Á ferð um mannheima

Í bókmenntum hafa ferðalög margþætta merkingu. Það getur verið um að ræða raunverulegan flutning milli staða, jafnvel landa og söguhetjan upplifir þar eitthvað nýtt, eða ferðalag inn á við en hvort sem um ræðir breytir ferðin söguhetjunni varanlega. Í smásagnasafninu, Tókyó-Montana hraðlestin, eftir Richard Brautigan er flakkað milli Japans og Bandaríkjanna og stundum er tilefni til að hlæja, stundum gráta og þess á milli brosa út í annað, hnykkla brýrnar og ígrunda.

Richard Brautigan lýsir Tókyó á heillandi hátt og það er gaman að bera andblæ sagnanna hans saman við smásagnasafn Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snjór í paradís. Það er eitthvað ljóðrænt og ævintýralegt við það hvernig þeir lýsa Japan. Richard Brautigan er ekki orðmargur en hann nær að draga upp myndir, rétt eins og Ólafur Jóhann, sem verða lesandanum eftirminnilegar og vekja einhverja nostalgíutilfinningu sem erfitt er að skýra þegar viðkomandi hefur aldrei komið til Japan.

Í fríi á hóteli í Shinjuku horfir Brautigan athugull á fólkið sem fer framhjá og veltir fyrir sér þeim hlutum sem ber fyrir augu. Hann veltir fyrir sér hvort regnhlífarnar búi í íbúðum undir Tókýó og skapar andblæ vináttu þegar hann eldar spaghetti handa vinum sínum meðan lifandi álar synda í fötu við hlið eldavélarinnar.

Besta bók Brautigan

Montana lifnar við á sama hátt. Sérstætt fólk, afskekktir bæir og býli, fjöllin og náttúrufegurðin. Kalifornía, San Fransisco og fleiri staðir leika hlutverk og sumir er bara nefndir í framhjáhlaupi. Í bókinni eru hundrað og þrjátíu mislangar sögur sumar varla meira en ein málsgrein en samt er þetta ekki hraðlest. Þetta bók sem þarf að lesa hægt og njóta, stundum lesa aftur í gegnum í einhverjar sagnanna.

Þetta er ellefta bók Brautigans sem kemur út á íslensku og sumir telja hana hans bestu bók. Þórður Sævar Jónsson þýðir og gerir það mjög vel. Richard Brautigan fæddist 30. janúar árið 1935 á í Oregon-fylki í Bandaríkjunum. Faðir hans, Bernard Frederick, var verkamaður í verksmiðju en móðir hans, Lulu Mary, gengilbeina . Hjónin slitu samvistum áður en Richard sonur þeirra fæddist. Lulu Mary vissi ekki einu sinni að hún væri ófrísk þegar hún fór. Richard hafði ævinlega lítið af föður sínum að segja en Lulu Mary var ekki sérlega góð móðir. Eitt sinn skildi hún Richard einan eftir með fjögurra ára gamalli hálfsystur sinni á hótelherbergi í tvo daga. Hann var aðeins níu ára og ábyrgðin lagðist mjög þungt á hann.

Lulu Mary átti eftir að giftast tvisvar enn og eignast tvö börn í viðbót. Systkinin urðu því fjögur og áttu öll sitt hvern föðurinn. Fjölskyldan var ævinlega sárafátæk og síðasti stjúpfaðirinn, William David Folston Sr. var ofbeldismaður og alkóhólisti. Margar af sögum Richards byggja á erfðri reynslu hans í æsku. Hann flutti til San Fransisco um tvítugt og hóf þar rithöfundarferil sinn þegar hann sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók. Hún vakti litla athygli og hið sama má segja um næstu bækur eða þar til Silungsveiði í Ameríku kom út árið 1967. Hún sló í gegn en á áttunda áratugnum var eins og Richard Brautigan væri flestum gleymdur. Sumir hafa viljað flokka hann með beatnikk-höfundunum, Allan Ginsberg, Jack Kerouac og William S. Burroughs voru þeirra fremstir. Sú flokkun er þó hæpin því Richard hafði óbeit á hippunum og hann var talsvert yngri en þeir Kerouac og Burroughs. En þótt erfitt sé að flokka Richard Brautigan eða fella hann undir einhverja tiltekna bókmenntastefnu er eitthvað heillandi við skrif hans og það hvernig hann fer með texta. Sjálfur glímdi hann við þunglyndi alla tíð og framdi sjálfsvíg árið 1984, þá fjörutíu og níu ára gamall.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn janúar 4, 2025 07:00