Margrét Steinarsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir að hér á landi hafi ekki verið samþykkt löggjöf sem bannar mismunun vegna aldurs, en margir sem eru komnir yfir fimmtugt og sextugt, telja að þeim sé til dæmis mismunað á vinnumarkaði. „Þetta fólk getur ekkert gert og hefur engan til að snúa sé til“, segir Margrét sem talaði um mannréttindi aldraðra á fundi hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík fyrir skömmu.
ESB og Noregur með bann við mismunun vegna aldurs
Öll aðildarríki Evrópusambandsins og Noregur, hafa leitt í lög rammatilskipun Evrópusambandsins sem bannar mismunun vegna aldurs á vinnumarkaði. Margrét segir að Norðmenn hafi verið fljótir að lögfesta tilskipunina, sem var samþykkt fyrir 16 árum. Íslendingar hafi hins vegar talið að þessi tilskipun væri ekki hluti af EES samningnum og þannig bæri okkur ekki skylda til að innleiða hana. Í 65 grein stjórnarskrárinnar er bannað að mismuna fólki eftir stöðu þess, en aldur er ekki tilgreindur þar sérstaklega.
Þarf að innleiða bann við aldursmismunun hér
Margrét telur ástæðu fyrir okkur að innleiða þessa Evrópsku löggjöf hér á landi, en bendir á að þá þurfi jafnframt að kynna hana fyrir fólki, þannig að fólki viti af lagasetningunni og hvert það eigi að snúa sér ef þeir telja á sér brotið. Ef kærunefnd yrði sett á laggirnar, þyrfti að tryggja henni fé og starfsfólk með sérþekkingu á mannréttindum. „En það er fyrsta skrefið að innleiða löggjöfina“, segir hún.