M var raunverulega kona

Þegar hinn þolgóði yfirmaður James Bond varð kona árið 1995 bjuggust margir við að því yrði ekki tekið þegjandi. Annað kom hins vegar á daginn, enda gerði Judi Dench hlutverkinu stórgóð skil. Færri vita hins vegar að kvenkyns M á sér fyrirmynd í Stellu Rimington sem gegndi stöðu yfirmanns MI5 þegar barátta Breta við IRA stóð sem hæst. Stella sneri sér að skrifum eftir að hún hætti að vinna og náði því að verða metsöluhöfundur áður en hún lést 3. ágúst síðastliðinn. Að sjálfsögðu skrifaði hún  njósnasögur.

Stella Rimington á þeim tíma þegar hún gengdi starfi yfirmanns MI5.

Stella fæddist árið 1935 og byrjaði að vinna hjá MI5 árið 1968. Á ferlinum vann hún fyrir allar deildir öryggisþjónustunnar m.a. gagnundirróðursdeildinni (counter-subversion), gagnnjósnadeildinni og  gagnhryðjuverkadeild. Hún var skipuð Director General árið 1992 þremur árum áður en Judi Dench steig fram á sjónarsviðið í Licence to Kill.  Nýjasta bók hennar kom út í ár og heitir, Hidden Hand. Stella var fyrst kvenna til að gegna embætti æðsta yfirmanns MI5. Eftir að hún hætti að vinna árið 2004 skrifaði hún tíu bækur um njósnarann Liz Carlyle, sjálfsævisögu sína, Open Secret og tvær bækur um Manon Tyler.

Ástæðu þess að hún ákvað að leggja fyrir sig njósnir segir Stella í ævisögu sinni vera þá að hún var fjögurra ára þegar seinni heimstyrjöldinni lauk. Fjölskylda hennar flutti frá London til Essex meðan á stríðinu stóð og enduðu í litlu þorpi Barrow-Furness í Kumbríu. Svæðið hafði orðið illa úti í loftárásum Þjóðverja og langan tíma tók að laga sárin. Fyrstu minningar Stellu voru af leitarljósum Breta að sveima um loftin í leit að flugvélum og hvellina þegar varnaðarskotum var skotið í átt að þeim. Fjölskyldan þurfti oft að skríða ofan í loftvarnabyrgi og Stella þjáðist af innilokunarkennd alla ævi eftir þá reynslu. Foreldrar hennar tóku ósköpunum af stóískri ró og í ævisögu sinni segist hún telja að það hafi hjálpað sér að komast yfir óttann. Báðir foreldrar hennar höfðu þá trú að aldrei ætti að gefast upp heldur ávallt sýna þrautseigju í lífinu og það mottó tileinkaði dóttir þeirra sér.

Vann fyrir Indlandsskrifstofu MI5

Stella gerðist skjalavörður í skjalasafni Worcester-sýslu eftir að hún lauk námi en fluttist til London með manni sínum John og tók við svipuðu starfi í India Office Library. John var diplómat og þau giftu sig árið 1963. Næstu ár ferðuðust þau víða og Stella gegndi hlutverki eiginkonu sendiráðsmanns. Þau bjuggu í Nýju-Dehli þegar henni var boðið starf hjá MI5. Hún tók því, enda orðin hálfþreytt á að brosa í veislum og taka stöðugt á móti ókunnugu fólki. Í fyrst gengdi hún þó ekki öðrum skyldum en að vera einkaritari á Indlandsskrifstofunni.

Þegar þau sneru aftur til London sótti hún um fasta stöðu Junior Assistant Officer og fékk. Á þessum árum voru konurnar þó aðallega í bakvinnslunni meðan karlarnir voru sendir út af örkinni til að kanna ástand hér og þar í heiminum. Um þetta leyti kom hins vegar upp sú staða að MI5 gekk ekki jafnvel að fá til liðs við sig karla af því tagi sem þeir sóttust eftir þ.e. velmenntaða menn með yfirsýn og þekkingu á stjórnmálum. Þá leituðu þeir að nýliðum í háskólunum en það varð til þess að konurnar sögðu stopp og bentu á að meðan þeir væru að sækja reynslulítla unga menn væru við störf í öryggisþjónustunni velmenntaðar konur með þekkingu og yfirsýn á stjórnmálin.

Þær hófu þögult andóf og smátt og smátt voru fleiri konur sendar af stað í njósnastörf. Þær reyndust hafa jafnmikla hæfni og karlarnir þótt vinnubrögðin væru vissulega öðruvísi en Stella segir í ævisögunni að fjölbreytnin hafi verið nauðsynleg til að fá þær upplýsingar sem mikilvægt var að afla. Starfið var að hennar mati mjög áhugavert og margbreytilegt. Hún vann í gagnnjósnadeildinni meðan á kalda stríðinu stóð og þótt hún geri ekki lítið úr hættunni sem fylgir því að starfa við njósnir vildi hún meina að þeir sem hún fékk til liðs við sig og störfuðu fyrir hana innan Sovíetríkjanna hafi verið í meiri hættu en hún sjálf eða allt þar til hún var orðin yfirmaður MI5 og ríkistjórnin gaf upp nafn hennar. IRA var þá mjög virkt í London og auðvelt að komast að því við hvaða götu Stella bjó. Hún átti um það leyti tvær dætur, Sophie, 21 árs og Harriet sem var 17 ára. Þær mæðgur urðu að flýja heimili sitt með hundinn sinn og dvelja í öruggu húsi meðan verið var að finna nýtt húsnæði handa fjölskyldunni. Sophie var komin í háskóla og Stella gat ekki  tryggt öryggi hennar og fann því fyrir miklum ótta hennar vegna.

Erfitt að finna jafnvægi milli einkalífs og vinnu

Stella og maður hennar skildu á borði og sæng árið 1984 en gengu ekki frá lögskilnaði. Hún sagði það vera vegna þess að hvorugt þeirra hafi nokkru sinni fundið hjá sér þörf til að giftast einhverjum öðrum. Hún viðurkenndi þó fúslega að erfitt hafi verið að finna gott jafnvægi milli krefjandi vinnu, barnauppeldis og heimilis. Allar konur þurfi að finna sína leið segir hún í bókinni og bendir á að þegar hún átti Sophie árið 1971 hafi fæðingarorlofið aðeins verið þrír mánuðir. Eftir að Stella skrifaði sjálfsævisögu sína komst hún á bragðið með að skrifa og Liz Carlyle varð til, kvennjósnari sem höfundurinn dró enga dul á að er byggð á henni sjálfri. Síðar skapaði hún og skrifað tvær bækur um Manon Tyler annan kvennjósnara ekki síður snjallan en Liz.

 „IRA var þá mjög virkt í London og auðvelt að komast að því við hvaða götu Stella bjó. Hún átti um það leyti tvær dætur, Sophie, 21 árs og Harriet sem var 17 ára. Þær mæðgur urðu að flýja heimili sitt með hundinn sinn og dvelja í öruggu húsi meðan verið var að finna nýtt húsnæði handa fjölskyldunni.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.