Var allt betra í gamla daga? Kannski og kannski ekki. Hjónabandið og ástin vafðist þó fyrir mönnum þá ekki síður en nú. Lítum á Leiðarvísi í ástamálum eftir Ingimund gamla fyrir karlmenn.
Ingimundur byrjar á að tíunda að aldur hans og viska geri honum kleift að ráða öðrum heilt. Hann minnir á málsháttinn „greindur nærri getur en reyndur veit þó betur“. Síðan segir hann: „Sumir kunna ef til vill að hugsa sem svo, að óþarft sé, að leggja mönnum ráð í þessu efni, en það er misskilningur. Það, sem aðallega hvatti mig, til að gefa út bækling þennan, er sú von að með því kunni mér að takast að koma í veg fyrir einn eða fleiri hjónaskilnaði, ef menn hlýta mínum ráðum“.
Óflekkað mannorð og fjörleg framkoma heillar konur
Bæklingur Ingimundar gamla kom út árið 1922 og líklega telja flestir nútímamenn að á þeim tíma hafi ekki verið slíkt skilnaðafár að það hafi valdið mönnum almennt áhyggjum. En á þessum árum hefur hvert hjónaband augljóslega verið jafndýrmætt og hvert mannslíf.
Ingimundur gamli er maður sem veit að byrja skal hverja sögu á byrjuninni svo hann hefur kverið á því að kenna lærisveinum sínum að vinna hylli kvenna og bendir þeim á að það sé alls ekki jafnauðvelt og þeir kynnu að hyggja. Hann segist auðvitað ekki eiga við þær konur sem rápa um göturnar fram og aftur í leit að ást og karlmönnum heldur hinar sem séu þess virði að sóst sé eftir ást þeirra og virðingu.
Fyrir utan að leggja áherslu á óflekkað mannorð og enga lausung gagnvart kvenfólki og að menn eigi ekki að stunda fjárhættuspili bendir hinn vitri, gamli maður á að sá sem er þögull og þunglamalegur vinni aldrei hylli kvenna sama hversu fríður sýnum hann sé. Konur haldi að slíkir menn séu heimskir og heimskuna hati kvenfólkið.
Kurteisisreglur sem segja sex
Ingimundur segir að konur kunni einnig vel að meta kurteisi og hann telur upp tíu umgengnisreglur sem karlmenn ættu skilyrðislaust að viðhafa í návist kvenna. Meðal þess sem karlmaður ætti alltaf að gera er að taka upp hluti sem kona missir niður, láta konu ganga inn eða út um dyr á undan sér og opna fyrir hana dyrnar. Hann ætti einnig ætíð að hjálpa konu í yfirhöfn, láta hana ganga á undan sér inn í vagn eða bifreið en ganga á undan henni til sætis í leikhúsi og vísa henni þannig til sætis. Hann á að ganga á eftir henni niður stiga en á undan henni upp.
Þegar kona og maður ganga hlið við hlið á konan ævinlega að vera þeim megin við manninn að hún þurfi aldrei að stíga út á götuna. Karlmaður á einnig að hneigja sig örlítið þegar hann heilsar konu og taka hattinn ofan. Konum þykir mikið varið í að þeim sé heilsað virðulega á götu en þó eigi með neinum spjátrungsskap. Karlmaður á ævinlega að standa upp og bjóða konu sæti sitt séu öll sæti skipuð á stað þar sem þau eru og hann á einnig að vera boðinn og búinn að aðstoða hana þurfi hún að teygja sig eftir einhverju.
Ingimundur mælir með að karlmenn stundi íþróttir, enda geti fallegur limaburður og líkamsfegurð komið hjarta kvenna til að slá örar. „Frá aldaöðli hefur konan bundið hugsjón sína við þann mann, sem hefur hreinan og karlmannlegan svip og hraustan líkama.“ Sömuleiðis mælir hann með hreinlæti og karlmenn baði sig eigi sjaldnar en tvisvar í viku og séu snyrtilega klæddir. Menntaður maður og víðsýnn sé sömuleiðis ævinlega eftirlætisgoð kvenna. Karlmenn sem kunni eitthvað fyrir sér í dansmenntinni séu heldur ekki á flæðiskeri staddir hvað þetta varðar.
Það er vandi að velja sér, víf í standi þrifa…
Það er vandi að velja. Undir það tekur Ingimundur sannarlega og þótt menn hafi þekkingu á ástamálum sé alls ekki loku fyrir það skotið að þeim kunni skripla á skötu þegar konuefnið er valið og þá er voðinn vís eins og botninn við fyrripartinn hér að ofan gefur til kynna: …því ólánsfjandi, ef illa fer er í því bandi að lifa. Erfiðast við valið er að sjálfsögðu það að kostir og gallar konunnar koma oft ekki í ljós fyrr en út í búskapinn er komið. En gamli refurinn snjalli kann ráð við því; að taka eftir öllu smáu og stóru í fari stúlkunnar sinnar áður en maður trúlofast henni. Í hinu smærra er nefnilega ekki síður hægt að sjá eiginleika mannsins en í hinu stærra. Þannig má rannsaka hjartalag og tilfinningar hinnar útvöldu og komast að því hvort hún eigi ást manns skilda.
Að auki er gott að kynna sér ævi hennar fram að ykkar kynnum og athuga hvort hún hafi áður verið við ástamál riðin eða trúlofuð. Vinkonur hennar segja líka mikið um hana því það dregur hver dám af sínum sessunaut. Ætt hennar og foreldrar ættu einnig að vera nokkur vísbending um hvern mann hún hefur að geyma en umfram allt skyldi hver og einn forðast að sá illgresi í akur lífs síns með því að eltast við augnablikstilfinningar.
