Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar.
Flestir vilja ná hærri aldri – eldast. Enginn vill hins vegar verða gamall og skyldi engan undra. Eitt er að bæta árum við lífið en mun flóknara og torsóttara að bæta lífi við árin. Nú er svo komið að þúsundir Íslendinga sem komnir eru á efri ár búa við algerlega óásættanleg skilyrði. Fólk sem hefur allt sitt líf lagt samfélaginu sitt til með sköttum og skyldum situr hjá þegar síst skyldi og nýtur hvorki mannúðar né mannvirðingar í okkar ríka og öfluga samfélagi. Við hrósum okkur af því á tyllidögum að hvergi í veröldinni búi fólk við meira öryggi en hér á landi, hér sé hagvöxtur meiri en víðast hvar í heiminum og jafnrétti kynjanna til fyrirmyndar – enda konur í forystu í flestum opinberum störfum. Miðað við þessar fjálglegu yfirlýsingar sem ráðamenn þjóðarinnar láta frá sér fara í ræðu og riti mætti halda að Ísland væri sannkallað fyrirmyndarríki. Raunveruleikinn er hins vegar allur annar og eldri borgarar okkar sem hafa lagt grunninn að því velferðarsamfélagi sem ráðamenn státa sig af sitja afskiptir hjá og staða margra þeirra er algerlega óviðunandi. Meðan svo er er Ísland ekki fyrirmyndarríki.
Eins og vænta má láta ýmsir kvillar á sér kræla þegar aldurinn færist yfir. Til að byrja með er kannski ekki um stór né alvarlega vandamál að ræða en vandamálin aukast hægt og bítandi eftir því sem árin færast yfir. Fyrsta ráðið er oft að leita til heimilislæknis sem oft reynist þrautin þyngri þar sem erfitt getur reynst að fá tíma hjá heimilislækni svo fremi sem menn hafa yfirhöfuð einhvern slíkan til að leita til. Sjúklingnum fer smátt og smátt aftur en kerfið er samt við sig.
„Hvað á ég að gera ef hún dettur og ég get ekki reist hana við?“ Svörin koma strax og eiginlega sjálfvirkt: „Ef þú nærð ekki í ættingja sem geta hjálpað þér skaltu hringja í 112. Þá kemur sjúkrabíll og hún verður flutt á Bráðamóttökuna.“
Sjúklingurinn er settur í sjúkrakörfu og honum ekið á Bráðamóttökuna. Þar mæta honum andstuttir heilbrigðisstarfsmenn sem eru á hlaupum um þrönga og krókótta ganga Bráðamóttökunnar og ná ekki, þrátt fyrir góðan vilja, að sinna hlutverki sínu. Sjúklingnum er komið fyrir í bráðabirgðarúmi á gangi bráðamóttökunnar eins og fjölmörgum öðrum sem eiga erfitt og þurfa á aðhlynningu og umönnun að halda. Þá er nærtækt að spyrja: „Hvað verður hún lengi hérna á ganginum? Er ekki mögulegt að hún komist á sjúkrastofu og fái almennilegt rúm og umönnun? Til dæmis vökva í æð og næringu.“ Svarið kemur fljótt: „Hún verður að minnsta kosti fjóra sólarhringa hér á göngunum. Um annað er ekki að ræða þar sem 40 manns eru hér núna og bíða eftir plássi á deild sem því miður er ekki tiltækt.“
Framtíð sjúklingins er því sannarlega ekki björt þó að hann sé kominn í „rúm“ á bráðamóttöku. Hún vill því frekar fara heim. Þar er hún vön að athafna sig og þekkir hvern krók og kima. Á spítalanum hafi hún á tilfinningunni að lítið sé hægt fyrir sig að gera og hún sé frekar fyrir en sjúklingur sem nýtur góðrar þjónustu. Heima er líka Jón hennar og svo má alltaf reyna að ná í krakkana ef allt fer í óefni.
Við leggjum áherslu á að „Búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“ sem er sannarlega mikils virði, fyrir þá öldruðu og alla sem að þeim standa. Það sem fram kemur hér að framan sýnir hins vegar svo ekki verður á móti mælt að aldraðir hér á landi búa fæstir við „áhyggjulaust ævikvöld“. Þeir eiga kannski einhverja aura í handraðanum en það dugir ekki til þegar heilbrigðiskerfið og hið opinbera bregst jafn illilega og raun ber vitni.