Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir settist fyrst á þing  1987 sem varaþingmaður fyrir Framsókn og var tvö kjörtímabil varamaður. Árið 1995 var hún svo kjörin á þing fyrir Þjóðvaka, var svo í þingflokki jafnaðarmanna, en síðan þingmaður Samfylkingarinnar frá 1999 til 2013. Hún var þingmaður Reykjavíkur alla sína þingmennsku í 18 ár. Ásta var 1. varaforseti Alþingis 2007 – 2009, félags- og tryggingaráðherra í minnihlutastjórninni 2009  og síðan forseti Alþingis 2009–2013.

Ásta Ragnheiður hafði fjölbreytta starfsreynslu er hún kom á þing, var dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu í aldarfjórðung, með fjölbreytta þætti, – tónlistar-, fréttatengda og blandaða þætti og sá meðal annars um hinn geysivinsæla óskalagaþátt Lög unga fólksins um árabil. Hún var einnig fararstjóri og leiðsögumaður Íslendinga erlendis lengi vel. Síðast en ekki síst var Ásta deildarstjóri félagsmála- og upplýsingadeildar Tryggingastofnunar og sérfræðingur í hinu flókna völdundarhúsi almannatrygginganna.

,,Þegar þingmennsku minni lauk árið 2013 var kærkomið að geta sinnt ýmsum hugðarefnum og láta gamla drauma rætast. Þá for ég til dæmis að læra silfursmíði, en ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á skartgripum og skartgripagerð.

Ég tók einnig að mér um tveggja ára skeið starf framkvæmdastjóra 100 ára afmælis kosningaréttar íslenskra kvenna 2015.

Það var ótrúlega skemmtilegt viðfangsefni og útheimti fundi víðs vegar um landið og tengsl við konur og kvennasamtök um allt land. Það var magnað að finna áhuga landsmanna, aðallega kvenna, – allir vildu halda þennan merkisáfanga hátíðlegan á sínu svæði, hver á sinn hátt.

Á Hallveigarstöðum, þar sem afmælisnefndin var til húsa, eru m.a. Kvenfélagasambandið, Kvenréttindafélagið og fleiri kvennasamtök með skrifstofur sínar, svo það var auðvelt að komast í samband við öll kvenfélög landsins sem og ýmis önnur félagasamtök, sveitarfélög og ekki síst menningarstofnanir. Allt þetta starf kvenna á afmælisárinu vakti athygli á ýmsum störfum kvenna, sögu þeirra og baráttu. Mikil vakning var hjá konum og jafnvel körlum að skrifa sögu ömmu sinnar og var ömmusögum safnað og haldnir fyrirlestrar um ömmur.  Í Borgarnesi var til dæmis afar glæsileg sýning um konur í héraðinu, á Akranesi var mögnuð sýning sem nefndist ,,Líknandi hendur“, en þar var fjallað um ljósmæður, hjúkrun, umönnunarstörf og fæðingarhjálp gegnum tíðina. Þannig mætti nefna fjölda fjölbreytilegra sýninga um allt land. Allt var þetta að frumkvæði heimamanna. Það voru sérstaklega gerðar kvikmyndir, samin leikrit, skrifaðar sögur og ort ljóð í tilefni afmælisársins.

Segja má að ég hafi aldrei haft meira að gera en eftir að ég hætti á Alþingi, þótt starfið þar hafi verið ærið, sérstaklega í hruninu og uppbyggingunni eftir það, í þeim óróa sem þá skapaðist í samfélaginu.“

Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna var reist stytta við Alþingishúsið af fyrstu konunni sem tók sæti á Alþingi, Ingibjörgu H. Bjarnason, en hún var m.a. í forystusveit þeirra kvenna sem söfnuðu fyrir byggingu Landspítalans og hún var einnig skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík. Stytta af Ingibjörgu við þinghúsið hafði verið baráttumál Ástu frá því að hún var forseti Alþingis, en þá voru erfiðir tímar og ekkert fé til slíkra verkefna. Það hefur verið siður að reykvísk leikskólabörn gangi um borgina til að skoða stytturnar og komi svo í heimsókn í Alþingishúsið í lokin. Þeim fannst skrýtið að allar stytturnar væru af dauðum körlum en engin stytta væri af konu. Drengur sem kom úr slíkri heimsókn ræddi við systur sína um hvað tæki við eftir dauðann. Systir hans sagði: „Við verðum að mold.“ „Nei,“ sagði sá stutti, „karlar verða að styttum, en konur verða að mold!“

„Við svo búið mátti ekki standa, eitthvað varð að gera í þessu ástandi.

Ég beitti mér fyrir söfnun meðal stórfyrirtækja til að reisa höggmynd af Ingibjörgu og fékk frábæran listamann, Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara, til verksins. Ragnhildur stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1977 – 1981 og hlaut MFA-gráðu frá Carnegie Mellon University, College of Fine Art í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Það tókst að safna fyrir höggmyndinni og nú stendur Ingibjörg H. Bjarnason fyrir utan skála Alþingis og gustar af henni.

Á námskeið um eldfjöll

,,Ég fór í fyrravetur á námskeið um eldfjöll og eldvirkni á Íslandi hjá Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi, en það vaknaði hjá mér mikill áhugi á jarðfræði þegar ég var í menntaskóla og áhugi minn á eldvirkni landsins hefur lengi verið mikill. Ég hef reyndar sótt mörg og fjölbreytileg námskeið í ýmsum greinum hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Ég fer reglulega í sund og sundleikfimi og hvet alla – og ekki síst eldri borgara – til að stunda einhverja hreyfingu. Það er svo nærandi, bæði til sálar og líkama. Svo hittir maður þar gamla skólafélaga og vinnufélaga, sem er ómetanlegt.

Þegar formlegu ævistarfi lýkur gefst manni tækifæri til að læra ýmislegt. Sumir fara í golf og aðrir í silfursmíði,“ segir Ásta og kímir. „Fólk á að nýta tímann þegar það er komið á eftirlaun og læra eitthvað nýtt. Möguleikarnir eru óendanlegir.“

Hálfrar aldar ,,saumaklúbbur“

Bekkjarsystur Ástu Ragnheiðar í MR hafa hist í hverjum mánuði í ,,saumaklúbbi“ í rúmlega 50 ár og farið saman í gönguferðir um holt og hæðir og síðan í kaffi eða hádegismat. Einnig hafa æskuvinkonurnar ferðast erlendis og hérlendis. ,,Stundum tökum við karlana með, en segjum þeim ekki hvert farið verður, í einskonar óvissuferð. Gaman var að fara um landið í fyrrasumar ótruflaður af erlendum ferðamönnum. Það var ótrúlegt ævintýri að vera á Íslandi á þessum tíma, skoða landið og sækja söfn og sýningar.“

–        Þegar þú lítur til baka, hefðir þú viljað gera eitthvað annað á lífsleiðinni?

,,Nei, alls ekki.“

Ritstjórn apríl 28, 2021 07:42