistan en Salman flutti til Englands árið 1964 til að klára menntun sína en hann lauk prófi í sagnfræði frá Cambridge-háskóla.

Frá barnæsku var hann sílesandi og þurfti alltaf að hafa handhægar hrúgur af bókum sem hann átti ólesnar. Galdrakarlinn í Oz var ein af þeim sögum sem heilluðu hann sem og Lísa í Undralandi. Auk þeirra L. Frank Baum og Lewis Carroll las hann P.G. Wodehouse, Agöthu Christie, Arthur Ransome, Tolkien, Ray Bradbury, Arthur C. Clarke og Kurt Vonnegut svo einhverjir séu nefndir. Sennilega lagði hann þar með grundvöllin að eigin rithöfundarferli en hann hófst þegar skáldsagan Grimus kom út árið 1975. Fram að því hafði Salman unnið á auglýsingastofu við textagerð.

Salman  er langt frá því að vera eini rithöfundurinn í gegnum söguna sem þurft hefur að óttast um líf sitt og þeir eru margir í dag á flótta undan öfgaöflum í heimalöndum sínum eða hatursmönnum sem líkar ekki við skrif þeirra. Nefna má Lydiu Cacho Ribeiro frá Mexico en hún bjó við ofsóknir og hótanir árum saman. Hið sama má segja Shakthiku Sathkumara frá Sri Lanka, Stellu Nyanzi frá Úganda, Nedim Turfent frá Tyrklandi og Galal El-Behairy, frá Egyptalandi. Sumt þetta fólk var fangelsað og sat inni árum saman án þess að mál þeirra fengju meðferð fyrir dómstólum. Allt vegna þess að þetta hugrakka fólk ákvað að verja tjáningarfrelsið og segja frá óréttlæti á skáldlegan hátt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

 

Ritstjórn september 7, 2024 07:00