Leikhúskaffi um Fjallabak

Borgarbókasafnið í samstarfi við Borgarleikhúsið býður í Leikhúskaffi á Borgarbókasafninu Kringlunni þann 4. mars kl. 17:30-18:30. Þá verður fjallað um sýninguna Fjallabak, sem frumsýnd er í Borgarleikhúsinu þann 28. mars næstkomandi.

Brokeback Mountain
Valur Freyr Einarson, leikstjóri verksins, mætir á bókasafnið og segir frá sýningunni, en ástarsaga kúrekanna Ennis og Jacks hefur snert við hjörtum áhorfenda um allan heim. Verkið byggir á samnefndri Pulitzerverðlauna smásögu Annie Proulx og síðar gerði kvikmyndaleikstjórinn Ang Lee rómaða kvikmynd eftir sögunni.

Leikmynd skoðuð og gestir fá afslátt af miðaverði

Eftir spjallið er gengið samferða yfir á Nýja svið Borgarleikhússins þar sem leikmyndin er skoðuð og boðið upp á umræður og spurningar. Gestum leikhúskaffis býðst 10% afsláttur af miðaverði á sýninguna. Viðburðurinn er ókeypis og skráning óþörf. Gott aðgengi er fyrir hjólastóla.

Um sýninguna | Fjallabak – ástarsaga fyrir okkar tíma

Kúrekarnir Ennis og Jack hittast fyrir tilviljun þegar þeir vinna við að smala búfé á fjöllum í Bandaríkjunum um miðbik síðustu aldar. Þrátt fyrir gríðarlega fordóma samfélagsins dragast þeir hvor að öðrum og reyna saman að höndla ást og frelsi sem er í fullkominni mótsögn við ofbeldið og erfiðleikana í umhverfi þeirra.

Valur Freyr fær til liðs við sig tvo af fremstu leikurum Borgarleikhússins í hlutverk Ennis og Jacks, þá Björn Stefánsson og Hilmi Snæ Guðnason. Lifandi tónlist sýningarinnar er í höndum Guðmundar Péturssonar og Þorsteins Einarssonar.

Viðburðurinn á Facebook
Leikritið á vef Borgarleikhússins

Ritstjórn mars 2, 2025 07:00