„Söngur er heilandi fyrir líkama og sál“

Fólk greinir á um hver eru bestu ár lífsins og mjög misjafnt eftir einstaklingum hve vel þeir njóta sín á hverju skeiði. En til eru þeir sem sjá kostina við hvert æviskeið og finna alltaf leiðir til að lifa lífinu til fulls. Í þeim hópi eru hjónin, Ísólfur Gylfi Pálmason og Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir en þau kusu að líta til baka og skoða hvaða drauma þeim hefði ekki tekist að láta rætast og hefjast síðan handa við að hrinda þeim í framkvæmd. Einn þeirra var draumurinn um að koma á framfæri eigin tónlistarsköpun.

Er tónlist mikilvægur hluti af lífi ykkar hjóna?

„Tónlist hefur alltaf átt sinn sess hjá okkur. Ég lærði á hljóðfæri í bernsku og spilaði með nokkrum hljómsveitum á yngri árum og átti mér þann draum að verða poppari,“ segir Ísólfur og hlær.

Steinunn stundaði nám í tónlistarskóla Rangæinga og lærði m.a. að syngja hjá Jóni Sigurbjörnssyni en á þeim árum stýrði Agnes Löve skólanum. Ísólfur býr svo vel að eiga nokkur hljóðfæri, s.s. bassa, trommusett og gítara sem hann spilar á, á kvöldin yfir sjónvarpinu, konu sinni til nokkurrar ánægju. Og Ísólfur segir: „Fyrst eignaðist ég melódíku sem ég spilaði mikið á sem krakki. Síðan eignaðist ég mínar fyrstu trommur 12 ára gamall. Ég æfði stíft á trommurnar á meðan mamma sat í þvottahúsinu og prjónaði, hún var alltaf afar umburðarlynd kona og í stað þess að verða þreytt á trommuslættinum gladdist hún yfir því að vita hvar einkasonurinn héldi sig.“

Saumaði utan um púkablístruna

Steinunn sem ólst upp í Ólafsvík lærði á blokkflautu í skólanum hjá virðulegri prestsfrú. Hún rifjar upp skemmtilega minningu af því námi.

„Ég eignaðist fína blokkflautu 11 ára gömul, gallinn var sá að það vantaði kassann undir hana og ég sem var vön að bjarga mér saumaði þennan fína fóðraða poka undir gripinn og saumaði stórum stöfum á pokann: PÚKAPLÍSTRAN. Ég féll nokkuð í áliti hjá kennaranum við þetta framtak mitt og fékk fá tækifæri til að láta ljós mitt skína í tónlistinni eftir þetta. Síðar eignaðist ég gítar og við skólasysturnar fengum tækifæri til að troða upp á skólaskemmtunum og hjá stúkunni Ennisfjólu,“ bætir Steinunn kímin við.

Hvenær byrjaðir þú, Ísólfur, að semja tónlist? 

„Ætli það sé ekki ríflega hálf öld síðan. Ég gluggaði mikið í ljóðabækur á þessum tíma og samdi lög við ljóð sem höfðuðu til mín. Þetta var á hippatímanum og þá þótti mjög flott að syngja og spila á gítar, tregafulla söngva. Ég safnaði hári til að falla inní trúbatoraímyndina við litla hylli föður míns,“ segir Ísólfur.

Textarnir við lögin koma úr mörgum áttum. Eru þeir uppspretta innblástur að lögum eða finnur þú seinna ljóð eða texta sem þér finnst falla að laginu? 

„Það er ýmist, í fyrstu voru ljóð og textar uppspretta að lögum mínum en seinna komu lögin á undan. Á plötunni okkar eru t.d. tveir textar eftir Kristján Hreinsson sem ég bað hann um að semja sérstaklega fyrir plötuna.“

Lesa ljóð hvort fyrir annað

Eruð þið ljóðaunnendur?

„Við eigum þó nokkuð af ljóðabókum sem við gluggum í við og við. Þegar við rekumst á eitthvað sem höfðar til okkar lesum við gjarnan hvort fyrir annað. Ég les ljóðaþáttinn í Morgunblaðinu á hverjum morgni og hef gaman af. Nokkrir vinir mínir á Facebook semja einnig ljóð og birta þar, sum þeirra eru ort beint til mín og það finnst mér skemmtilegt,“ segir Ísólfur.