Þegar að bónorðinu kemur er betra að vera ekki feiminn og stama ekki, vera alvarlegur og hátíðlegur á svip og í máli. Forðast ber allar málalengingar og tvíræðar setningar en segja það sem manni býr í brjósti með fáum, vel völdum orðum. Ingimundur gamli fullyrðir að sá siður að krjúpa fyrir þeirri konu sem karlmenn játa ást sína sé löngu aflagður (1922), enda séu öll ytri lotningarmerki óþörf og fánýt því það eru hinar innri tilfinningar sem verður að byggja á. Hann telur að bónorðsbréf séu ágætur kostur en sá galli sé þó á því að fara þá leiðina að bréfið geti komist í hendur annarra en stúlkunnar.
Hvenær nær karlmaður giftingaraldri?
Karlmaður á ekki að kvongast fyrr en högum hans er þannig háttað að hann geti staðið straum af heimili fjárhagslega samkvæmt ráðleggingum Ingimundar gamla. Fátækt og óregla hefur iðulega eyðilagt heimilisfriðinn og gert heimilið að argasta spillingarbæli. Karlmaður á því að vera sparsamur og hagsýnn og ekki gefa unnustu sinni glingur eða hégómlega hluti, heldur þá hluti sem henni mega að gagni koma. Bindindismaður á vín og tóbak og sá sem gætir vel lánstrausts síns er líklegri til að vera fyrr fær um að kaupa húsgögn og aðra þá hluti sem til búsins þarf.
Góður eiginmaður
Góður eiginmaður elskar konu sína, rækir heimili sitt og ofhleður sig ekki störfum. Hann er nærgætinn og umhyggjusamur við hana og lætur hana ekki skorta neitt það sem hann getur veitt henni til þæginda og ánægju. Hann fer einnig með hana á skemmtanir af og til og lætur hana ekki vera svo störfum hlaðna að hún hafi ekki tíma til að lyfta sér upp. Afbrýðisemi þótt aðrir menn veiti henni eftirtekt er ekki til í góðum eiginmanni því með því gefur hann í skyn að hann beri ei fullt traust til hennar.
Hann leggst heldur ekki upp í legubekk og fer að sofa þegar hann hefur matast eftir að hann kemur heim frá vinnu. Hann talar við konu sína og lætur hana verða vara við að hann fylgist með störfum hennar og hefur hana ætíð með í ráðum og fer ekki á bak við hana með neitt. Tilhugalífið á aldrei að taka enda og sá maður sem er alltaf jafnkurteis og nærgætinn uppsker það að kona hans mun alltaf elska hann jafnheitt og gera hann glaðan og hamingjusaman. Já, margt er gott sem gamlir kveða og kannski eiga orð Ingimundar gamla bara þónokkurt erindi til nútímamannsins.
Leiðbeininga úr kennslubók í heimilisfræði 1950.
Þetta var konum aftur ráðlagt til að halda hjónabandinu góðu:
- Hafðu kvöldmatinn tilbúinn á réttum tíma. Það veitir honum þá tilfinningu að þú hafir verið að hugsa um hann og að þér sé annt um þarfir hans. Flestir karlmenn eru svangir þegar þeir koma heim og tilbúinn matur er hluti af því að láta hann finna hversu velkominn hann er heim, en það er karlmönnum nauðsynlegt.2. Notaðu 15 mín. til að snyrta þig og skipta um föt áður en hann kemur. Hann er að koma heim úr leiðinlegri og erfiðri vinnu og er þreyttur. Vertu svolítið hress og skemmtileg til að hressa hann við.
3. Taktu upp allt rusl og dót. Farðu eina umferð um húsið og safnaðu saman skólabókum, leikföngum, pappírsrusli og blöðum. Renndu svo tusku yfir borðin til að þurrka af og þrífa svolítið. Eiginmanni þínum mun finnast hann kominn í friðarparadís og það hefur mikið að segja fyrir hann.
4. Snyrtu börnin til. Það tekur aðeins nokkrar mínútur að þrífa hendur og andlit og greiða þeim. Ef þarf, skaltu láta þau skipta um föt. Þau eru hans fjársjóður og hann vill sjá þau þannig.
5. Sjáðu til þess að húsið sé hljóðlátt. Slökktu á öllum vélum, s.s. uppþvottavél, þvottavél, þurrkara og ryksugu. Reyndu að sjá til þess að börnin hafi hljótt. Taktu á móti honum með glöðu brosi.
6. Gættu þess að hella ekki yfir hann kvörtunum þegar hann kemur. Ekki heldur kvarta þótt hann komi of seint í mat. Þú getur verið viss um að þínar kvartanir eru minni háttar í samanburði við það sem hann hefur þurft að þola yfir daginn.
7. Sjáðu til þess að hann hafi það þægilegt. Láttu hann halla sér aftur á bak í hægindastól eða stingdu upp á því að hann halli sér smástund í rúminu. Vertu tilbúinn með kaldan eða heitan drykk handa honum. Bjóddu honum að klæða hann úr skónum og hagræddu púðunum undir honum. Ræddu við hann með rólegri, mjúkri röddu. Leyfðu honum að slaka á.
8. Láttu hann ráða kvöldinu. Ekki kvarta þótt hann fari ekki með þig út að borða eða á aðrar skemmtanir, reyndu í stað þess að skilja að hann hefur fengið sinn skerf af þreytu látum yfir daginn og þarfnast hvíldar heima. Markmiðið er að gera heimilið að stað þar sem eiginmaður þinn getur fundið frið og reglu og getur slakað á eftir erfiðan dag.