Að eldast með reisn

Flestir vilja líklega eldast með reisn en hvað felst í því hugtaki? Ekki er langt síðan að talað var um að þeir eltust með reisn sem gerðu lítið til að leyna aldrinum og voru ekki að eltast um of við tísku ungdómsins. Í dag leggjum við allt aðra merkingu í hugtakið og nýlega rak á fjörur Lifðu núna heilræði fyrir eldra fólk sem einmitt eiga að stuðla að því að fólk haldi lífsgleði sinni, virðingu og reisn svo lengi sem það lifir.

Allt frá fimmtíu og fimm ára aldri og fram að dánardægri er ráðlegt að nota þá peninga sem þú hefur náð að spara. Notaðu þá og njóttu þeirra. Ekki geyma þá handa þeim sem hafa ekki hugmynd um hvaða fórnir þú færðir til að eignast þá. Aðrir munu eflaust koma með góðar hugmyndir um hvernig þér beri að nota þitt fé en það er ekki þeirra. Mundur einnig að ellin er ekki góður tími til að leita leiða til að fjárfesta. Sum tilboð kunna að virka freistandi en þeim fylgja ævinlega áhyggjur, fyrirhöfn og umsýsla. Þetta er hins vegar sá tími sem þú átt að nota til að njóta lífsins.

Hættu að hafa áhyggjur af afkomu barna þinna og barnabarna og slepptu allri sektarkennd þegar þú verð þínum peningum í sjálfa/n þig. Sumt fólk kann að njóta gullnu áranna meðan aðrir fyllast biturð. Lífið er of stutt til að eyða dögunum í depurð. Lífsgleði þín er á þína ábyrgð. Verðu tíma þínum með jákvæðu, glaðværu fólki og dagarnir verða skemmtilegri.

Ekki hafa áhyggjur af því hvort börnin þín eða barnabörn þurfi að sinna þér eða hvort þau vilji sinna þér. Vissulega er gott að vera umkringdur fjölskyldu sinni en öll þurfum við að vera út af fyrir okkur af og til. Þau þurfa sitt rými og þú þitt. Ef þú ert einmana eða þarft á hjálp að halda eða þú getur ekki hugsað þér að búa ein/n leitaðu eigin leiða til að fylla líf þitt. Þú sýndir börnum þínum umhyggju í mörg ár og kenndir þeim allt sem þú gast. Þú studdir þau til mennta, gafst þeim að borða, sást þeim fyrir húsnæði og sýndir stuðning. Nú eru þau fullorðin og eiga að taka ábyrgð á eigin lífi jafnt fjármálum sem öðru.

Gættu vel að heilsunni án þess að reyna um of á þig líkamlega. Hreyfðu þig hóflega á hverjum degi til dæmis með því að fara út að ganga, hjóla eða gera æfingar. Sofðu eins mikið eins og þú þarft. Eldra fólk veikist frekar en hinir yngri og þess vegna er mikilvægt að hugsa vel um heilsuna og vera meðvitaður um hvað þú þarft bæði líkamlega og andlega.

Kauptu eingöngu vandaða og fallega hluti til að gleðja sjálfan þig. Lykillinn að hagsæld á efri árum er að njóta ávaxta erfiðis síns ásamt maka sínum. Sá dagur kann að koma að þú missir hann og þá er gott að eiga minningarnar að ylja sér við.

Vertu ekki að stressa þig á smáatriðum. Þér hefur þegar tekist að komast yfir ansi margt í lífinu. Þú átt þínar góðu og slæmu minningar en það er dagurinn í dag sem skiptir máli. Láttu ekki fortíðardrauga elta þig upp né heldur framtíðaráhyggjur sliga þig. Manni verður að líða vel einmitt hér og nú.

Fylgstu áfram með tískunni þótt árin færist yfir. Aðlagaðu þinn stíl að tískunni og þínum aðstæðum. Í gegnum árin hafa allir lært hvað hentar þeim og klæðir þá. Haltu í það og vertu hreykin/n af sjálfri/sjálfum þér. Klæðaburður er partur af því hver þú ert.

Fylgstu vel með, lestu dagblöð, horfðu á fréttir og farðu á vefinn og skoðaðu umræður þar. Fylgstu með tölvupóstinum þínum og komdu þér upp einhvers konar samfélagsmiðlasíðum. Það á eftir að koma þér á óvart hversu margvíslega skemmtun má hafa af því og oft rekast á gamla vini.

Sýndu ungu kynslóðinni og hennar skoðunum virðingu. Þeirra hugmyndir eru hugsanlega gerólíkar þínum en þau eru framtíðin og munu taka við keflinu og móta heiminn eftir eigin höfði. Gefðu ráð en gagnrýndu ekki, reyndu að minna þau á að viska hinna eldri nýtist enn í dag. Notaðu aldrei frasa á borð við: Það var nú annað í mínu ungdæmi … Þetta er ykkar tími … Svo lengi sem þú lifir ertu partur af nútíðinni og þetta er þinn tími.

Stundaðu ávallt áhugamál þín. Ef þú hefur ekki neitt tómstundagaman finndu þér þá eitthvað sem heillar þig. Ferðalög, göngur, eldamennska, bóklestur, dans, leikhús, listsköpun, gæludýrahald, matjurtarækt, spilamennska, golf og ótal margt fleira er allt skemmtileg hobbí.

Talaðu ævinlega kurteislega til fólks og reyndu að komast hjá því að kvarta eða gagnrýna nema það sé algjörlega nauðsynlegt. Reyndu að sætta þig við aðstæður eins og þær þegar þér finnst þú ekki geta breytt þeim. Sársauki og óþægindi eru fylgifiskar aldursins og stundum ekki hægt að breyta neinu þar um.

Ef einhver hefur móðgað þig fyrirgefðu viðkomandi. Ef þú hefur móðgað einhvern biddu hann afsökunar. Ekki bera í brjósti neikvæðar tilfinningar. Það skilar því einu að skapa depurð og hugarvíl. Það skiptir engu hvort þú hefur rétt fyrir þér eða ekki. Einhver sagði einhverju sinni: „Að halda í óvild er eins og að taka inn eitur og bíða þess að sá sem þér er illa við deyji.“ Ekki taka inn eitur. Fyrirgefðu, gleymdu og haltu áfram að lifa.

Hlæðu og minnstu þess að þú nýtur blessunar. Þú hefur náð að lifa langa ævi. Margir munu ekki ná þínum aldri né njóta þeirra gjafa sem þér hafa auðnast. Njóttu þess að lifa friðsæla daga á þessu skeiði í lífinu þínu. Ekki stressa þig á hversdeginum, leyfðu þér að njóta hamingju.

Ritstjórn janúar 18, 2025 10:36