Og Steinunn bætir við: „Við hjónin erum bæði Rótarýfélagar og á fundum í Rótarýklúbbi Rangæinga er alltaf lesið ljóð kvöldsins. Það er skemmtileg hefð og sumir félagar hafa sérstaklega keypt sér ljóðabækur til að koma með í klúbbinn, þannig að við teljum að þetta auki áhuga fyrir ljóðum. Ég var um árabil forstöðukona fyrir Héraðsbókasafni Rangæinga og þá lagði ég mikla áherslu á að kaupa allar ljóðabækur sem komu út á hverju ári. Tilfellið er að ljóðabækur seljast ekki því miður ekki í stóru upplagi. Svo má bæta því við að ég hef samið dálítið af óhefðbundnum ljóðum sjálfri mér til ánægju,“ segir Steinunn og brosir.

Þið eruð skógarbændur og starfið því mikið úti í náttúrunni. Nærir hún sköpunargáfuna? 

„Við erum svo lánsöm að búa í náttúrunni ef svo má að orði komast, með afar fallegu útsýni, sem við dáumst að á hverjum degi. Við fylgjumst með döguninni og sólsetrinu sem aldrei er eins. Fuglalífið er afar fjölbreytilegt sem gaman er að fylgjast með og hvernig það breytist eftir árstíðum. Það færir okkur einnig mikla ánægju að fylgjast með skóginum okkar vaxa og allt þetta nærir að sjálfsögðu sköpunargáfuna,“ segir Steinunn og bætir við: „Við hjólum einnig mikið en hér í kring eru frábæra reiðhjólaleiðir í náttúrunni, þar eru Þveráraurar í miklu uppáhaldi með öllu sínu fjölbreytta fuglalífi, fallegu flóru og stórbrotna útsýni.“

Stukku langt út fyrir þægindarammann

Hvað er ánægjulegast við það að hafa getað látið þennan draum rætast og gefa út sína eigin tónlist?

„Draumurinn var alltaf sá að varðveita nokkur af þeim lögum sem ég hef samið, koma þeim á nótur og um leið að taka þau upp. Nú hefur sá draumur ræst og þetta ferli var bæði skemmtilegt og lærdómsríkt. Þessi hugmynd var fyrst og fremst hugsuð fyrir fjölskylduna, þarna eru m.a. textar eftir pabba minn, Pálma Eyjólfsson, við hjónin syngjum og svo eru með okkur mæðgur sem sjá um bakraddir en þær eru ættaðar frá Hvolsvelli og Hjördís Tinna sem er læknir er langafa barn föður míns. Ánægjulegast er kannski allt ferlið, þetta er dálítið eins og hús í byggingu. Lögin voru eins og fokhelt hús þegar ég kom með þau til Sigurgeirs Sigmundssonar sem sá um að útsetja og stjórna verkinu. Ég var hálf skjálfandi á beinunum að opinbera mig með þetta en á endanum varð þetta eins og fullbyggt hús. Fyrir hvatningu og notalegheit tónlistarmannanna þá varð ferlið mun ánægjulegra en við höfðum kannski haldið,“ segir Ísólfur.

„Við þurftum bæði að stökkva vel út fyrir þægindarammann. Ég hafði t.d. ekki sungið í fjölda mörg ár og þurfti því að æfa heilmikið, en það var bara gaman, söngur er mjög heilandi fyrir líkama og sál. Svo þarf að venjast því að geta hlustað á sjálfan sig, það er alveg áskorun. Nú svo þegar lögin eru komin út þá fyllist maður smá metnaði fyrir því að koma þessu á framfæri og það er gaman að fylgjast með nýjustu tölum um spilun á Spotify,“ segir Steinunn að lokum og blikkar glettnislega.

Á plötunni eru fimm lög og eru þau í ýmsum tónlistarstílum, allt frá sveitatónlist til trúarlegrar tónlistar. Útsetningar eru þó allar í frekar léttum dægurlaga-stíl. Eins og fyrr greinir sá Sigurgeir Sigmundsson um útsetningar og gítarleik, Jóhann Ásmundsson leikur á bassa og sá um upptökur og hljóðblöndun, Pálmi Sigurhjartarson leikur á hljómborð, Sigfús Óttarsson leikur á trommur og Hjörleifur Valsson spilar á fiðlu. Þær Elfa Margrét Ingvadóttir og Hjördís Tinna Pálmadóttir sjá um bakraddir og þau hjónin syngja lögin. Upptökur fóru fram í stúdíó Paradís í Sandgerði og má nálgast þær á Spotify.

Sjá: https://open.spotify.com/album/2YOF0LHebFDX7kv9JMGnXK?si=cKlEIMXITBiY-6jwMChdnw

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.