Á eldra fólk að vera til friðs?

Það er margt jákvætt við að eldast. Menn ráða tíma sínum sjálfir og geta sinnt ýmsu því sem hefur setið á hakanum. Þeir njóta þess að miðla af lífsreynslu sinni til yngri kynslóða og eiga gæðastundir með vinum og fjölskyldu. Þetta er meðal þess sem fram kom á framtíðarþingi um farsæla öldrun, en slík þing voru töluvert í gangi á tímabili. Það er afar áhugavert að glugga í niðurstöður þessa þings, þótt nokkuð sé liðið frá því það var haldið.

Að gera allt í rólegheitum

Eldra fólki þótti gott að geta sofið frameftir og dólað sér. „Morgunverður með elskunni alla daga“ var eitt af því sem fólk taldi jákvætt við aldurinn. Að gera allt í rólegheitum, ekkert stress, læra nýja hluti og rækta sjálfan sig. Að flokka myndir og bréf, var einnig talið jákvætt. Einnig það að stunda líkamsrækt, ferðast, fá barnabörnin lánuð og skila þeim aftur þegar maður er orðinn þreyttur.

Geiða skatta og gjöld með gleði

Heilsan og fjölskyldan eru það sem eldra fólki er dýrmætast. Því finnst hins vegar ekki að væntingar samfélagsins til þeirra séu mjög jákvæðar og margir upplifðu þær þannig að aldraðir mættu ekki vera fjárhagsleg byrði á samfélaginu. Þeir ættu að kosta sem minnst og greiða skatta og gjöld með gleði. Þeir ættu einnig að vera til friðs og taka því sem að þeim væri rétt. Vera þakklátir og gera helst engar kröfur á samfélagið.

Ekki þvælast fyrir

Á þinginu var talið verk að vinna að skapa jákvæðara viðhorf samfélagsins í garð aldraðra og koma sjónarmiðum þessa hóps betur á framfæri. Væntingar samfélagsins voru taldar klofnar, annars vegar ættu aldraðir að leggja sitt af mörkum og gegna mikilvægu hlutverki en hins vegar ættu þeir ekki að þvælast fyrir.

Fjöldamörg önnur atriði voru rædd á þinginu og ljóst að fjárhagslegt öryggi og heilbrigðisþjónusta skipta þennan hóp mjög miklu máli.

 

Ritstjórn nóvember 26, 2014 19:13