Katrín Ísfeld spjallar um hönnun og gefur góð ráð

Mánudaginn 22. september klukkan 16:30 verður Katrín Ísfeld Guðmundsdóttir innanhússarkitekt með spennandi spjall um innanhússhönnun á Borgarbókasafninu Árbæ – þar sem hún gefur gestum og gangandi góð ráð.

Í erindi sínu ætlar Katrín að fara yfir það helsta sem þarf að hafa í huga varðandi hönnun heimilisins, svo sem grunnmynd rýmisins, flæði, litaval, stíl og fleira.  „Ég mun fara í gegnum ferlana sem vert er að hafa í huga þegar kemur að framkvæmdum og breytingum á hönnun heimilisins og ætla að leggja mig fram við að vera heiðarleg og einlæg enda eru heimilin okkar griðastaður,“ segir hún og brosir.

Hægt að fyrirbyggja dýrkeypt mistök

Katrín, sem er reynslumikill innanhússarkitekt, bendir á að mun persónulegra sé að hanna heimili heldur en til dæmis vinnustaði, hótel og opinberar byggingar. Við skipulagningu heimila þurfi innanhússarkitektinn í meira mæli að lesa í hvaða fólk býr þar, hvernig það umgengst rýmið og hvaða stíll og litir höfða til þess.  Hún bendir á að því sé nauðsynlegt að fá fagaðila til að teikna upp rýmið í heild – sérstaklega þegar stórar framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

„Já, því það getur komið í veg fyrir mistök sem kosta oft miklar tafir og peninga,“ nefnir Katrín, sem segist oft hafa komið að verki þar sem „búið er að hlaupa með hlutina hingað og þangað“ og ekkert virki. Aðkoma fagfólks geti hreinlega fyrirbyggt dýrkeypt mistök.

 

Rekur eigið hönnunarstúdíó

Katrín útskrifaðir 2002 frá Art Institute of Fort Lauderdale, Florida með BSc í innanhússarkitektúr og rekur nú hönnunarstúdíó undir eigin nafni á Íslandi. Þar vinnur hún ásamt Ómari Erni Sigurðssyni grafískum hönnuði, að fjölbreyttum verkefnum fyrir einstaklinga og fyrirtæki ásamt því að flytja inn innréttingar frá Ítalíu.

Erindi Katrínar ber yfirskriftina Hönnun heimilisins og hefst á mánudag klukkan 16:30. Það er hluti af sérstakri viðburðaröð á Borgarbókasafninu Árbæ, sem nefnist Fróðleikskaffi, en það er ókeypis og öllum opið.