Afleiðingar eineltis vara lengi

Æ fleiri höfundar hasla sér völl í sakamálasagnageiranum á Íslandi og fjölbreytnin er mikil, bæði hvað varðar glæpi og hverjir það eru sem rannsaka þá. Anna Rún Frímannsdóttir er í hópi þeirra nýjustu en í fyrra sendi hún frá sér sína fyrstu glæpasögu, Dauðaþögn en í sumar kom Eftirförin. Báðar eru vel uppbyggðar og flottar sögur en það er lögfræðingurinn Hrefna sem er í aðalhlutverki í báðum.

Í Eftirför hittum við Hrefnu aftur þar sem hún er komin í starf hjá lögreglunni og að þessu sinni tekur hún þátt í að rannsaka mannshvarf. Bifvélavirkinn Hallur hverfur eftir kvöld á barnum með vinum sínum. Þetta er ábyrgðarfullur fjölskyldufaðir sem hefur, að því er virðist enga ástæðu til að ganga sjálfviljugur út úr lífi sínu. Í fyrstu eru Hrefna, Sigtryggur, Georg og Bára algjörlega ráðalaus og finna engin spor en svo kemur ýmislegt upp úr dúrnum sem bendir til að hvarfið kunni að tengjast atburðum úr lífi Selmu, unnustu Halls. Hún varð vitni að og tók þátt í svæsnu einelti á unglingsárunum og allt bendir til að einhver sé að leita hefnda.

Anna Rún er mjög fínn glæpasagnahöfundur. Persónusköpun hennar er áhugaverð og hún kann vel að byggja upp spennu. Henni tekst líka vel að lýsa einelti, hvernig það byrjar og vex og fer úr böndunum. Aleiðingarnar eru einnig alvarlegar og setja mark sitt á alla bæði gerendur, þolendur og vitni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.