Michael Mountain var aðeins fimm ára þegar afi hans og amma fóru með hann í veiðitúr niður á bryggju. Drengurinn settist á bryggjusporðinn með færið sitt og fljótlega varð hann var við fisk á önglinum og tók að draga færið upp. Þegar hann sá fiskinn dingla á endanum varð honum hins vegar svo mikið um að hann fór að háskæla og lét ekki huggast fyrr en afi hans og amma höfðu losað fiskinn og fleygt honum út í aftur.
Drengurinn þótti stórskrýtinn að geta ekki haft gaman af veiði líkt og önnur börn en þessi samhygð Michaels með dýrum hefur ekkert minnkað með árunum. Hann bjó lengst af á búgarði, rétt fyrir utan Utah og tók þar við dýrum sem eigendurnir vildu losna við, höfðu verið yfirgefin eða misþyrmt á einhvern hátt. Michael lét hins vegar af formennsku í samtökunum Best Friends árið 2008 en hann er ekki hættur að berjast fyrir réttindum dýra og leitar margvíslegra leiða til að bjarga þeim eða ná fram réttlæti þegar illa hefur verið farið með þau.
Dýraathvarfið sem Michael Mountain stofnaði og rak heitir Best Friends og hafði yfir að ráða 350 ekrum af landbúnaðarlandi. Nafnið vísar það bæði til þess að dýrin geta sannarlega verið bestu vinir mannsins en einnig að þar er tekið við skjólstæðingunum með það í huga að veita þeim vináttu og hlýju. Í dag dvelja að meðaltali 1500 dýr í athvarfinu í einu en fjölmörg hafa þar skamma viðdvöl og er síðan komið í fóstur á góðum heimilum. Mottó samtakanna er að góðvild í garð dýra bæti heiminn, bæði þeirra og okkar mannanna.
Sérvitringar og vinnuþjarkar
Mörg þeirra dýra sem fá inni í Best Friend athvarfinu eiga sorglega sögu að baki. Þeim hefur verið misþyrmt þau hafa verið yfirgefin og sum pyntuð. Stundum koma dýrin í athvarfið í hræðilegu ástandi en eftir umönnun og mikla þolinmæði starfsmanna eru þau farin að þrífast vel og fljótlega er hægt að koma þeim fyrir hjá góðu fólki. Nokkur þeirra fara aldrei og margar ástæður geta legið þar að baki. Sum þeirra eru einfaldlega of skrýtin og sérvitur til að hægt sé að setja þau í fóstur en önnur eru of gömul, of veik eða of fötluð til að hægt sé að sinna þeim inni á venjulegum heimilum. Þessi dýr eru ákaflega merkileg og þau hafa lag á að finna sér hlutverk og stað í athvarfinu.
Meðal slíkra sérvitringa er síamskötturinn Squeaky Pop (ískrandi hvellur) sem aðeins má strjúka upp á eldhúsbekk en hvergi annars staðar snerta hann. Annar einstakur persónuleiki var Ginger, retriever tík sem var bjargað úr þrældómi í myllu. Hún leit á það sem köllun sína að fara eftirlitsferð um landareignina á hverjum morgni og safnaði saman öllum tennisboltum sem hún fann og koma þeim fyrir undir tré. Upp frá því gekk tréð undir heitinu The Federal Reserve (alríkissjóðurinn).
Benton var klumbufættur flækingsköttur sem hafði marga fjöruna sopið á götunni áður en hann kom í athvarfið. Benton var mikill harðstjóri og vildi hafa reglu á öllu í kattanýlendunni. Hann hegðaði sér eins og borgarstjóri þar og tók ævinlega fyrstur á móti gestum sem þangað komu. Honum til heiðurs var nýtt heimili handa köttum með sérþarfir í athvarfinu nefnt Benton House. Tommy og Tyson var bjargað af götum LA þegar þeir voru kettlingar en þeir ferðuðust um allt með rófurnar kræktar saman. Tyson gat þannig leiðbeint bróður sínum en Tommy var blindur. Haninn Wooster var samtíða þeim bræðrum en hann vildi hvergi sofa nema ofan á kattahrúgu og var engu líkara en hann liti á samanvafða kettina sem hreiðurstæði sitt.

Michael Mountain með einn vina sinna.
Vitskertur af lyfjatilraunum
Amra var Alaskasleðahundur sem tók að sér lögreglustjóraembættið í hundaþorpinu. Kærasta hans hét Rhonda, pínulítill terríer sem ævinlega svaf milli risastórra loppnanna á Amra. Starfsmenn athvarfsins eru þó sérstaklega hreyknir af sögu hundsins Rexy en hann var árum saman notaður til að rannsaka virkni svefnlyfja. Svo miklu magni lyfja var dælt í hann áður en honum var bjargað að hann hafði gersamlega tapað áttum. Hann vaknaði spangólandi, pissaði þar sem hann stóð og réðst á allt sem tönn á festi og reif það í sundur. Hann þurfti að læra upp á nýtt að umgangast aðra hunda en eftir margra mánaða vinnu tókst starfsmönnunum að hjálpa honum til þess að geta lifað nokkuð eðlilegu lífi. Í dag býr Rexy hjá fullorðnum hjónum í Salt Lake City sem elska hann út af lífinu þótt hann hafi ekki náð sér að fullu.
