Munnþurrkur og erfiðleikar við að kyngja

Erfiðleikar við að tyggja og kyngja er kvilli sem sumir finna fyrir þegar aldurinn færist yfir. Margar ástæður geta legið að baki. Ein sú algengasta er munnþurrkur, sumir telja að hann sé lítilfjörlegur og ómerkilegur kvilli en munnvatn gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum og á sinn þátt í að menn halda að góðri heilsu.

Munnþurrki er almennt skipt í tvo flokka: Í fyrsta lagi þann sem stafar af huglægri skynjun fólks. Þeim finnst  munnurinn sé þurr (xerostomia) þótt svo sé ekki endilega. Í öðru lagi er munnvatnsseyting mælanlega minni þegar fólk eldist. Stundum skarast þessar tvær ástæður, en ekki alltaf.

Við framleiðum venjulega 1,5 lítra af munnvatni á dag. Munnvatn samanstendur að mestu leyti af vatni, en inniheldur einnig prótein sem „smyrja“ matinn og auðvelda fólki að kyngja en einnig mótefni sem vinna gegn bakteríuvexti og sýkingum í munnholinu. Í munnvatni er líka bíkarbónat sem verndar tennur gegn sýruárásum og tannskemmdum. Munnvatn hefur einnig áhrif á bragðskynið og það inniheldur ensím sem eru mikilvæg þegar kemur að meltingu matar. Meltingin byrjar í munninum og þess vegna er fólk hvatt til að tyggja matinn vel og gefa þar með ensímum munnvatnsins tækifæri til að vinna sitt verk.

Andremma og munnsár

Munnþurrkur getur hins vegar valdið ýmsum vandamálum, til að mynda aukið tíðni tannskemmda, sára í munnholi eða sprungum á tungu, sveppasýkingum, andremmu, þurri slímhúð, erfiðleikum með að fá gervitennur til að passa rétt, varaþurrki, sárum í munnvikum, talörðugleikum, erfiðleikum við að kyngja mat og breyttu bragðskyni.

Orsök munnþurrks eru oftast lyf. Yfir 500 mismunandi lyf eru hafa þessa þekktu aukaverkun. Ef fólk þarf að gangast undir geislameðferð getur það valdið munnþurrki. Vandamálið getur einnig stafað af sjúkdómum eins og gigt, sykursýki, lifrarsjúkdómum og Sjögrens-heilkenni, auk smitsjúkdóma eins og HIV og lifrarbólgu C. Passi fólk ekki að drekka nóg yfir daginn getur það einnig valdið munnþurrki.

Margt getum við gert sjálf

Það er engin ástæða til að sætta sig munnþurrk og láta óþægindin yfir sig ganga. Margt er hægt að gera. Í samráði við lækni er mögulegt að skipta út lyfjum fyrir lyf sem valda minni aukaverkunum. Hugsanlega er hægt að draga úr lyfjanotkuninni í einhverjum tilfellum. Sykurlausar, súrar hálstöflur eða tyggjó geta hjálpað því þetta sælgæti örvar munnvatnsframleiðslu. Sykur á hinn bóginn eykur hættuna á munnþurrki og þess vegna ætti að forðast hann. Ávaxtasafar, gosdrykkir, kaffi og te með sykri eru ekki heppilegir drykkir finni fólk fyrir munnþurrki. Hægt er að kaupa munnvatnsúða án lyfseðils í apóteki en mörgum nægir að drekka meira vatn. Í dag er hægt að fá handhægar og fallegar vatnsflöskur sem auðvelt er að hafa með sér hvert sem menn fara og drekka reglulega úr þeim og gott er að skola munnholið með vatninu áður en mat er kyngt.

Skiptið yfir í tannkrem sem ekki freyðir t.d. er Zendium gott. Í freyðandi tannkremi eru innihaldsefni sem geta haft áhrif á munnvatnshimnu munnsins. Það borgar sig því að vera sérstaklega varkár við tannhreinsun og nota tannþráð og tannstöngla. Ekki má gleyma að fara reglulega til tannlæknis. Ef fólk notar gervitennur verður að þrífa þær vandlega. Hægt er að nota lím ef gervitennurnar losna oft vegna munnþurrks.

Nálastungur hafa reynst árangursríkar til að auka munnvatnsframleiðslu. Einnig eru til lyf sem geta hjálpað, en þau hafa oft aukaverkanir, svo sem svitamyndun.

Kyngingarvandamál

Ef þú átt í erfiðleikum með að slefa eða kyngja eigin munnvatni, finnur fyrir því að matur sitji fastur í hálsinum eða finnur fyrir verkjum í brjóstholi eftir að hafa borðað, getur það verið merki um að þú kyngir ekki með eðlilegum hætti. Endurteknar sýkingar eða lungnabólga geta einnig bent til þess að þú kyngir ekki á réttan hátt. Ef þú átt í vandræðum ættir þú að panta tíma hjá lækni og talmeinafræðingi og fá skoðun. Margir hafa fengið aðstoð hjá talmeinafræðingum við að endurþjálfa kyngingarstarfsemi líkamans. Þegar kemur að mataræði ættir fólk að forðast að borða og drekka í senn. Betra er að tyggja vel fyrst og drekka síðan og kyngja.

Kynging er flókið lífeðlisfræðilegt ferli sem felur í sér að virkja meira en 25 vöðva í munni og vélinda. Bilun í vöðvum, eða taugum, er algengasta orsök kyngingarvandamála. Kynging á sér stað bæði með hreyfingum sem við stjórnum sjálf og viðbrögðum og ferlum sem eru ósjálfráð. Með aldri veikist tungan og við það hægir á kyngingarferlinu. Talið er að um það bil 30 prósent aldraðra yfir 80 ára aldri eigi í erfiðleikum með að kyngja.

Vandamál tengd því að kyngja mat geta einnig stafað af krabbameini eða geta verið afleiðingar meiðsla eftir geislameðferð. Kyngingarerfiðleikar eru sömuleiðis eitt einkenna hjá flestum sem fá heilablóðfall. Erfiðleikarnir ganga oftast til baka, en 10-20 prósent heilablóðfallssjúklinga ná aldrei fullum bata að þessu leyti.

Tannheilsa gegnir lykilhlutverki í heilbrigði munnsins og munnholsins. Það að hugsa vel um tennurnar er því mikilvægur hluti þess að tryggja góð lífsgæði langt fram eftir aldri. Að nota flúortannkrem og vera meðvitaður um að hirða tennurnar er þess vegna góð lexía að læra strax í æsku og iðka alla ævi. Nú heldur sífellt fleira fólk eigin tönnum alla ævi. Árið 1975 var aðeins helmingur þeirra sem voru eldri en 60 ára með eigin tennur. Árið 2002 var þessi tala komin upp í 85 prósent. Flestir eldri borgarar eru nú enn með að minnsta kosti 20 tennur óskemmdar og margir eru með ígræðslur, brýr og krónur. Það þýðir að enn mikilvægara er en áður var að halda munninum hreinum og bursta tennurnar vel. Flest okkar líta á umhirðu tanna og munns sem einkamál og eitthvað sem er persónubundið, en ef fólk finnur fyrir minnkuðum styrk í höndum og handleggjum eða er með skerrta hreyfifærni sem gerir því erfitt fyrir við tannburstun ætti það að biðja um hjálp. Það getur skipt sköpum hvað varðar áframhaldandi vellíðan.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.