Flestir foreldrar vilja styðja uppkomin börn sín fjárhagslega, en þörfin fyrir slíka aðstoð getur verið mismunandi eftir börnum. Mörg dæmi eru um að foreldrar hafi sett sig í skuldir vegna barnanna sinna. Foreldrar velta því fyrir sér hversu mikla peninga á að láta fullorðin börn fá, hvort þau eigi að fá reglulegar greiðslur, eða peninga öðru hvoru. Þeir velta því líka fyrir sér hvort það eigi að segja hinum systkinunum frá því að einn fái meira en annar. Hvernig er svo hægt að jafna á milli systkinanna þegar foreldrarnir falla frá? Það eru engin rétt svör til við þessum spurningum, segir í grein á vefnum aarp.org.
Illindi og deilur
Fjárhagsleg mismunun getur haft afleiðingar sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi. Hún getur orsakað deilur, illindi og langvarandi sárindi. Fjölskyldur eru flókin kerfi, segir fjölskyldu- og fjármálaráðgjafinn Megan Ford hjá Financial Therapy Association. „Fjárhagsleg mismunun getur haft áhrif á samband fólks og gert samskipti flóknari hvort sem mismununin er ímynduð eða ekki“ segir hún. En er það nokkun tímann sanngjarnt að hjálpa einu barni umfram annað, spyr Ford. Hún segir það skiljanlegt að fólk vilji ekki sjá uppkomin börn sín í fjárhagserfiðleikum og leiti því leiða til að hjálpa. Þegar foreldar eru spurðir hvers vegna þeir aðstoði eru algengustu skýringarnar að barnið sé í vandræðum vegna skilnaðar, atvinnumissis eða sé í illa launuðu starfi. Þá vilja foreldar einnig styðja uppkomin börn vegna andlegra veikinda, fötlunar eða fíknar. Ford telur að í flestum tilfellum fjárhagslegrar mismununar sé um að ræða viðbrögð við aðstæðum en ekki að foreldrarnir séu viljandi að gera upp á milli barna. Þá er ekkert víst að foreldrunum sé það ljóst að þeir séu að mismuna ef fjárhagsaðstoðin er óregluleg og einungis er um að ræða smáar upphæðir í hvert skipti.
Háð fjárhagsaðstoð foreldranna
Uppkomin börn geta líka orðið háð fjárhagslegri aðstoð frá foreldrum sínum og þannig hætt að reyna að bjarga sér sjálf. Regluleg aðstoð gæti einnig vakið upp óvild annara systkina sem gætu upplifað að þeim hefði verið refsað fyrir dugnað og sjálfstæði. Tökum sem dæmi Declan og bróður hans. Decklan er fimmtugur ráðgjafi. Hann er kvæntur og á tvö börn. Eldri bróðir hans lærði lögfræði en hefur aldrei starfað við það fag. Hann vann sem millistjórnandi í menntaskóla áður en honum var sagt upp, þá 52 ára. Þar sem kona hans var heimavinnandi tóku foreldrar bræðranna þátt í að halda heimilinu á floti fjárhagslega en heimilisfaðirinn leit ekki við vinnu, hvorki fullri né tímabundinni, í heil þrjú ár. Á meðan unnu Declan og kona hans fulla vinnu. Declan viðurkennir að hann sé stundum reiður foreldrum sínum fyrir að hafa skapað aðstæður sem leyfðu fullorðnum manni að taka ekki ábyrgð á fjárhag sínum. Honum er þó létt þar sem bróðir hans fékk nýlega stöðu hjá háskóla og foreldrar þeirra þurfa ekki að styðja hann lengur. En Declan er hugsi og er hræddur um að foreldrarnir hafi gengið of nærri eigin fjárhag. Ford telur að foreldrar bræðranna hefðu átt að setja mörk á fjárhæð og tímalengd aðstoðarinnar. „Það er mikilvægt að setja aðstoðinni tímamörk svo hún verði foreldrunum ekki ofviða“ segir hann og bætir við „það er einnig mikilvægt að þessi mörk séu sett strax svo allir séu á sömu blaðsíðu.“
Eiga börnin að erfa jafnt
Ef börnin eiga að fá mismikið eftir þinn dag, gerðu þá öllum börnum þínum ljóst hvers vegna sumir eiga að fá meira en aðrir. Ástæðan gæti verið að þú hafir stutt eitt barn umfram annað í námi á sínum tíma og þú viljir jafna það eftir þinn dag eða að þú hafir hjálpað einhverju barnanna að eignast húsnæði. Þá er hugsanlegt að eitt barna þinna eigi fatlað barn og þurfi meiri stuðning af þeim sökum og svo getur ástæðan einfaldlega verið sú að systkinin hafi verið misheppin í lífinu og þú viljir leyfa þeim sem vegnaði verr að njóta lífsins til jafns við hina. Þetta eru þínir peningar og þitt val en sérfræðingum kemur saman um að ekki sé gott fyrir fjölskylduna að fá óvæntar fréttir af erfðamálum við dauða foreldranna. Eða eins og Ford segir: „Afleiðingar af því að ræða þessi mál ekki áður en þú kveður geta valdið ófyrirséðum afleiðingum, deilum og klofningi milli systkina sem getur stundum tekið mörg ár og jafnvel áratugi að vinda ofan af.“ Ef börnin geta ekki sætt sig við ákvarðanir foreldranna er rétt að leita aðstoðar fagfólks til að greina tilfinningar frá krónum.“ Sálfræðingar sem hafa þekkingu á vandamálinu geta hjálpað fólki til að hugsa um fjármálin á annan og betri hátt“ segir Ford. Taktu með í reikninginn þann möguleika að andstaða betur stæðra barna þinna gæti átt sér aðrar og dýpri ástæður en peninga. Stundum getur verið ósætti á milli systkina, segir lögfræðingurinn John Schapiro. Hann segir að deilur og óánægja með raunverulega eða meinta mismunun systkina eða barna þeirra sé algeng jafnvel þótt mismununin virðist vera mjög óveruleg. „Í mínum huga eru þannig deilur merki um undirliggjandi vandamál í samskiptum systkinanna“ segir hann.
Fullorðin börn geta verið langrækin
Uppkomin börn geta verið furðu langrækin og eiga það til að rifja upp áratuga gamla mismunun. „Pabbi og mamma leyfðu þér allt á meðan ég mátti ekki neitt,“ heyrist oft, segir Schapiro. Þá má búast við að börnunum sem finnst að þeim hafi verið mismunað séu mjög hörð á sínu þegar kemur að sáttatilraunum þínum eða annara. Það er engin töfralausn til í þessum málum,“ segir Schapiro. „Í slíkum tilfellum er sennilega best að láta lögmenn um skiptin því þeir eru vanir að skilja á milli tilfinninga og fjármála,“ bætir hann við. Góður lögmaður finnur leið til að fá fólk til að tala saman án þess að hækka röddina og getur komið á sáttum í erfiðum málum.