Árangur eins og sá sem náðist með Rexy er það sem gefur starfsfólkinu, sem flest vinnur í sjálfboðavinnu, hvatningu til að halda áfram. Sjálfboðaliðar koma alls staðar að úr Bandaríkjunum og þetta er fólk úr öllum stéttum. Sumir koma aftur og aftur. Margt af þessu fólki er í erfiðum störfum þar sem stressið er mikið. Það segir að ekkert frí gefi þeim jafnmikla hvíld og endurnæringu og starf í dýraathvarfinu. Þegar dýrin horfi á það þessum þakklátu augum skipti ekkert annað máli.
Dýrin eiga öll sína sögu. Sum hafa fundist yfirgefin í eyðimörkinni og í öðrum hefur verið kveikt. Mörg þeirra eru svo eftir sig eftir misþyrmingar að það eina sem hægt er að gera fyrir þau er að halda á þeim í fanginu og reyna að hugga þau með nærveru sinni. Sjálfboðaliðarnir segjast stundum eyða heilu dögunum í það eitt að halda á og strjúka dýrum sem eiga bágt.
Í Englagljúfri
Michael Mountain, maðurinn sem kom þessu öllu af stað, var alinn upp í London. Hann fæddist 28. apríl 1946. Faðir hans rak lítið fyrirtæki en móðir hans var húsmóðir. Pabbi hans dó þegar hann var aðeins smábarn og eldri systir hans dó þegar hann var fjórtán ára. Tveimur árum seinna lést móðir hans og þá var drengurinn sendur til frændfólks. Frændi hans dó úr hjartaáfalli aðeins ári eftir að Michael kom inn á heimilið. Hann viðurkennir sjálfur að saga hans hljómi nánast eins og skáldsaga eftir Charles Dickens.
Michael naut þó alla tíð umhyggju ættingja sinna. Hann gekk í breskan einkaskóla frá átta ára aldri og hélt síðan til Oxford þar sem ætlast var til að hann legði stund á heimspeki, stjórnmálafræði og viðskipti til undirbúnings því hlutverki að taka við fjölskyldufyrirtækinu en þetta litla fyrirtæki átti eftir að vaxa og dafna og verða hluti af Granada sjónvarpsstöðinni. En Michael áttaði sig fljótt á því að námið átti ekki við hann.

Yfirlitsmynd yfir land búgarðsins.
Hann missti alveg áhugann á náminu og slóst í för með hópi kunningja sem allir höfðu mikla ást á dýrum og vildu allt fyrir þau gera. Þessir vinir hans urðu síðar stofnfélagar Bestu vina athvarfsins. Michael hætti í skólanum og hélt til Bandaríkjanna. Hann ferðaðist vítt og breitt um þetta stóra land og vann að alls konar mannúðarmálum. Hann stofnaði m.a. samtök í nokkrum borgum sem helguð eru umönnun veikra barna og gamals fólks. Hann bjó um tíma í Chicago og þar endurnýjaði hann kynnin við Diönu Asher sem hann hafði fyrst kynnst í Englandi. Þau giftust og eignuðust dótturina Robin. Diana og Michael skildu átta árum síðar en hún er einn hans nánasti samstarfsmaður enn í dag og vinnur mikið fyrir samtök hans.
Dag nokkurn fékk Michael vinnu á búgarði í Arizona þar sem tekið var við dýrum sem eigendurnir hugðust svæfa. Sum dýrin fengu að deyja úr elli en önnur átti að svæfa vegna þess að illa hafði gengið að venja þau. Michael og félagar hans unnu að því hörðum höndum að endurhæfa þessi dýr og að því loknu var þeim komið í fóstur á góðum heimilum. Búgarðurinn í Arizona varð fljótt of lítill fyrir starfsemina og hópurinn tók að leita að nýjum og hentugri stað. Michael leitaði þá til allra vina sinna og fékk þá til að leggja hönd á plóginn og úr varð að keypt var land í Angel Canyon (Englagljúfri) rétt fyrir utan bæinn Kanab í Utah. Þar er enn tekið við bestu vinum mannsins og nú eru 250.000 meðlimir í samtökunum Best Friends og tvö hundruð manns hafa fasta vinnu við athvarfið. Michael hefur hins vegar snúið sér að öðrum störfum m.a. skipulagði hann herferð til að bæta meðferð dýra og rak mál fyrir rétti í New York til að ná fjórum simpönsum úr dýragarði þar sem hann taldi þá vanrækta.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.