Elliblettir í húðinni 

Margir taka eftir því þegar þeir eldast að húðin slappast og ekki nóg með það heldur stinga upp kollinum alls kyns blettir, sem ekki voru þar áður.  Þeir eru kallaðir elliblettir eða öldrunarblettir og fara að gera vart við sig í kringum fimmtugsaldurinn, stundum fyrr ef fólk er mikið í sól.

Yfirleitt  eru þetta dökkir, sléttir, mismunandi stórir blettir í húðinni og koma á þeim svæðum sem eru mest í sól, það er í andliti, á höndum, öxlum og handleggjum. Umræddir blettir eru líka stundum kallaðir lifrarblettir þó þeir eigi ekkert sameiginlegt með lifrinni annað en litinn.

Elliblettir geta litið út eins og húðkrabbamein. Það þarf hins vegar ekki að meðhöndla venjulega ellibletti. Þeir gefa einvörðungu til kynna að húðin hafi verið mikið í sól og eru viðbrögð húðarinnar til að vernda sig fyrir frekari áhrifum útfjólublárra geisla.

Það er hægt að koma í veg fyrir ellibletti með því að nota sólarvörn og forðast að sitja í sólinni.

 Einkenni

Allir geta fengið ellibletti, sama hvernig húð þeir eru með, en þeir eru algengari hjá fólki með ljósa húð.  Öfugt við freknur sem eru algengar meðal barna, minnka elliblettirnir ekki þó fólk haldi sig frá sólinni, en það gera freknur.  Elliblettir eru:

 • Flatir, stundum sporöskjulaga blettir sem myndast vegna þess að litur eykst á ákveðnu svæði í húðinni.
 • Yfirleitt brúnir eða dökkbrúnir
 • Koma fram á húðinni þar sem hún hefur notið mestrar sólar í gegnum árin, svo sem eins og á handarbaki, ristinni á fótunum, andliti, öxlum og efri hluta baksins.
 • Geta verið á stærð við freknur og allt upp í 13 millimetrar í þvermál.
 • Koma stundum nokkrir þétt saman og verða þá meira áberandi.

Hvenær á að fara til læknis.

Elliblettir kalla ekki á læknismeðferð. En fáðu lækni til að skoða bletti sem eru svartir eða hafa breyst að lögun. Slíkar breytingar geta verið vísbending um alvarlegt húðkrabbamein. Það er nauðsynlegt að leita læknis ef bletturinn :

 • Er svartur
 • Stækkar
 • Hefur óreglulegar útlínur
 • Er óvenjulegur á litinn
 • Það blæðir úr honum.

Orsökin

Elliblettir stafa af því að húðfrumur verða ofvirkar. Útfjólubláir geislar hraða framleiðslu „melanins“  náttúrulegra húðfruma sem ljá húðinni lit.  Blettirnir myndast í húð sem hefur verið árum saman í sól, vegna þess að þessar húðfrumur hlaupa í kekki eða þá að líkaminn framleiðir of mikið af þeim.  Að liggja í sólbekkjum getur líka valdið því að menn fá ellibletti.

Áhættuhópar

 • Þeir sem hafa ljósa húð
 • Þeir sem hafa verið mikið í sólböðum og sólbrunnið

Forvarnir

 • Forðist sólina milli klukkan 10 og 12, þegar hún er sterkust.
 • Notið sólarvörn nr. 30.  Berið hana á ykkur um hálftíma áður en farið er út í sólina og síðan á tveggja klukkustunda fresti.
 • Klæðið ykkur til að hylja líkamann. Föt úr góðri bómull geta hulið handleggi og fætur og barðastór hattur er fínn til að hlífa andlitinu. Það má leita að fötum sem eru sérstaklega hönnuð til að verja líkamann fyriri sólinni, þau eru merkt með UPF (ultraviolet protection factor).

Þessar upplýsingar koma fram á vef Mayo klíníkurinnar í Bndaríkjunum.

Á vefnum doktor.is, segir um þessa bletti að við þeim sé ekkert að gera en lýtalæknar og húðfegrunarstöðvar geti dregið úr lit á blettum með lasermeðferð.

Blaðamaður rakst einnig á grein um tvenns konar aðra ellibletti.  Annars vegar um kringlótta eða sporöskulaga bletti sem eru eilítið hrjúfir. Þeir geta verið bæði dökkir og ljósir á lit og eru mismunandi stórir.  Hins vegar eru litlir húðsepar líkir vörtum sem myndast aðallega þar sem húðin nuddast saman. Á hálsinum, undir handleggjum, undir brjóstunum, í náranum og á augnlokunum.

Það er rétt að ítreka að það þarf að gera greinarmun á elliblettum og fæðingarblettum sem breytast í útliti. Ef menn eru ekki vissir um hvers kyns blettirnir eru sem þeir eru með, á að fara til læknis til að fá úr því skorið.

 

Ritstjórn nóvember 18, 2021 07:59