Sigurlaug Jónasdóttir frá Öxney hafði ríka sköpunarþörf og mikla listræna gáfu. Hún hafði ekki tækifæri til að rækta þá hæfileika þegar hún var ung kona en á eftir árum málaði hún fjölmörg falleg málverk sem byggðu á minningum hennar af hversdagslífinu í Öxney á Breiðafirði, vinnu og skemmtunum fólksins.

Sigurlaug Jónasdóttir hússtjórnarkennari hóf að mála á efri árum og málaði þá minningar úr æsku sinni í Öxney í mynni Hvammsfjarðar.
Þau voru tólf systkinin og fleiri þeirra vöktu athygli fyrir listfengi sitt meðal annars, Leifur bróðir hennar, sem dó ungur úr berklum en lærði að mála hjá Gunnari Gunnarssyni, syni Gunnars skálds, á Reykjalundi og vöktu verk hans mikla athygli þar. Sigurlaug sagði í viðtali við undirritaða árið 1999 að hann hafi verið fyrstur þeirra systkina til að byrja listiðkun. Guðrún systir hennar var þekkt fyrir veflistaverk sín og skúlptúra sem hún vann úr efnum úr fjörunni. Yngri ættmenni hafa líka lagt fyrir sig myndlist og virðist mikið listfengi liggja í ættinni.
Sigurlaug málaði olíumálverk sem hafa einstaka myndbyggingu og litir hennar voru óvenju tærir og fallegir. Sigurlaug fæddist árið 1913 í Öxney í mynni Hvammsfjarðar. Hún þráði að læra líkt og margir af hennar kynslóð og þrælaði við fiskiþvott til að komast í Héraðsskólann á Laugarvatni tvo vetur. Síðar fór hún til náms í Húsmæðraskóla Ísafjarðar einn vetur en þetta náði ekki að svala menntaþorstanum svo Sigurlaug hélt til Noregs rétt fyrir stríð. „Ég fór út 1938 og bjó hjá Guðrúnu Brunnborg. Hún var mikil hugsjónamanneskja og lét sér annt um menntun Íslendinga, m.a. gaf hún íslenskum námsmönnum herbergi sem þeir gátu dvalist í meðan þeir voru í námi. Guðrún fór til Íslands til dvalar og þá réð ég mig í vist til heildsalahjóna sem áttu fjögur börn. Þar var ég ráðskona um sumarið og átti að læra góða siði og að standa fyrir heimili. Heildsalafrúin gerði ekki annað en að bjóða til sín konum og sitja veislur, oft í góðgerðarskyni. Þegar hún kom heim var hún vön að fleygja sér í sófann og lyfta fótunum upp á sófabakið og stynja undan þreytuverkjum í fótum. En þetta var ágætisfólk og var mér ákaflega gott,“ sagði Sigurlaug í áðurnefndu viðtali en það var tekið í tilefni að opnun sýningarinnar Einfarar í íslenskri málaralist sem opnaði í Gerðubergi í mars 1999 og birtist í Morgunblaðinu.
Lauk hústjórnarkennaranámi
„Þegar ég hætti hjá þeim réð ég mig til íslenskra hjóna en byrjaði nám í Statens Lærerskole i Husstell eftir jól. Um sama leyti réðust Þjóðverjar inn í Noreg og yfirtóku skólabygginguna. Sendiherra Íslands varð að láta sig hverfa í skyndi og þá varð erfitt að fá peningayfirfærslur til að greiða skólagjöldin. Ég samdi því við forstöðukonuna um að fá frí frá námi um tíma en vinna sem nemi í garðyrkju við skólann. Það varð úr og í þrjú ár lærði ég garðyrkju og sparaði eins og ég gat af kaupinu til að geta hafið nám við Hússtjórnarkennaraskólann að nýju. Námið var þannig skipulagt að nemar urðu að læra margt annað en það sem laut að beinni hússtjórn. Hússtjórnarkennarar urðu að fara út um landið og kenna og ætlast var til að þeir gætu kennt allt. Því lærðum við bæði garðyrkju og að sjá um húsdýr. Í tengslum við skólann var rekið bú og þar unnu nemar fjórðu hverja viku, eina viku innanhúss, eina í görðunum og eina viku á barnaheimili sem var á skólalóðinni. Skólinn var mjög strangur og miklar kröfur gerðar til nemendanna. Til að mynda vorum við námsmeyjarnar ein í einu á næturvakt á barnaheimilinu en þar voru tólf börn sem öll þurfti að baða og gefa áður en morgunvaktin kom.
Skólinn var í gamalli höll sem gefin hafði verið til hans og öll húsgögnin voru gömul, það sem kallað er antík. Þau þurfti öll að pússa og bóna. Við lærðum líka allt um hvernig á að ná blettum úr fötum, hirða fatnað og tau, auk næringarfræði, efnafræði og matreiðslu. Maturinn hjá mér þótti bragðast betur en hinna og sennilega hefur það hjálpað mér mikið að ég var búin að læra svo mikið í matargerð áður. Framreiðslustúlkurnar borðuðu síðastar allra og þær voru vanar að geyma sér matinn minn frekar en hinna því hann þótti bestur. Í stríðslok kom ég aftur til Íslands og kenndi við Hússtjórnarkennaraskóla Íslands undir stjórn Helgu Sigurðardóttur. Ég veiktist þá af berklum og barðist næstu ár við að ná heilsu. Fyrst lá ég á Vífilsstöðum í ár en þótti agi þar ekki nægur né aðhald við sjúklinga svo ég fór út. Var um tíma í Svíþjóð en lagðist síðan inn á berklahæli í Danmörku. Þar ríkti mjög strangur agi og mun meiri kröfur voru gerðar um heilbrigði en hér heima. Til dæmis má nefna að sjúklingar voru útskrifaðir af Vífilsstöðum ef fjögur sýni úr hráka þeirra voru laus við berkla en í Danmörku urðu sýnin að vera sjö.“

Þetta verk heitir Kristnihald undir jökli.
