Hin einstaka Julie Walters

Julie Walters er heillandi kona. Hún ljómar af lífsgleði og glettni og það er ekki hægt annað en hrífast af henni. Hún er óborganleg í hlutverki ömmunnar í Paddington-myndunum en sú nýjasta í þeim flokki kom út í fyrrasumar. Julie er 75 ára gömul en hefur ekki uppi neinar áætlanir um að setjast í helgan stein. Hún segir orku sína næga og enn hafi hún ánægju af vinnunni.

Meðan tökur á Mamma Mia! stóðu yfir árið 2008 frétti hún að drottningin hefði sæmt hana CBE-orðunni en því fylgir réttur til að kalla sig Dame. Julie telur þó ólíklegt að hún muni nota þann titil en óneitanlega hafi það verið klapp á bakið fyrir velunnin störf að fá þessa viðurkenningu. Tökur þessara ABBA innblásnu mynda virðast ávallt örlagaríkar fyrir Julie því núna datt hún á steinlagðri götu þegar tekið var upp dansatriði við lagið Dancing Queen en tókst að harka af sér og ljúka við atriðið þrátt fyrir að hún fyndi mikið til.

Ekkert benti til að hún myndi leggja leiklistina fyrir sig þegar hún fæddist þann 22. febrúar árið 1950 í Edgbaston, yngst þriggja barna þeirra Mary Bridget og Thomasar Walters. Mary var írsk að uppruna og vann á pósthúsinu en Thomas byggingaverktaki. Julie ólst upp í kaþólskri trú og gekk í klausturskóla í Birmingham. Þar kynntist hún leikhúsinu og lét í ljós löngun til að læra leiklist en móður hennar þótti það hin versta fyrra og taldi hana á að læra hjúkrun í staðinn. Leiklistargyðjan sleppti þó ekki tökunum á henni og fljótlega gafst Julie upp og hélt til Manchester og lærði þar ensku og leiklist í Manchester Polytechnic. Eftir útskrift bauðst henni starf hjá leikhópi í Liverpool og þar reyndi hún einnig fyrir sér í uppistandi.

Sló í gegn

Hún og vinkona hennar úr skólanum Victoria Wood settu saman sketsa og flutti við miklar vinsældir. Tveir þeirra rötuðu í sjónvarp og eftir það bauðst þeim að vera með eigin þátt. Árið 1980 bauðst henni svo að leika aðalhlutverkið í nýju leikriti Willy Russell, Educating Rita. Hún fékk frábæra dóma gagnrýnenda og þegar kvikmynd var gerð upp úr verkinu kom engin önnur til greina í hlutverkið en hún. Julie hefur sagt að Rita eigi sérstakan sess í hjarta sínu því hún hafi verið öðruvísi en flestar kvenhetjur leikbókmenntanna að því leyti að hún hafi verið metnaðargjörn, nútímaleg í hugsun og viljað bæta sjálfa sig. Sjálf þekkti Julie vel hvað þurfti til að rífa sig lausa úr hjólförunum sem aðrir höfðu markað fyrir mann því mamma hennar var alls ekki sátt þegar dóttirin ákvað að hverfa frá hjúkrunarstarfinu.

Julie og eiginmaður hennar, Grant Roffey.

Eftir þetta var leiðin greið og hver stórmyndin af annarri fylgdi. Meðal þeirra má nefna, Personal Services en þar lék hún mellumömmu, Buster þar sem mótleikari hennar var Phil Collins, Stepping Out og Prick Up Your Ears. Árið 1987 kom svo út kvikmyndin Acorn Antiques sem hún og Victoria Wood gerðu í sameiningu. Um aldamótin kom síðan hin frábæra Billy Elliot og þar með var Julie orðin að alþjóðlegri stjörnu. Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna í annað sinn fyrir hlutverk sitt þar en hin fyrri var fyrir Ritu. Allir muna svo eftir henni í hlutverki móður Weasley-krakkanna í Harry Potter.

Julie er gift Grant Roffey og þau eiga saman dótturina Maisie Mae en hún fæddist árið 1998. Þau eiga stóran búgarð í Sussex-héraði og þar ver Julie frítíma sínum. Maisie greindist með hvítblæði tveggja ára gömul en náði sér að fullu. Um þá reynslu skrifaði Julie bókina Baby Talk. Árið 2018 greindist hún sjálf með ristilkrabbamein en það tókst að komast fyrir meinið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.