Nafn Aðalheiðar Héðinsdóttur tengist unaðsdrykknum kaffi órjúfanlegum böndum. Hún stofnaði fyrirtækið Kaffitár fyrir 30 árum en það gerð hún fljótlega eftir að hún og eiginmaður hennar, Eiríkur Hilmarsson, fluttu heim frá Bandaríkjunum 1990. Þau voru í Wisconsin á meðan hann lauk doktorsnámi sínu eða í 5 ár. Aðalheiður er leikskólakennari að mennt en hafði ekki atvinnuleyfi í Bandaríkjunum og var því mest í að njóta tímans með börnunum þeirra þremur. En þegar þau höfðu verið í Wisconsin í tvö ár ákváðu þau að framlengja dvölina í önnur þrjú því þeim líkaði sérlega vel þarna og þá fór Aðalheiður að vinna hjá manni sem rak kaffibrennslu og sá kenndi henni að brenna kaffi. “Þegar kom að því að flytja heim vissi ég að mig langaði að stofna kaffibrennslu,” segir Aðalheiður og þá var ekki aftur snúið.
Ekki einfalt að stofna kaffibrennslu á Íslandi
Þegar Aðalheiður og Eiríkur komu heim eftir námið var jarðvegurinn fyrir kaffibrennslu á Íslandi ekkert sérstakur. En Aðalheiður hélt fast í drauminn sinn og eftir nokkur ár var ljóst að Kaffitár var komið til að vera. Börnin voru lítil en fjölskyldan stóð saman og hjónin bættu hvort annað upp, Eiríkur glöggur á tölur. (hann lærði fræðslustjórnun, Education administration) og Aðalheiður brann fyrir kaffinu og brennslunni. Svo kom í ljós að hún átti afar auðvelt með að vera í samskiptum við starfsfólkið svo smátt og smátt fóru hlutirnir að rúlla vel og allt í einu var haldið upp á 25 ára afmæli fyrirtækisins.
Mikill sælkeri
“Eitt af áhugamálum mínum er matargerð,” segir Aðalheiður og það rímar vel við ævistarf hennar sem er gæðakaffi. Hún hefur líka farið í svokallaðar sælgeragöngur á Íslandi, hafði nýverið komið úr einn slíkri sem farin var í Hrífunes þar sem var mikill sælkeramatur og göngur sem hentuðu öllum. “Ég sagði við vinkonur mínar að nú væri nýtt tímabil ævinnar hafið og héðan af skyldum við ferðast svona. Og þær voru alveg sammála,” segir hún brosandi.
Veiktist í miðjum klíðum
Nú er Aðalheiður að vinna við það sem henni þykir skemmtilegast sem er að smakka og kaupa kaffi en þannig byrjaði kaffiævintýri hennar. “Nú er ég búin að selja Kaffitár og er að vinna í 30% starfi hjá nýjum eigendum sem eru eigendur Ó Johnson og Kaaber. Þau hafa verið yndisleg allan tímann sem hefur skipt mig miklu mál. Starf mitt felst í að kaupa kaffi og smakka en ég er laus við áhyggjurnar af daglegum rekstri,” segir Aðalheiður og brosir. “Ég var farin að hafa meiri áhyggjur og taka inn á mig hluti sem ég gerði ekki áður. Í byrjun gekk maður bara í störfin og gerði alltaf sitt besta og lét það duga. Það breyttist með tímanum og ég náði ekki að slaka á þótt ég reyndi alltaf mitt besta og þar kom að ég vildi selja. Eiríkur var ekki sammála mér og við réðum þá forstjóra, Kristbjörgu Eddu, sem var rosalega góð ákvörðun. Við vorum komin í söluferli þegar Kristbjörg Edda hætti og ég tók við síðustu mánuðina. En þegar sú góða manneskja hætti fyrirvaralítið og ég tók aftur við starfi hennar fann ég að hugurinn var kominn annað” segir Aðalheiður. Kaffitár var vel rekið fyrirtæki og þau vissu að þau myndu ná að selja en því miður náði Eiríkur ekki að sjá það gerast eða njóta afrakstursins.
Hvernig líða dagarnir hjá Aðalheiði?
Eftir mörg annasöm ár hefur orðið gífurleg breyting í lífi Aðalheiðar. Hún missti maka sinn, seldi fyrirtækið og flutti frá Keflavík þar sem hún er fædd og hún og Eiríkur bjuggu alla tíð en þau byrjuðu saman 16 ára. “Við Eiríkur vorum nýbúin að byggja hús í Garðabæ sem hentaði okkur fullkomlega. Við höfðum teiknað ágætis garð af því við vorum bæði áhugafólk um garðyrkju. En þegar Eiríkur var orðinn veikur óx garðurinn mér svolítið í augum. En nú, tveimur árum eftir að hann lést, er ég glöð að hafa garð til að sýsla í. Sumarið sem Eiríkur var veikur ákvað dóttir okkar að hún ætlaði að gifta sig og við buðum þeim hjónaleysum að gera það hjá okkur. Ég sendi þá út heróp til vina okkar og vandamanna sem fjölmenntu og gerðu garðinn í stand með þriggja daga fyrirvara svo veislan gat farið fram úti í garði. Ég nýt sannarlega góðs af því núna,” segir hún og hefur notið góða veðursins í garðinum í sumar til hins ítrasta. Yngsta dóttir Aðalheiðar er einstæð móðir og á son sem er mikið hjá Aðalheiði en þau búa í námunda. “Þá kemur amman sterk inn,” segir Aðalheiður brosandi og nýtur þess augljóslega að liðsinna dóttursyni sínum með heimalærdóm og fleira.
Aðalheiður sem reynir að hugsa vel um líkamann, var í hlaupahópi í Garðabæ um tíma en fékk slæmstu í mjöðmina og fór þá að ganga í staðinn og stunda sund.
Ég hleyp af því ég get það
“Þegar Eiríkur veiktist og í ljós kom að hann var með heilakrabbamein ákváðum við strax að hver einasti dagur yrði góður dagur. Við ákváðum að við skyldum ekki detta ofan í pytt þunglyndis eða vonleysis. Þetta gátum við gert og höfðum alltaf hugfast að við ættum ekkert fyrir víst í þessu lífi. Þessi stutti tími sem hann átti eftir var svo dýrmætur og við gátum sannarlega notað tímann eftir að hann náði sér aðeins og kom heim af líknadeildinni. Þetta gerðist allt svo hratt því hann greinist í apríl, viku seinna var hann kominn í hjólastól og látinn þremur mánuðum síðar. Við náðum að fara í ferðalag á Snæfellsnes sem hann naut en daginn eftir hefði hann ekki komist. Á þessum tíma var HM í fótbolta og við gátum öll notið þess að vera með honum að horfa. Hann lá þá í sófanum en hann var með okkur og allir nutu þess að vera saman. Síðan hef ég haft hugfast að dagurinn í dag sé kannski besti dagurinn sem ég á, því á morgun gæti verið eitthvað annað að en bara slæmska í mjöðminni. Ég vil ekki súta einhver smáatriði heldur einblína á það góða. Sem dæmi sé ég út um stofugluggann heima mér þegar hlaupahópurinn fer í æfingar sínar. En frekar en dæsa og vorkenna mér fyrir að geta ekki verið með þeim reyni ég að hugsa um að ég geti bara gert svo margt annað og svo kannski muni þetta lagast einhvern tímann,” segir þessi duglega kona sem sér björtu hliðarnar þrátt fyrir allt og allt.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.
Viðtalið við Aðalheiði birtist áður á Lifðu núna í ágúst 2020