Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs HA skrifar
Vinkona mín gaf mér á dögunum bók sem heitir „A Philosophy of Walking“ eftir Frédéric Gros. Hún gaf mér þessa bók af því að ég er göngukona. Eitt barnabarnið mitt kallar mig í gríni göngugarp. Ég er ekki göngugarpur en ég geng. Ástæðan er einföld. Ég þarf á útiveru og hreyfingu að halda til þess að ná að vera í andlegu jafnvægi og til þess að koma mér í gegnum langa vetrarmánuði og erfið verkefni. Yfirskrift fyrsta kafla í þessari heimspekilegu bók er Walking Is Not a Sport. Í þessum kafla eru færð fræðileg rök fyrir því hvers vegna ganga er ekki íþrótt. Íþróttir krefjast tækni og reglna, keppni og viðmiða, réttrar hreyfingar á réttri stundu, framförum og hæfileikum.
Ganga gerir ekki kröfu um neitt af þessu. Þú þarft bara að eiga góða skó og mannbrodda þegar hálkan herjar á og framkvæma.
Ég kynntist göngu á erfiðum tíma í lífi mínu. Ég hafði flutt til Danmerkur, bjó alein og þekkti enga. Ég var í krefjandi starfi. En það var ekki það sem var erfitt heldur það að lifa helgarnar af. Tvisvar sinnum 24 tímar í tómarúmi. Heill laugardagur og heill sunnudagur. Síminn hringdi ekki og ég hafði ekkert að gera! Ég beið eftir því að komast í vinnu á mánudagsmorgni til þess að sjá annað fólk. Þetta tók mjög á mig andlega. Þegar ég var alveg að gefast upp á þessu, skrapp ég heim til Íslands og systir mín dró mig út í gönguferð til þess að reyna að hressa mig við. Ég fann strax að það virkaði. Mér leið betur.
Þegar ég kom aftur til Danmerkur fór ég að byggja gönguferðir inn í líf mitt. Fyrst með göngum um helgar og fór svo að ganga á milli staða í stað þess að keyra. Ég fór að gera gönguna að eðlilegum hluta vinnuvikunnar og einkalífsins. Seinna gerðist það að ég kynntist yndislegum manni sem var til í að ganga með mér í gengum lífið. Við erum enn á þeirri göngu. Við höfum gengið í gegnum súrt og sætt með bakpoka og sárar tær. Við höfum gengið yfir England, gengið í Ölpunum, Noregi, Danmörku og Íslandi og í öllum mögulegum og ómögulegum götum í Reykjavík og á Akureyri.
Ég er ekki með bíl en maðurinn minn er með smábíl í Reykjavík. Hann kom í heimsókn um helgina og vildi gera vel við mig og skutla mér í vinnuna. Ég þáði það en þessi dagur var ekki góður dagur fyrir mig. Mig vantaði hreyfinguna og súrefnið sem ég er vön að fá á minni 45 mínútna göngu til vinnu. Ég sagði honum frá þessu um kvöldið og næsta dag fylgdi hann mér í vinnuna. Það er ekkert eins rómantískt og hollt og að haldast í hendur í myrkrinu á miðjum hálkufleka!
Við eigum öll okkar erfiðu daga. Svarið við mínum svörtu dögum er heyfing og útivera. Maður þarf ekki að vera íþróttamaður til þess að ganga enda er ganga ekki íþrótt! Það er ekkert sem vinnur jafn vel gegn áhyggjum og þungum hugsunum. Við getum gengið á okkar eigin forsendum, langt, stutt, með brodda eða göngustafi. Við getum gengið í þéttbýli eða úti í náttúrinni. Aðalatriðið er að koma sér út úr húsi, fá súrefni og tengsl við umhverfið og finna að maður hefur styrk til þess að geta sagt við sjálfan sig – Ég skal fara út að ganga og það strax í dag.