Þrjár frábærar; ungar konur hasla sér völl á glæpasagnasenunni

Glæpasögur eru orðnar stór hluti af þeim bókum sem gefnar eru út hér á landi á ári hverju og við eigum orðið marga góða glæpasagnahöfunda. Þrjár ungar konur eru í þessum hópi og eiga sameiginlegt að kunna vel að byggja upp söguþráð og koma lesendum sínum á óvart í lokin.

Í Eftirförinni hitta lesendur Hrefnu ungan lögfræðing sem komin er í starf hjá lögreglunni og að þessu sinni tekur hún þátt í að rannsaka mannshvarf. Bifvélavirkinn Hallur hverfur eftir kvöld á barnum með vinum sínum. Þetta er ábyrgðarfullur fjölskyldufaðir sem hefur, að því er virðist enga ástæðu til að ganga sjálfviljugur út úr lífi sínu. Í fyrstu eru Hrefna, Sigtryggur, Georg og Bára algjörlega ráðalaus og finna engin spor en svo kemur ýmislegt upp úr dúrnum sem bendir til að hvarfið kunni að tengjast atburðum úr lífi Selmu, unnustu Halls. Hún varð vitni að og tók þátt í svæsnu einelti á unglingsárunum og allt bendir til að einhver sé að leita hefnda.

Anna Rún er mjög fínn glæpasagnahöfundur. Persónusköpun hennar er áhugaverð og hún kann vel að byggja upp spennu. Henni tekst líka vel að lýsa einelti, hvernig það byrjar og vex og fer úr böndunum. Aleiðingarnar eru einnig alvarlegar og setja mark sitt á alla bæði gerendur, þolendur og vitni.

Litlu lygarnar eru alls ekki svo litlar

Allar litlu lygarnar eftir Evu Björgu Ægisdóttur er spennandi og ófyrirsjáanleg glæpasaga. Oft upplifa lesendur, einkum þeir sem lesa margar glæpasögur, að þeir geta fljótlega giskað á hver morðinginn er. Hér er það eiginlega ómögulegt og lengi framan af eru margir grunaðir. Smátt og smátt þrengist þó hringurinn, eins og vera ber, í góðum glæpasögum.

Hjalti er eftirsóttur sálfræðingur, enda sérhæfir hann sig í áfallastreitu og úrvinnslu erfiðra áfalla. Til hans leitar ung kona, Helena, í viðleitni sinni til að komast yfir það áfall að pabbi hennar skaut móður hennar og sjálfan sig þegar hún var fimmtán ára. Svo undarlega bregður við að Hjalti þekkir málið. Áður hefur verið leitað til hans og hann beðinn um að leggja mat á dagbók móðurinnar sem var myrt. Helena er dofin tilfinningalega, finnst hún ekki lifa lífinu til fulls og ekki ná að mynda tengsl við aðra. Hjalti heillast af henni og Katla, eiginkona hans, finnur hversu fjarlægur hann er og óttast að hjónabandið sé í hættu.

Eva Björg fædd og uppalin á Akranesi og margar fyrri bóka hennar gerast þar og nú er verið að kvikmynda fyrstu bók hennar um Elmu lögreglukonu. En í þessari er höfundur hins vegar í Reykjavík og Hveragerði. Allar litlu lygarnar er vel uppbyggð saga sem heldur lesandanum við efnið. Nokkrir óvæntir og spennandi snúningar verða á söguþræðinum og athyglisvert og skemmtilegt að velta fyrir sér tengslum eða tengslaleysi persóna bókarinnar og muninum á siðblindu og siðleysi.

Ógnvekjandi hlátur

Þegar hún hló eftir Katrínu Júlíusdóttur er önnur bók höfundar. Sykur kom út árið 2020 og hlaut Svartfuglinn það ár. Katrín kann að skapa áhugaverðar persónur og þau Sigurdís og Unnar eru það sannarlega. Spennan á milli þeirra fer vaxandi eftir Sigurdís snýr heim frá Bandaríkjunum í kjölfar þess að ákveðið hefur verið að taka aftur upp mál föður hennar. Hann lést eftir fall ofan af sjöttu hæð í blokk og löggæsluyfirvöld eru ekki viss um að lögreglan hafi rannsakað lát hans nægilega vel.

Sigurdís var í námi úti og stóð sig vel. Mjög líklegt er að hún hefði átt þess kost að fá vinnu hjá FBI en fljótlega eftir að hún kemur heim gerir hún sér grein fyrir að hana langar hvorki til að yfirgefa heimalandið né manninn sem beið hér á landi. Bandarískur kærasti hennar verður því líklega að sjá að baki henni. En þótt Sigurdís hafi komið heim til að styðja móður sína og bróður meðan ný rannsókn fer fram er þess ekki langt að bíða að hún sé beðin að hjálpa íslensku lögreglunni að finna morðingja þekktar sjónvarpsstjörnu sem fannst látin úti á Granda eftir Reykjavíkurmaraþonið. Málið teygir anga sína vestur á firði og sú myrta var sannarlega ekkert gæðablóð og nokkuð ljóst að margir hafa án efa átt harma að hefna gagnvart henni.

Þetta er fín bók. Skemmtileg flétta og nokkrir áhugaverðir snúningar á henni. Fjölskyldur og fjölskyldumál eru þó alltaf í fyrirrúmi á Íslandi og ljóst að fortíðin hefur ávallt eitthvað með nútíðina að gera.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.