Breyskleiki mannanna  

Er hægt að sætta sig við að ástvinur manns sé fær um að beita aðra manneskju grófu ofbeldi? Það er áhugaverð spurning og til allrar lukku þurfum við fæst að svara henni. Margir rithöfundar hafa tekist á við þetta efni en Ragna Sigurðardóttir gerir það feykilega vel í Útreiðartúrinn.

Hjónin Sævar og Helga eru nýflutt út á Seltjarnarnes eftir áralanga búsetu í Þingholtunum. Sonur þeirra, Pétur, er ekki sáttur við flutninginn, enda bíður hans að byrja í nýjum skóla og skapa sér nýjan vinahóp. Það er aldrei auðvelt og Pétur er á viðkvæmum aldri, aðeins fjórtán ára. Sævar finnur að samband þeirra er ekki eins traust og áður, ekki eins náið og gjáin breikkar þegar vinur Péturs, Sindri, verður fyrir alvarlegri líkamsárás eitt kvöldið. Á Sævar fer að leita gamalt morðmál af nesinu sem langalangaafi hans var flæktur í og jafnvel hugsanlegur gerandi. Í ofanálag við allt þetta mætir Sævar fyrrum leikfélaga sínum, dreng sem kom illa fram við hann og beitti hann andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Ragna skrifar þessa sögu af sömu næmni og greina mátti í bókinni, Þetta rauða er ástin. Hér er í raun um tvær sögur að ræða, önnur af þeim Guðnýju og Eyjólfi, ungur ástföngnu pari sem ætla að setjast á Seltjarnarnesi árið 1881. Þau eru vistráðin hvort á sínum bænum og þess vegna verður Guðný glöð þegar henni býðst að fara í útreiðartúr með unnusta sínum, fyrrum húsbónda hans Páli, eiginkonu hans, Elísabetu og Benidikt, smið sem vinnur hjá þeim. Hún kvíðir einnig ögn fyrir því hún treystir ekki Páli og Elísabet hefur sýnt henni kuldalega kurteisi til þess en enga vináttu. Benidikt þekkir hún ekki. Talsvert af áfengi er haft meðferðis í túrinn og hann endar með að Benidikt finnst látinn með andlitið ofan í forarpolli og Eyjólfur sofandi þar skammt frá. Málið fær ýtarlega rannsókn hjá Karli Jónssyni landshöfðingjaritara en ekki tekst að upplýsa hvað gerðist.

Þann hluta bókarinnar byggir Ragna á raunverulegum atburðum sem áttu sér stað í útreiðartúr á Hellisheiði en það mál var þekkt undir nafninu Kristmannsmálið en aldrei fékkst neinn botn í hvað gerðist þar. Í þessari sögu fæst niðurstaða en þó ekki til fulls, enda gegnir frásögnin af þeim Guðnýju og Eyjólfi fyrst og fremst þeim tilgangi að skapa vangaveltur um hvort ofbeldishneigð sé ættgeng og hvernig það sé að vita að maður sé kominn af hugsanlegum morðingja. Hefur það einhver áhrif á líðan afkomendanna og ætti það að hafa einhver áhrif?

Þetta er vel fléttuð saga með margar hliðarsögur sem allar snúa að siðferði og ofbeldi af einhverju tagi. Líkt og fyrri bækur Rögnu skilur hún lesandann eftir með stórar spurningar sem vert er að ígrunda vandlega.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.