„Vertu úlfur eftir Héðinn Unnsteinsson er mögnuð lífsreynslusaga manns sem hefur upplifað meira en flestir“, segir Árni Þór Árnason bókmenntafræðingur og kynningarstjóri hjá Forlaginu. „Hún veitir lesandanum óvenjulega sýn inní heim geðveikra. Héðinn reynir að koma í orð, líðan sem flestum er óskiljanleg. Hann ræðir einng um sýn sína á heilbrigðiskerfið. Mér finnst vera mikill húmor í bókinni, til dæmis þegar höfundurinn ætlar að fara og slást við Mel Gibson á Holtinu“ segir Árni Þór. Hann segir líka um bókina að hún sé „óheyrilega“ vel skrifuð og vonar að höfundurinn eigi eftir að senda frá sér fleiri bækur, en Vertu úlfur er frumraun hans.
Óvenju margar bækur í vor
Vertu úlfur kom út í vor. Árni Þór segir að það hafi komið úr óvenjumargar bækur í vor, hjá öllum bókaforlögunum. Þekktir og vinsælir höfundar séu farnir að koma með bækur á vorin. Bókaútgáfan sem eitt sinn var nær eingöngu bundin við jólin sé farin að dreifast. „Það hefur verið stefnan núna lengi, að reyna að dreifa útgáfunni meira yfir árið“, segir Árni Þór. „Þetta virðist loks vera farið að virka. Þetta hefur verið að mjakast í þessa átt og núna virðist tíminn þegar þetta loksins gerist vera runninn upp“, segir hann og bætir við að það sé gaman að sjá hvað bókaforlögin séu samtaka um þetta.