Birgir Gunnarsson var ráðinn framkvæmdastjóri þjóðkirkjunnar 2022. Hann kom úr starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og hafði áður starfað sem forstjóri í heilbrigðisgeiranum. Hann tók áskoruninni að snúa viðvarandi rekstrarvanda þjóðkirkjunnar til betri vegar eftir margra ára hallarekstur. Honum tókst, ásamt starfsfólki biskupsstofu, að fara í ýmiss konar aðgerðir sem dugðu til að snúa rekstrinum við. ,,Okkur tókst að færa reksturinn nálægt núllinu á fyrsta rekstrarárinum mínu hér 2022 og 2024 var rekstrarafkoman fín,“ segir Birgir.
Rekstur þjóðkirkjunnar ekki fjármagnaður af sölu eigna
,,Það er grundvallaratriði að rekstur þjóðkirkjunnar sé ekki fjármagnaður af sölu eigna,“ segir Birgir. ,,Rekstur síðasta árs kemur vel út og nú er afgangur af reglulegri starfsemi, sem er jákvætt, og mikill viðsnúningur í rekstri Þjóðkirkjunnar. Auk þess voru talsverðar tekjur af sölu eigna en við seldum m.a. biskupsgarð við Bergstaðastræti 75 í Reykjavík á síðasta ári. Ég vil leggja áherslu á að það er alls ekki markmið eða tilgangur með rekstrinum að skila sem mestum hagnaði. Við eigum auðvitað að nota peninga sem við höfum til að veita sem besta þjónustu um allt land en við verðum hins vegar að gæta vel að því að safna ekki skuldum eins og hafði verið gert. En nú erum við komin á góðan stað með reksturinn sem skiptir gífurlegu máli og það hefur áhrif á alla starfsemi kirkjunnar. Svo er það hlutverk okkar að veita sem mesta og besta þjónustu á landinu öllu,“ segir Birgir og er ánægður með starfsemi biskupsstofu.
Breytt samfélagsgerð kallar á nýja nálgun
Birgir segir að það hafi verið eitt af fyrstu verkefnum nýs biskups að fara í skoðun á fyrirkomulagi þjónustunnar í landinu. ,,Það er svo margt sem kallar á það eins og breytt samfélagsgerð. Áður fyrr var ekki óalgengt að prestar væru á sama staðnum alla sína starfstíð með fjölskyldur. Kall tímans er annað í dag því flestir vilja vera meira í samneyti við aðra og ég held að það sé framtíðin, meiri teymisvinna og fjölskylduvænt starfsumhverfi. Það er ein af áskorunum að fá fleiri til að mennta sig og koma til starfa í kirkjunni. Spurning hvort skipulag náms í guðfræði sé ekki eitthvað sem þarf að taka til skoðunar. Það hefur verið yfirlýst stefna Þjóðkirkjunnar að selja prestsbústaði í þéttbýli og það er í takti við þróunina í þjóðfélaginu. Áður voru prestum, kennurum, sýslumönnum og læknum skaffað húsnæði til að búa í. Nú er þetta liðin tíð og við erum að sigla í það umhverfi líka.“
Guðrún kemur að góðu búi
,,Nýr biskup kemur að góðu búi og er að gera mjög góða hluti. Eitt af því sem Guðrún hefur gert er að gera biskupsembættið sýnilegra, sem skiptir miklu máli. Hún er búin að fara á marga staði um landið og er á leiðinni víðar. Það er mjög mikilvægt að hún nálgist landsmenn af fyrra bragði og það virðist vera að skila sér. Samfélaginu veitir ekki af því að vera minnt á grunngildi kristinnar trúar jafnvel þótt fólk sæki kirkju ekki reglulega.
Guðrún hefur til að mynda ráðið bæði samskiptastjóra og samfélagsmiðlastjóra kirkjunnar og það er augljóslega að skila sér,“ segir Birgir og bætir við að hann hlakki til að taka þátt í öflugri þróun þjóðkirkjunnar á Íslandi.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.