„Við hættum í nokkur ár, en ég held að við séum búin að halda jólin 18 sinnum í Lech í Austurríki“, segir Gerða S. Jónsdóttir sem Lifðu núna ræddi við um jólahald í útlöndum. Gerða og eiginmaður hennar Ólafur Gíslason hafa búið erlendis og haldið jól bæði í Bandaríkjunum og Ísrael. Þau voru vön að fara á skíði með börnin sín í febrúar, en þegar dóttir þeirra var komin í Menntaskólann í Reykjavík var ekki lengur hægt að fá frí fyrir hana til að fara í skíðaferð. Þess vegna kviknaði sú hugmynd að fara á skíði um jólin.
Jólin byrja á sama tíma í Lech
Önnur ástæða fyrir því að þau fóru að halda jólin í Lech, var sú að Gerða átti íslenska vinkonu í Bandaríkjunum, en þær voru saman flugfreyjur hjá Pan Am endur fyrir löngu. Þessi íslenska vinkona átti eiginmann sem var frá Úkraínu. Bandaríkjamenn halda jólin hátíðleg á jóladag, en í Úkraínu eru jólin ekki fyrr en í janúar. Hennar fjölskylda og Gerða og Ólafur, ákváðu því að halda jólin hátíðleg í Austurríki og Gerða segir að það sé eins í Lech og á Íslandi, að jólin byrji á aðfangadag klukkan 18:00.
Jólaguðspjallið lesið út í skógi
Þessar fjölskyldur fóru svo í framhaldinu að halda jólin saman á litlu fjölskylduhóteli í Lech og smám saman bættust fleiri í hópinn, þannig að þetta varð eins og jólahald í stórri fjölskyldu. Þau Óli og Gerða segja að um klukkan fjögur í eftirmiðdaginn hafi allir farið saman upp í fjallshlíð og þar í skóginum var pottur með jólaglöggi. Jólaguðspjallið var svo lesið upphátt bæði á ensku og þýsku og dóttir þeirra Inga Sif las það líka nokkrum sinnum á Íslensku. Síðan var sungið og að því búnu var haldið heim á hótelið til að búa sig undir jólakvöldverðinn.
Eins og að stíga inní jólakort
Kirkjuklukkur fóru að óma um bæinn og Gerða segir að það hafi verið mjög jólalegt. „Þetta er svo fallegt lítið þorp, alveg eins og að stíga inní jólakort“. Heima á hótelinu hófst svo margrétta jólakvöldverður og yfirleitt var fuglakjöt í aðalrétt. Á miðnætti þegar allir höfðu borðað sig sadda var farið í jólamessu í kirkjunni.
Á skíðum öll jólin
„Svo er verið á skíðum öll jólin“, segir Ólafur. Hann segir það hafa verið notalega tilfinningu að vera á skíðum á Þorláksmessu í fallegu vetrarveðri, vitandi af öllum á kafi í jólaundirbúningi heima á Íslandi. Þau segja að jólin í Lech hafi verið bæði hátíðleg og jólaleg og börnin hafi alls ekki verið ósátt. „Þau elskuðu þetta“, segir Gerða. Þau segjast hafa tekið með sér eina jólagjöf á mann í ferðina, yfirleitt bók til að lesa, en síðan hafi jólagjafirnar verið opnaðar þegar þau komu heim.
Engar rjúpur í ár
Yfirleitt komu þau heim á þriðja í jólum og þá var haldið jólaboð heima og dansað með börnunum í kringum jólatréð. Um þessi jól verða þau heima, enda von á börnum og barnabörnum heim, sem annars eru búsett erlendis. Jólahaldið heima er þannig að hangikjötið er soðið á þorláksmessu og borðað heitt, en rjúpur eru aðfangadagsmaturinn. Nú er þær hins vegar ekki að fá. „Ég er búin að spyrja alla veiðimenn í fjölskyldunni, en enginn hefur veitt nógu mikið til að láta aðra hafa“, segir Gerða.