Þegar Halla, sambýliskona Fjalla-Eyvindar, var svo farin að kröftum að hún treysti sér ekki til að lifa í útlegð lengur kom hún til byggða og varði síðustu æviárunum í litlu koti í Mosfellssveit. Sagt er að sólríkan haustdag hafi hún setið út undir húsvegg og horft með þrá í augum til fjalla og sagt: „Fagurt er á fjöllunum núna.“ Um nóttina hvarf hún fannst ekki en nokkrum árum síðar fannst konulík í Henglafjöllum.
En enginn veit hversu mörg sannleikskorn leynast í sögunum af þeim Fjalla-Eyvindi og Höllu en hins vegar er alveg víst að óbyggðirnar kalla sífellt fleiri til sín. Erfitt er að skilgreina aðdráttarafl þeirra nákvæmelega en margt kemur til. Þetta þægileg leið til að kúpla sig frá borginni og fást við eitthvað allt annað en hið venjubundna streð. Hægt er að standa á fjallstindi uppi á hálendinu og sjá ekkert manngert hvert sem augað lítur. Kyrrðin er mikil og fyrir ótalmarga er eitthvað heillandi við þá upplifun. Það má líka njóta fjalla í næsta nágranni við höfuðborgina og þar er ekki síður hægt að fá fjarlægð á borgarstreituna, enda veitir það ómetanlega yfirsýn að horfa á hana ofan frá. Fyrir þá sem langar að skella sér á fjöll koma hér nokkur ágæt ráð.
Gönguskór
Góðir gönguskór eru ekki bara lúxus heldur nauðsyn fyrir alla þá sem hyggjast ganga eitthvað að ráði. Skórnir þurfa að verja fæturnar, styðja við í ójöfnum og halda ökklanum í réttri stöðu. Þeir eiga líka að endast svo það ríður á finna skó sem eru svo þægilegir að menn finna ekki fyrir þeim á fótum sér.
Allir helstu framleiðendur íþróttaskóa bjóða nú upp á góða gönguskó. Þeir hafa þann kost að vera léttari og mýkri en hefðbundnir uppreimaðir fjallgönguskór. Hlaupaskór henta einnig mjög vel til að ganga á.
Fjallgönguskór ná upp fyrir ökklann, eru stífari og þyngri en strigaskórnir. Þeir eru nauðsynlegir í fjallgöngum og lengri göngum yfir úfið landslag, einkum vegna þess að þeir halda vel við ökklann, verja fæturnar og styrkja. Sé gengið á góðum fjallgönguskóm þreytast menn síður og finna minna fyrir fótunum eftir langan göngudag.
Margir nota orðið gönguíþróttaskóna sína í fjallgöngur og það er í sjálfu sér allt í lagi. Þeir eru þó ekki eins endingargóðir og henta ekki eins vel í torfærur. Þeir ná ekki jafnhátt upp og styðja þess vegna ekki eins vel við en við vissar aðstæður geta þeir verið fyllilega nógu góðir. Þeir eru líka sveigjanlegri, léttari og þægilegri. Þess vegna kjósa margir orðið að nota þá í styttri göngur.
Þeir einu réttu
Núorðið er úrvalið af skóm ótrúlegt. Þeir eru mjög mismunandi dýrir og ekki alltaf tryggt að þeir dýrustu séu allra bestir. Fyrir kaupandann er aðalatriðið að þeir séu þægilegir. Fætur okkar eru mjög mismunandi að lögun og lengd. Hver og einn verður að prófa skóna vel. Það borgar sig að ganga nokkrar ferðir um búðina í þeim áður en þeir eru keyptir, fara úr þeim og máta aftur og fara í þá í mismunandi sokkum.
Gott að hafa í huga
Þegar búið er að kaupa nýja skó er gott að byrja strax að nota þá. Eftir eina langa gönguferð finnur fólk yfirleitt vel hvort skórnir henta því eða ekki. Henti skórnir alls ekki má reyna að skila þeim ef ekki sér á þeim eða selja einhverjum öðrum þá.
