4 leiðir til að skemmta sér og barnabörnunum

1 . Noztra við Grandagarð 14

Noztra býður skapandi og listrænu fólki að sameinast við að skreyta leirmuni. Fjölbreytt úrval tilbúninna leirmuna eru til sölu, hver og einn velur það sem hann helst langar að skreyta, síðan er sest við borð, litir og penslar eru á hlaðborði sem gestir ganga í og svo er hafist handa. Þarna verða til bæði frumlegir, fallegir, skrautlegir og nytsamlegir gripir fyrir heimilið auk góðra minninga um samveru og samvinnu. Fram til klukkan 16 geta allir aldurshópar komið og fengið útrás fyrir sköpunarþörfina en eftir þann tíma er mælst til að fólk komi ekki með börn yngri en átta ára. Úrvalið og aðstöðuna má skoða betur inn á https://noztra.is/

2. Árbæjarsafnið

Árbæjarsafnið er alltaf spennandi. Börn hafa gaman af að þreifa, ganga inn í, upplifa og skapa. Í gömlu húsunum gefast mörg frábær tækifæri til þess. Þarna má líka gjarnan fræða þau um söguna, rifja upp eigin æsku, húsbúnað og venjur þá og koma svo við í Dillons-húsi og borða rjómavöfflur. Í góðu veðri er fátt sem slær Árbæjarsafninu við.

3. Garðar og gróður 

Skrúðgarðar Reykjavíkur eru skemmtilegir áfangastaðir fyrir börn. Í Grasagarðinum í Laugardal gefst tækifæri til að fræða börnin um íslenskar jurtir og ýmsar nytjaplöntur. Þar má líka oft sjá minnsta fugl Evrópu, glókoll, á flögri milli greina. Hann er nýr landnemi á Íslandi og stórskemmtilegur fugl. Ómissandi er að ganga með börnin að gömlu þvottalaugunum og fræða þau ögn um aðstæður þvottakvenna á fyrir tíð og jarðhitann í Laugardalnum. Hljómskálagarðurinn er býður svo upp á tækifæri til að kenna börnum að taka eftir list í almannarými. Perlufestin, höggmyndagarður með styttum eftir sex konur, frumkvöðla í höggmyndalist, er skemmtilegur áfangastaður en þær Gunnfríður Jónsdóttir, Nína Sæmundsson, Tove Ólafsson, Þorbjörg Pálsdóttir og Gerður Helgadóttir. Úr Hljómskálagarðinum er tilvalið að ganga yfir í Hallargarðinn, skoða Adonis eftir Bertel Thorvaldsen, Pilt og stúlku eftir Ásmund Sveinsson, Stúlkumynd eftir Ólöfu Pálsdóttur og minnismerki og Thor Jensen og Margréti Kristjánsdóttur, konu hans sem byggðu húsið. Aðeins lengra inn í Lækjargötu er Mæðragarðurinn, lítill en fallegur garður og þar eru nú komin litrík og skemmtileg leiktæki.

4. Höfuðstöðin í Ellíðárdal

Nýr og bráðskemmtilegur áfangastaður er Höfuðstöðin í Elliðaárdal. Gömlu kartöflugeymslunum hefur verið breytt í lista- og menningarhús og þar má meðal annars sjá hið sívinsæla verk Chromo Sapiens eftir Hrafnhildi Arnardóttur/Shoplifter. Þetta er dásamlega mjúka, litríka og margbreytilega listaverk gleður alla og sú manneskja er ekki til sem ekki nýtur þess að snerta það og knúsa. Í sal með breytilegum sýningum er um þessar mundir sýnt upplifunarverkið, Að Náttúru Verður eftir Mary Adler. Í stöðinni er svo kaffihús þar sem fá má gómsætar veitingar og fyrir utan eru skemmtileg leiktæki fyrir börn. Þarna gefst fínt tækifæri til að kynna börnum list, njóta fallegrar náttúru og samveru.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 9, 2024 07:00