Þegar ég var unglingur lágu allar stúlkur í ástarsögum. Theresa Charles, Danielle Steel, Barbara Cartland og Margit Ravn voru vinsælastar og mikið skipst á bókum eftir þær milli jóla og nýárs. En þessi tegund bókmennta þótti ekki fín og sumar konur fóru vel með það að þær læsu slíkt „rusl.“ Hugsanlega vegna þess að um hreina afþreyingu var að ræða. Margar ástarsögur teljast hins vegar meðal stórvirkja bókmenntanna en eiga það þá flestar sameiginlegt að enda illa.
Ástarsögur, líkt og sakamálasögur, voru hreinar formúlubókmenntir. Ung saklaus stúlka kynnist manni verður ástfangin og alls konar misskilningur kemur í veg fyrir að þau nái saman þar til allt leysist farssællega að lokum og venjulega endar sagan þegar þau standa fyrir framan altarið alsæl með hvort annað. Formúlan á sér hins vegar athyglisverðan bakgrunn. Fyrst ástarsagan Pamela, eftir Samuel Richardsson kom út árið 1740 en formið var þekkt meðal Forn-Grikkja þótt fáar sögur hafi varðveist. Á nítjándu öld þegar skáldsagan var í hvað örastri þróun var alls ekki litið niður á rómantískar sögur og Pride and Prejudice, Persuasion, Emma og Northenger Abbey eftir Jane Austin nutu gríðarlegra vinsælda og flokkast meðal klassískra bókmennta í dag. Hið sama gildir um bækur Brontë-systra, Jane Eyre, Wuthering Heights og The Tenant of Wildfell Hall.
Sé vel að gáð sést strax að þarna eru lagðar línurnar fyrir ástarsagnahöfunda framtíðarinnar. Par hittist og líst alls ekki vel hvort á annað. Hann er hrokafullur og yfirgangssamur og hún fær óbeit á honum. En ómótstæðilegt aðdráttarafl er til staðar og að lokum gangast þau við tilfinningum sínum hvort í annars garð og um leið gera þau sér grein fyrir mannkostum hins. Misskilningur og fordómar hafa komið í veg fyrir að þau geti það. Þarna er Jane okkar Austin í hnotskurn og karlmaðurinn með ógurlegt leyndarmál í fortíðinni sprettur beint úr Jane Eyre, konan á flótta frá ofbeldisfullum eiginmanni úr The Tenant of Wildfell Hall og elskendurnir sem eyða hvort öðru í vítislogum ástríðu sinnar úr Wuthering Heights. Og formúlan virkar, aftur og aftur.
Grunn persónusköpun og dýpri karakterar
Munurinn einungis sá að meðan nítjándu aldar höfundarnar skrifuðu af snilld og sköpuðu einstæðar persónur rista tuttugustu aldar formúlubækurnar grunnt. Þær eru ljúfar, renna vel og lesandinn er ögn bjartsýnni þegar hann leggur þær aftur en hann var þegar hann opnaði bókina. Það verður þó að segja Theresu Charles til hróss að hún kunni að skapa spennu og Margit Ravn var virkilega fyndin og skemmtileg. Margit Sandemo kom fram á sjónarsviðið síðar og kunni sannarlega þá list að halda lesendum sínum í heljargreipum spennings og sumir þeirra gátu vart beðið eftir næstu Ísfólksbók. Formið lifir enn góðu lífi og skemmst að minnast gríðarlegra vinsælda hinnar svokölluð Twilight-seríu og Fifty Shades of Grey. Þótt ástarsögum sé fyrst og fremst ætlað að veita afþreyingu eru þær mismunandi vandaðar og um að gera að lesa þær með gagnrýnum augum rétt eins og aðrar bókmenntir.
Íslensk klassík
Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen og Maður og kona eftir sama höfund eru frábærlega vel skrifaðar og skemmtilegar bækur. Þetta er íslensk klassík eins og hún gerist best og stenst fyllilega samanburð við það sem best gerist í nítjándu aldar bókmenntum Breta. Jón er snillingur í persónusköpun og allir ættu að lesa bækurnar hans.
Allar bækur Guðrúnar frá Lundi eru ástarsögur, mismunandi flóknar og ráð ráðast yfir mörgum kaffibollum. Guðrún er skemmtilegur höfundur og kann þá list að halda lesendum sínum við efnið þótt hún sé ekki öllum að skapi. Hún er þó of fyrirferðarmikil til að eiga það skilið að horft sé framhjá henni þegar fjallað er um ástarsögur.
Magnea frá Kleifum skrifaði fjölda barnabóka en einnig ástarsögur, þar á meðal var Karlsen stýrimaður, feykilega vinsæl bók og sögur Elínborgar Lárusdóttur nutu einnig mikilla vinsælda af þeim má nefna, Símon í Norðurhlíð og framhaldið Steingerður. Aðalheiður Karlsdóttir skrifaði þónokkrar ástarsögur, sömuleiðis Guðbjörg Hermannsdóttir, Hugrún, Ingibjörg Sigurðardóttir og Ragnheiður Jónsdóttir. Bækur þessara kvenna hafa verið mjög vanmetnar sem og bækur Birgittu Halldórsdóttur en þær hafa nýlega gengið í endurnýjun lífdaga á Storytel.
Bestu ástarsögurnar
Auðvitað er ástæða fyrir því að Pride and Prejudice hefur lifað og er lesin enn þann dag i dag. Það er ekki hægt að horfa framhjá henni þegar tíndar eru til bestu sögurnar um ást. North and South eftir Elizabeth Gaskell er önnur frábær klassísk og Á hverfanda hveli eftir Margaret Mitchell er sömuleiðis í þeim hópi þótt hægt sé að færa rök fyrir því að sú saga fjalli ekki síður um stríð, dauða gamalla viðhorfa og þráhyggju.
Af nýrri sögum má nefna hina dásamlegu Dansinn við Regitze eftir Mörthu Christiansen, margar rómantískar sálir elska The Notebook eftir Nicholas Sparks en Regitze stendur henni að fyllilega á sporði að mati þeirrar er þetta skrifar. Er í raun mun betri. The Thorn Birds eftir Colleen McCullough er önnur sem allir unnendur ástarsagna ættu að lesa.
Water for Elephants eftir Söru Gruen er gersamlega heillandi, skrifuð af verulega góðum höfundi. Hið sama má segja um Fried Green Tomatoes at the Whistle Stop Café eftir Fannie Flagg. Nú og svo má ekki gleyma Outlander eftir Diane Gabaldon, Poldark eftir Winston Graham en þeirra má njóta í sjónvarpi núna líka.
Og svo er vert að nefna að nýlega hefur færst í aukana að skrifaðar séu ástarsögur um ástir fólks sem komið er yfir miðjan aldur má meðal þeirra nefna, Brýrnar í Madison-sýslu eftir Robert James, Dreggjar dagsins eftir Kazuo Ishiguru, Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Vistaskipti eftir Beth O’Leary.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







