Einar Kárason sendir frá sér stórskemmtilega sögu af framsýnum Íslendingi fæddum rétt fyrir aldamótin 1900. Sjá dagar koma fangar hún sérlega vel andann á fyrstu árum tuttugustu aldar. Ungmennafélög spretta upp allt í kringum landið og bjartsýni um framfarir og betri tíð í þjóðlífinu öllu heldur fólki gangandi. Salvar Bernódusson er einn þeirra. Hann skynjar að rétt við túnfótinn á kotinu þar sem hann er niðursetningur er að finna björg, já meira en björg hreinlega vogarstöng til að lyfta sér upp yfir vesöldina.
Bandarísk lúðuveiðiskip sigldu á Íslandsmið á fyrstu árum tuttugustu aldar og slógust þar í hóp franskra og breskra skipa við að moka upp milljónum í formi verðmæts fisks. Á meðan hírðust Íslendingar í torfkofum og höfðu varla í sig og á. Það þarf kjark til að fara fyrst fyrir framámann sveitarinnar og biðja hann um liðsinni við að fá pláss á einu slíku skipi og síðan að mæta um borð grálúsugur, skítugur og mállaus og vinna sig upp í að verða fullgildur áhafnarmeðlimur. Þetta tekst Salvari og meira til. Hann fer til Ameríku og vinnur þar við margvísleg störf og auðgast.
Þegar hann snýr aftur heim eru að sumu leyti breyttir tímar en að stærstum hluta er þjóðin enn föst í viðjum hugarfarsins. Salvar leggur mörgum framfaramálum lið og stappar stálinu í duglega landa sína sem þrá eins og hann að bæta líf sitt. Hann hrífst af Einari Benediktssyni, ekki bara skáldagáfu hans og orðsnilld heldur einnig framsýni hans, hugsjónaeldi og draumum um að hefja Ísland til vegs og virðingar landsmönnum til hagsbóta. Þeir tveir hittast í London og Salvar fær að sjá teikningar af Búrfellsvirkjun en Einari hefur tekist að fjármagna byggingu hennar og til stendur að ferja vélar og búnað yfir Atlantshafið og hingað þegar styrjöld brýst út í Evrópu.
Einar er frábær höfundur og þessi bók sýnir vel hve flinkur hann er. Hér er svo margt sem kraumar undir niðri og svo margar spurningar vakna. Hvernig hefði farið ef Einari hefði tekist að byggja Búrfellsvirkjun? Hvernig væri landið okkar og þjóðlífið allt ef strax þá hefði verið hægt að rafvæða landið og byggja verksmiðjur eins og skáldið dreymdi um? Hvað ef fólk eins og Salvar hefði í ríkara mæli fengið stuðning hér á landi en ekki þurft að leita utan eftir framgangi? Nú og svo er einstaklega áhugavert að sjá hvernig heimar gamals auðs og nýrra peninga mætast í kynnum Salvars af Elísabetu, ungri aðalskonu á Bretlandi. Þar finnst lesandanum sannast að það er hægt að breyta klæðnaði, kenna mönnum borðsiði og að meta góða list en það er ekki hægt að breyta hugarfari erfiðismannsins þannig að hann skilji hugsun broddborgara sem aldrei hafa þurft að dýfa hendi í kalt vatn. Það er líka mjög áhugavert ef hægt væri að komast að hvort Salvar hafi í raun verið um borð í því skipi sem Einar nefnir í lok bókarinnar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







