Helmingur sextugra á Bandarískum vinnumarkaði telur að hann komi til með að halda áfram að vinna þangað til að hann verði að minsta kosti 70 ára. Fimmtungur segist efast um að hann hætti nokkurn tímann að vinna, þetta kemur fram í könnun CareerBuilder og greint er frá á vefnum aarp.org. Könnunin náði til 3.215 einstaklinga á öllum aldri.
Helsta ástæða þess að fólk ætlar að halda áfram að vinna eru peningar. Einn af hverjum þremur sem orðnir eru 60 ára vita ekki hve mikið þeir þurfa að leggja til hliðar til að geta farið á eftirlaun. Fjórir af hverjum tíu töldu að þeir þyrftu að minnsta kosti hálfa milljón dala og fjórðungur taldi að hann þyrfti minna en það. Fólk á öllum aldri sýpur seyðið af fjármálakreppunni, en hún rýrði eftirlaunasparnað margra. Í dag eru margir í óvissu um hvar þeir eigi að koma sparnaði sínum fyrir,“ segir Rosemary Haefner, mannauðsstjóir hjá CarreerBuilder.
Margir svarenda töldu að þeir væru ekki að ná sparnaðarmarkmiðum sínum. Fjórðungur svarenda 55 ára og eldri sagði að hann væri ekki að leggja neitt fyrir. Þrír af hverjum fjórum töldu að þeir væru ekki að fá jafn há laun og þeir vildu.
Sífellt fleiri lifa lengur. Það þýðir að þó fólk vinni lengur verða starfslokin ekki endilega styttri. Þá telur fólk sig hafa fjárhagslegan ávinning af því að vinna lengur auk þess sem margir hreinlega njóta þess að vera í vinnu.
Margir þeirra sem tóku þátt í könnuninni og voru orðnir 55 ára sögðust vera í atvinnuleit. Átta prósent höfðu skipt um starf á síðasta ári og tólf prósent sögðust vera að íhuga að skipta um starf á þessu ári.
Rosemary vonar þó að eftirlaunaaldurinn verði ekki hækkaður endalaust. Fólk eigi það skilið að geta hætt að vinna og farið að njóta næsta kafla í lífi sínu.