Sr. Sveinn Ásgeirsson dómkirkjuprestur skrifar pistil fyrir Lifðu núna í tilefni jólanna.
Að heyra boðin himni frá
fær huga þínum breytt.
Þau boð að heilög himins dýrð
sé hjarta þínu veitt.
Sr. Hjálmar Jónsson yrkir svo í sálmi sem hefst á orðunum: „Á dimmri nóttu bárust boð, um bjartan nýjan dag.“
Hér er vísað til atburðarins á Betlehemsvöllum þegar himnarnir opnuðust og englaskarinn flutti mannkyni boðin góðu.
Skilaboðin eru þau, að þar sem frelsarinn er nú fæddur þá er dýrð Guðs, sem er á himnum, einnig á jörðu.
Guð gerist maður og maðurinn fær hlutdeild í himninum.
—
En til hvers þá þessi atburður?
Staður hans í hjálpræðissögunni er að þar sem maðurinn bjargast ekki
fyrir eigin rammleik, hversu mikill sem hann nú annars er, þá sendir Guð son sinn í heiminn,- já Guð gerist maður, – til að byggja brú milli manns og Guðs og manna á milli.
—
Aðventan er í huga okkar flestra tími tími vellíðunar; rölt niður Laugaveginn eða um miðbæ Hafnarfjarðar í kyrru frostveðri í leit að jólagjöf handa ástvinum okkar; pit-stoppin felast í kakóbolla og snúð. Heimilið skreytt og fegrað.
Huggulegheit eru samnefnarinn.
Svo eru auðvitað jólahlaðborðin á sínum stað og jólatónleikarnir, sem í sínum fjölbreytileik opinbera margslunginn og víðfeðman tónlistarsmekk íslensku þjóðarinnar.
Allt er það gott og blessað. Það er ekkert að því að njóta og gleðjast; þvert á móti. Það er bráðnauðsynlegt.
En það er svo miklu meira hægt að gera með aðventuna en bara það. Ef huggulegheitin ein og sér eru markmiðið – þá er það bara þannig og nær ekki lengra. En undirbúningur jólanna, aðventan gefur kost á svo miklu meiri og dýpri reynslu. Reynslu sem sér lengra og upplifir fleira en eftirlæti við sjálfan sig og neyslumennsku.
Að fara á mis við alla þá þroskakosti og ríkdóm speki og sjálfsþekkingar er ekki ósvipað því að eiga jeppa á 44″ dekkjum en fara aldrei af malbikinu.
—
Myrkir markaðsdagar áttu sér stað í vetrarbyrjun hvar boðnir voru ótrúlegir afslættir af varninginum, allt upp í 70%. Margir gerðu góð kaup og það er ljómandi gott. Að vísu laumaði einhver út úr sér að spara mætti 100% með því að kaupa ekki neitt. – Á tímum ofurneyslu má alveg minna á þetta þótt ég vilji ekki tala það niður að fólk fái á góðum kjörum hluti sem það vanhagaði um. En hugsanlega er það einmitt kjarni málsins. Hvort mann vanhagi um eitthvað. Samviskuspurning hvers hlýtur að vera einmitt þessi; kemst maður jafn vel af án varningsins.
Hér á við gamli frasinn sem gildir á svo mörgum sviðum mannlífsins: Minna er oft meira.
Það er sjálfsagt alltaf hægt að agnúast úti tímana og að þeir séu ekki eins og þær gætu bestir verið. Að þetta sé nú meiri fastan þessi jólafasta og þeir sem ekki fylgi henni í æsar séu í liði með hinum sænska smalamanni Glámi sem heimtaði mat sinn og engar refjar áður en heilagt var orðið á aðfangadagskveldi.
Allir vita nú hvernig það endaði.
Ég held það sé hins vegar ekkert að því að „matast og drekka og njóta lífisins meðan það endist; einnig það er guðs gjöf“ aðventan má líka vera tími tilhlökkunar og góðra samverustunda.
En það er bara ekki allt.
Á hinn bóginn er gleðilegt að taka eftir því hvað eitt mikilvægt atriði föstunnar lifir góðu lífi hjá okkur og það er að minnast þeirra sem búa við skort. Sjálfsagt erum við aldrei fúsari að styðja líknarsamtök og þau sem sinna þurfandi heldur en á jólaföstunnni.
Og er það vel.
En það dregur nær jólum. Vafalítið talar ritningarlesturinn úr Jesaja sterkar til okkar nú en endranær, þegar hann segir; þú þjóð sem í myrkri gengur sér ljós. Sennilega hefiur Kófið ekki sverið svartara en um þessar mundir en þá er líka gott að halda fast í vonina og fara að öllu með gát og skynsemd. Stundum er sagt að myrkrið sé þykkast rétt áður en fer að skíma og við lítum þannig á það. Náðartíminn mun upp renna.
Guð vill hafa áhrif á þennan heim og því sendir hann son sinn í heiminn, ljósið; þegar er hvað myrkast í kring. Og áhrif sín birtir hann í lífi og starfi Jesú Krists. Barninu smáa og umkomulausa sem var flóttamaður og jaðarsettur, og þegar hann óx úr grasi tók hann sér svo stöðu með þeim sem höllum fæti stóðu. Hann rétti við hin þjáðu, læknaði og líknaði; kenndi skilyrðislausan kærleika. Lét allt starf sitt mótast af því að birta elsku Guðs til mannanna; boðaði að allt sem þú vilt að aðrir geri þér, það skaltu sjálfur gera þeim. Að maður skyldi líta í eigin barm áður en maður dæmir aðra. Og hann tók á sig þjóns mynd, því erindi hans er erindi þjónustunnar og hann gekk alla leið þjáningarinnar fyrir mannkyn allt, því til blessunar.
Já hann birtir okkur sig og biður um svar, því við erum hæf til þess að svara.
Okkar andsvar skal þá vera að sjá Krist í náunganum; öllu fólki; að elska náungann eins og okkur sjálf.
Guð gefi þér gleðileg jól