Tengdar greinar

Bekkjaganga Alzheimersamtakanna í tilefni 40 ára afmælis

Laugardaginn 24. maí kl. 13 bjóða Alzheimersamtökin til svokallaðrar bekkjagöngu í Hafnarfirði. Gengið verður frá fjólubláa bekknum við Sundhöllina að Lífsgæðasetri St. Jó, þar sem samtökin eru til húsa.

Vekjum athygli á heilabilun

Tilgangur göngunnar er að hvetja til umræðu um heilabilun og draga úr fordómum. Með vitundarvakningu sem þessari er stuðlað að meiri skilningi og þekkingu í samfélaginu. Gangan er einnig hvatning til líkamlegrar og félagslegrar virkni sem skiptir miklu máli fyrir heilsu og vellíðan.

Hluti af afmælishátíð

Þetta er annað árið í röð sem bekkjagangan fer fram, en í ár er hún jafnframt hluti af 40 ára afmælisári Alzheimersamtakanna. Að göngu lokinni verður boðið upp á afmælisköku í Lífsgæðasetri St. Jó.

Fjólubláir bekkir um land allt

Fjólubláa bekki má nú finna í 15 bæjarfélögum víðsvegar um landið. Þar á meðal er einn á Höfn í Hornafirði, nánar tiltekið við Steinabakka. Þar verður einnig haldin bekkjaganga á laugardaginn kl. 10 um morguninn.

Öll velkomin

Gangan í Hafnarfirði var vel sótt í fyrra og vonast samtökin til að sjá sem flesta aftur í ár. Öll eru hjartanlega velkomin að ganga með.

Ritstjórn maí 22, 2025 07:00