Aldrei gera ráð fyrir að einhverjir tilteknir skór henti þér. Þótt þú hafir keypt áður frá sama framleiðanda eru iðulega gerðar smávægilegar breytingar á skógerðinni milli ára og nýjar týpur passa stundum alls ekki eins vel og sú gamla. Þess vegna þarf alltaf að máta skó. Hikaðu ekki við að prófa kven- og karlaskó. Þótt konur velji oftast kvenskó og svo öfugt er allsendis óvíst að þeir séu endilega bestir fyrir þig. Það má vel vera að þínir fætur passi betur í skó ætluðum hinu kyninu.
Farðu alltaf seinnipart dags til að kaupa skó. Fæturnir þrútna yfir daginn og ef mátað er að morgunlagi er mjög líklegt að skórnir verði of litlir þegar líða tekur á daginn.
Fæturnir eru breiðastir fremst og þegar skór eru mátaðir gættu þess að þú getir hreyft tærnar innan í þeim. Ef þær þrýstast út í hliðarnar eða skóna að framan er hætta á að blöður taki að myndast þegar þú ferð að hreyfa þig í þeim.
Vertu í sokkum eins og þeim sem þú klæðist þegar þú notar skóna, göngusokkum eða ullarsokkum.
Góðir göngusokkar veita einangrun og verja fæturnar vel. Mjög margir kjósa að vera í nælonsokkum innst því þeir eru hálir og tryggja að fæturnir renni vel og þá fá menn síður blöðrur.
Kjarngott nesti er alltaf nauðsynlegt í fjallgöngum, smurt brauð, flatkökur, gott álegg, egg, harðfiskur, kjötbitar, pastasalat, ávextir eða grænmeti eru allt gott val í nestisboxið og um að gera að hafa það kjarngott og fjölbreytt. Á lengri göngum er hnetunasl, súkkulaði, kex, rúsínur, súkkulaðistykki, grænmeti eða ávextir sem bera má í poka í vasa yfirhafnarinnar. Þótt menn finni ekki fyrir hungri viðheldur það orkunni að nærast reglulega allan tímann til að halda blóðsykrinum í jafnvægi. Vatn og sætur drykkur eiga líka ávallt að vera með í för.
Hætturnar
Menn verða að fara varlega og kunna ákveðna hluti ef þeir ferðast á eigin vegum á fjöllum. Veðurfar getur breyst snögglega og jökulárnar eru varasamar og þær þarf að umgangast af ákveðinni virðingu. Fólk þarf að afla sér þekkingar og byrja á að ferðast með þeim sem kunna og læra af þeim. Ef það er gert tel ég að fólk geti ferðast um hálendið án þess að vera í stórhættu. Þess vegna er alltaf nauðsynlegt að láta vita af sér, sýna einhverjum leiðina sem þú hyggst fara og bregða ekki út af henni. Hafðu alltaf með þér nesti og vatn, staðsetningartæki og aukafatnað. Nóg úrval er af léttum, hlýjum fatnaði og alltaf mun auðveldara að fækka fötum ef manni verður of heitt en að bregðast við sé manni skítkalt en ekki með neitt aukalega að fara í.
Fyrir erfiðar göngur er nauðsynlegt að hvíla sig vel í fimm daga áður en lagt er upp og drekka vel áður en haldið er af stað. Margir kjósa að vefja fæturna, með sport tape eða léttum teygjubindum. Það hjálpar til að koma í veg fyrir blöðrumyndin eða nuddsár. Svo borgar sig alltaf að stoppa reglulega, reyna að halda hraðanum jöfnum og ætla sér ekki um of. Fjallgöngur er ekki keppni og algerlega óþarft að ofreyna sig, ferðin er farin til að njóta.
Aukabúnaður
Göngustafir, sólarvörn, bakpokar, salernispappír, sólarvörn, sólgleraugu, derhúfa, lítill sjúkrapakki og GPS-tæki er útbúnaður sem á oft við í göngum og margir kjósa að hafa alltaf með. Flest af þessu er auðvelt að bera með sér og munar ekki um þótt ekki reynist þörf fyrir það.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.