Heyrt í ræktinni: „Ég ætla að selja húsið. Það er eina leiðin til að losna við son minn að að heiman og eina leiðin til að tryggja að bræður hans reyni ekki að flytja inn aftur,“ sögðu roskin hjón við mann sem var að ræða við þau. Rosknu hjónin voru sem sagt að selja fyrr en þau höfðu áætlað því uppkominn sonur þeirra neitaði að flytja að heiman. Þau ákváðu því að flytja í blokkaríbúð með einu svefnherbergi, segir í grein á vefnum aarp.org.
Fjölmargir foreldrar búa við þær aðstæður að þurfa að búa þröngt með afkomendum sínum. Könnun sem var gerð árið 2015 leiddi í ljós að 40% ungra Bandaríkjamanna búa hjá foreldrum sínum, systkinum eða öðrum eldri ættingjum, það er hæsta hlutfall sem mælst hefur í 75 ár.
Sumir foreldrar búast við og eru sáttir við að unga fólkið búi heima um stund eftir að námi lýkur og á meðan þau eru að safna fyrir útborgun í íbúð. En það skapast leiðindaástand þegar afkvæmið fer ekki að heiman eða kemur aftur heim án þess að hafa nokkrar framtíðaráætlanir.
Hvað geta foreldrar gert í slíkum aðstæðum. Ráðgjafinn og rithöfundurinn Kim Abraham í Grand Blanc í Michigan segir að það séu forréttindi en ekki réttindi að uppkomið barn fái að búa heima hjá foreldrum sínum. Hún segir að foreldrar hafi ofdekrað börn sín svo mikið að þau búist við viðvarandi þægindum heima. Þau vilja ekki búa í herbergi úti í bæ, segir hún, heldur vilja þau koma aftur heim í hreint hús og fá góðan mat. Ráð Kim til að fást við börn sem koma aftur og aftur eru:
Ekki deila gæðum. Margir foreldrar lögðu mikið á sig til að koma sér upp þaki yfir höfuðið og þokkalegum lífsgæðum og oft búast börnin við því að foreldrarnir leyfi þeim að njóta þeirra gæða. Með því að láta það eftir þeim ertu að snuða börnin um það að öðlast sjálfstraust og stolt yfir því að hafa aflað þessara hluta sjálf með því að vinna fyrir þeim. Losaðu þig við sektarkenndina. Við erum stundum á valdi tilfinninga eins og reiði, vonbrigða og óttumst hvað muni gerast ef við hendum krökkunum út. Börn eru snillingar í að láta okkur finna til ábyrgðar gagnvart hamingju og velferð þeirra. Engar afsakanir. Uppkomið barn getur sagt að yfirmanninum líki ekki við það eða að það vilji skipta um vinnu en það þarf ekkert að flytja heim til að gera það. Þau geta sjálf leitað að nýrri vinnu án þess að sleppa núverandi starfi og svo geta þau líka orðið sér úti um nýja starfsþekkingu í frístundum.
Gerðu áætlun. Uppkomin börn segjast þurfa húsnæði í skamma hríð eða á meðan þau safna fyrir útborgun eða komi undir sig fótunum. Oft eru þau að blekkja, þegar þau eru flutt í gamla herbergið sitt leggja þau ekkert til hliðar og eru augljóslega ekki að breyta neinu. Stöðvaðu slíka háttsemi strax með því að krefjast skriflegrar áætlunar með takmörkum og dagsetningum. Hótaðu útburði. Gerðu samning með ákveðnum skilmálum: „Þetta er samningur milli tveggja fullorðinna einstaklinga.“ Ekki hugsa um hann/hana sem barnið þitt heldur sem leigjanda. Dagsettu svo hvenær á að flytja út, og minntu svo reglulega á þann dag: „Nú eru 60 dagar, nú eru 30 dagar og svo framvegis.“ Jafnframt verður þú að vera staðföst/fastur.
Listaðu upp væntingar þinar. Láttu þau taka þátt í heimilishaldinu með því að borga leigu eða sinna húsverkum. Komdu því á hreint til hvers þú ætlast af þeim. Settu reglur, t.d. hvenær húsið á að vera læst eða að engan mat megi bera inn í svefnherbergi. Settu líka skýr mörk hvenær sé hægt að fá pössun ef barnabörn flytja líka inn.
Ekki bjarga neinum. Það eru litlar líkur á að barnið þitt verði heimilislaust, sjálfsbjargarþörfin mun vakna og þau munu finna sér húsnæði. Minntu þau á að þó heimurinn sé stundum ógnvænlegur hafir þú fulla trú á að þau geti staðið á eigin fótum.