Alþjóðlegar rannsóknir sýna hvað eftir annað hversu mikilvægt það er fyrir heilsuna að vera í góðu sambandi við fólkið í kringum okkur. Það er mikilvægara fyrir þá sem vilja lifa lengi við góða heilsu, en bæði hollt mataræði og þjálfun. Góður vinskapur er einnig mikilvægari en margir halda. Á sama hátt hefur það skaðleg áhrif á heilsuna að vera ekki í sambandi við annað fólk. Áhrif þess á heilsuna jafnast á við að reykja 15 sígarettur á dag, að því er fram kemur í grein í norska vefritinu Vi over 60. Hluti greinarinnar fer hér á eftir í íslenskri þýðingu.
„Hvers vegna er ekki jafn sjálfsagt að ræða um sambönd milli fólks eins og að tala um mataræði og þjálfun. Við höfum gamaldags hugmyndir um að geðheilsa sé algerlega aðskilin frá líkamanum, en ef við nærum sálarlífið, styrkjum við líka líkamann“, segir sálfræðingur sem rætt er við í greininni. Og bætir við að þörfin fyrir samband við aðrar manneskjur minnki ekki með árunum. „Það má orða það þannig að ef sambönd væru hlutabréf, þá hækkuðu þau í verði þegar við eldumst. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir heilsufar eldra fólks, þar sem fólk í þeim hópi er oft farið að missa ástvini“.
Í greininni er farið yfir víðan völl í umræðunni um sambönd manna í millum og hversu miklu máli þau skipta. En það er einnig bent á að það kunna líka að vera sambönd sem eru skaðleg fyrir fólk, svo sem ofbeldissambönd.
En fólk er mismunandi fært í mannlegum samskiptum. Sumum finnst gaman að spjalla við fólk sem þeir þekkja og jafnvel fólk sem þeir þekkja ekki, en aðrir eiga erfitt með það. Sálfræðingurinn segir óréttlátt að félagslegri færni sé svona misskipt, en það sé hægt að æfa sig. Fólk sem komi úr fjölskyldum þar sem það tíðkaðist ekki að ræða um líðan sína, getur æft sig í því að vera opnara um sín mál.
Það er samt ekki þannig að þeir sem eiga í góðu sambandi við fólk, lifi sjálfkrafa lengur. En aukaverkunin af því að hafa gott samband við vini og vandamenn, er að fólk hreyfir sig meira og borðar hollari mat.
Öll sambönd fólks þurfa ekki að vera náin, það getur verið notlegt að heilsa nágrönnunum, tala við fólk á kassanum í marvöruversluninni eða þá sem afgreiða kaffihúsinu sem fólk sækir. Það skapar öryggi og vellíðan. Og fólk er í greininni hvatt til að gera þetta. Það eru meira að segja leiðbeiningar í greininni um það hvernig fólk á að stækka net vina og kunningja. Hér koma þau fjöguir atriði sem bent er á.
- Stækkaðu netið. Það þarf ekki endilega að bjóða fólki í kaffi, bara lengja spjalilð við nágrannana og aðra sem þú hittir á förnum vegi. Þannig verður netið þitt smám saman þéttara og sterkara.
- Stígðu yfir þröskuldinn. Sjáðu hvað gerist ef þú þorir að spjalla aðeins við þá sem þú hittir yfir vikuna og finndu hvaða áhrif það hefur á líðan þina. Byrjaðu á því að segja hæ, eða góðan daginn. Næst þegar þú hittir viðkomandi er svo hægt að segja eitthvað um veðrið. Undirtektirnar verða smám saman jákvæðari og þannig sérðu þessi aðferð virkar.
- Sýnið sjálfum ykkur þolinmæði þegar þið eruð úti meðal fólks. Allir eiga það til að vera studnum óöruggir eða stressaðir í fjölmenni. Það er mikilvægt að geta fyrirgefið sjálfum sér það ef hlutirir ganga ekki eins og ætlað var. Það kemur fyrir alla. Ef menn æfa sig í því að vera öruggir, jafnvel þótt þeir séu það ekki, þegar þeir fara eitthvað út verður smám saman auðveldara að byggja upp sambönd við aðra.
- „Þolinmæðin þrautir vinnur allar“. Sýnið þolinmæði. Takið lítil skref aftur og aftur. Það tekur tíma að mynda sambönd við aðra, en vingjarnlegt spjall eykur vellíðan og með tímanum eykst möguleikinn á því að samböndin verði nánari.
Styrkið vinasambönd
En það skiptir ekki bara máli að eignast nýja vini. Þeir vinir sem við eigum skipta miklu máli í lífi okkar og í greininni segir að fjórir hornsteinar þurfi að vera fyrir hendi í góðu vináttusambandi.
- Vináttan þarf að vera gagnkvæm. Það er mikilvægt að bæði gefa og þiggja vegna þess að öll viljum við að sanngirni sé gætt. Ef það er bara annar sem talar í vinasambandinu, hefur það áhrif á sambandið og sá sem er ekki jafn ræðinn líður fyrir það.
- Umgengni. Góðir vinir láta það hafa forgang að hittast. Það getur snúist um að borða saman hádegisverð, eða taka gott símtal eða spjall á netinu. Rannsóknir sýna að það krefst 200 klukkustunda samveru að byggja upp gott vinasamband, þar sem báðir líta á hinn sem góðan vin sinn .
- Jákvæðni og umhyggja. Vinskapur snýst ekki eingöngu um að ræða vandamál eða skiptast á upplýsingum. Vinir gera ýmislegt skemmtilegt saman, deila góðum fréttum og halda saman uppá merkisviðburði þegar ástæða er til.
- Að vera berskjaldaður. Vinskapur þýðir að við þorum að vera eins og við erum, í blíðu og stríðu. Við verðum að geta verið lítil í okkur og finnast við mislukkuð ef svo ber undir. Við þörfnumst þess líka að vinur eða vinkona okkar, hlusti og meðtaki það sem við segjum.