Sigraðist á berklunum
Sigurlaug sigraðist á berklunum. Hún gerðist matreiðslukennari við Miðbæjarskólann og Hringur Jóhannesson kenndi þá teikningu og málun í Myndlistarskóla Reykjavíkur og Sigurlaug komst í læri til hans.
„Þegar ég var á Hússtjórnarkennaraskólanum lærðum við módelteikningu. Við vorum látnar teikna föt upp úr blöðum, stækka hlutföllin, búa til snið og sauma síðan flíkina eftir því. Ég var því ekki alveg ókunnug teikningu þegar ég fór að læra hjá Hringi. Ég mála gamla tímann, aðallega vinnuna, til að sýna hvernig allt var unnið þegar ég var barn. Nú eru allir með vélar og þær vinna verkin. Við þurftum að nota handaflið. Heyskapur í eyjunum fór t.d. þannig fram að við urðum að binda allt í sátur og þær voru síðan bornar á bakinu niður af háum eyjum sem erfitt var að ganga niður. Heyið var borið út í skip og flutt þannig milli eyja. Þá voru engir mótorbátar og þá var róið á miðju skipinu með eina ár á borð. Skipið var hlaðið á báða og það kallað að ferma skip. Alltaf varð að bíða liggjandans þegar straumurinn rennur hvorki út né inn, þá er sléttur sjór.
Ég hef málað margar myndir úr fiskvaskinu, konur að rífa fiskinn úr stöflunum og bera hann til hinna sem eru að vaska. Oft var staflinn frosinn og hið mesta erfiði að ná fiskinum úr honum. Ég mála líka fólkið heima í Öxney við ullarþvott. Mamma og amma þvæla ullina niðri á árbakkanum og litlu stelpurnar bera ullina upp á bakkann til að breiða hann til þerris. Minnstu börnin leika sér í kring, of lítil til að vera í þessu. Í bakgrunninn sjást Klakkeyjarnar, stóri Klakkur og litli Klakkur og Klofningsfjall. Sumir vilja kalla eyjarnar Klakkseyjar en þegar ég var barn var alltaf talað um Klakkeyjar. Stóri-Klakkur var manngengur, enda ekki bara fjall heldur eyja, en ég hef aldrei vitað neinn fara upp á Litla-Klakk. Eiríkur rauði fór í Stóra-Klakk og faldi skip sitt þar í skóginum áður en hann hélt til Grænlands og vinir hans fylgdu honum út að Elliðaey yst í Hvammsfirði.
Í Öxney var bænahús sem notað var eins og skemma þegar ég var barn. Þar voru lundakofurnar reyttar á haustin. Við sátum jafnvel í þrjár vikur við reytinguna. Mamma stóð við pottinn og sauð. Svarta og hvíta fiðrið var vandlega skilið að. Það svarta þótti grófara og verra og var notað í undirsængur. Það hvíta var sett í yfirsængur. Kofurnar voru reyttar svo vandlega að þær voru alveg bleikar og hreinar. Seinna var grafið niður í bænahúsinu og komið niður á gamalt trégólf.
Ég mála einnig oft karl sem ég man vel frá æsku minni, Pétur frá Bíldsey hét hann og reri jafnan einn á báti til fiskjar. Karlinn vann sjaldan annað en að leggja lóðir og lifði á fiski. Hann lagði sig jafnan út af í bátnum þegar hann var búinn að leggja og beið eftir að fiskurinn biti á. Hann var frekar einkennilegur og það var málvenja hjá honum að kalla konur karlmenn. Eitt sinn spurði hann kona nokkur hvort hann væri ekkert hræddur við að sofa svona í bátnum. Bátinn gæti rekið upp eða fyllst af sjó því hann var lekur. Karlinn svaraði þá: „Ég skal segja þér það karlmaður að ég vakna þegar rennur undir mig.“
Kímnigáfa Sigurlaugar var rík og frásagnargáfa skín í gegnum allar myndir hennar. Úr myndum hennar af fólkinu við vinnu sína má lesa ótal sögur. Þessi merka listræna kona sem náði að rækta listgáfu sína á efri árum hefur því ekki bara heillað fólk með töfrandi myndum heldur einnig skrásett og haldið við þekkingu manna á vinnulagi fyrri tíma. Í Breiðafjarðareyjum var mjög sérstætt mannlíf þegar hún og systkini hennar voru að alast upp, lífsbaráttan hörð og börnum haldið snemma að vinnu. Það er einstaklega áhugavert hversu vel listakonan skrásetti sögu fólksins í Öxney.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.