Afi í stærðfræðiprófi

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Í ýmsu lendur maður en fyrr í haust hefði þurft að segja mér það oftar en tvisvar að nú, í byrjun október, væri ég, gamli máladeildarstúdentinn, farinn að rifja upp grunnskólastærðfræði. Satt best að segja var stærðfræði aldrei mitt uppáhaldsfag, þótt bærilega kæmist ég í gegnum margföldun og deilingu barnaskólaáranna. Verr var mér við mengi svokölluð, svo ekki sé minnst á algebru. Ég hafði á því þokkalegan skilning að 2 + 2 væru 4 en gaf ekki mikið fyrir það að leggja saman bókstafi. Þá væri betra að brúka í annað, til dæmi að skrifa texta.

Enginn veit hins vegar ævi sína fyrr en öll er og þessa dagana rifjum við hjónakornin upp æskudaga barna okkar – og þá daga sem við vorum í okkar barna- og skólastússi. Hjá okkur eru nefnilega tveir drengir, 7 og 10 ára, barnabörn okkar. Þeir hafa búið ytra með foreldrum sínum undanfarin ár en nú er sú vist á enda og fjölskyldan á heimleið. Við sóttum drengina og flugum með þá heim en foreldrarnir urðu eftir til að ganga frá sínum málum. Um hálfs mánaðar skeið sjáum við því um sveinana ungu og kunnum því vel, enda báðir miklir ljúflingar og dáðadrengir sem gaman er að hafa hjá sér. Skólavist var það fyrsta sem beið þeirra eftir heimkomuna. Allir hafa sínar skyldur, ungir jafnt sem aldnir.

Við þurfum því að vakna snemma, gefa þeim að borða, smyrja nesti og koma þeim í skólann áður en við förum sjálf í vinnuna. Ég er þar aðeins á hliðarlínunni því drengirnir treysta mjög á ömmu sína í þessum efnum. Ég er meira í því að sækja og senda því meira skutl fylgir nútímabörnum en var þegar okkar börn voru lítil, svo ekki sé minnst á það þegar við, afinn og amman, vorum í barnaskóla. Þá gengum við í skólann, sund, leikfimi eða hvað annað – í hvaða veðri sem var. Engum datt í hug að keyra börn í skólann eða tómstundir, jafnvel þótt drossía frá gullaldartíma amerískra dreka væri hugsanlega til staðar.

Allt er þetta stúss okkar dásamlegt og heldur okkur ungum – og á tánum. Við þurfum að fara fyrr að sofa svo við vöknum örugglega klukkan 7 til þess að vekja drengina. Það þýðir því ekkert að dorma yfir sjónvarpinu fram eftir öllum kvöldum, eins og stundum hendir á betri heimilum fólks á virðulegum aldri.

Allt hefur þetta gengið eftir áætlun. Drengirnir eru glaðir í skólanum, duglegir að læra og hamingjusamir í hópi góðra skólafélaga. Amman hefur heimsótt kennarana og farið yfir stundatöflur og afinn sent og sótt sveinana í afmæli bekkjarsystkina. Saman höfum við farið í Ævintýraskóginn og grillað pylsur með bekkjarsystkinum eldri drengsins og foreldrum barnanna í þeim bekk. Við féllum ágætlega inn í hópinn, þótt afinn sé að sönnu gráhærðari en foreldrarnir ungu.

Ég hafði því ekki sérstakar áhyggjur af því þegar amma drengjanna tilkynnti mér fyrir liðna helgi að hún færi það sama kvöld á fund vinkvenna sinna. Ég gæfi drengjunum bara að borða og kæmi þeim í háttinn á skikkanlegum tíma. Allt gekk það að óskum. Matseldin var einföld að hætti þriggja drengja á mismunandi aldri, hakk og spaghettí. Það getur varla klikkað. Strákarnir borðuðu og sá yngri fór fljótlega í háttinn, þreyttur eftir stuð dagsins í nýja skólanum. Hinn eldri sagði hins vegar að enginn tími gæfist til slökunar. Hann ætti eftir að skila prófi í stærðfræði – og þar yrði afinn að aðstoða.

Það fór aðeins um þann gamla, því er ekki að neita. Ég óttaðist að ég stæði ekki undir væntingum, myndi gata á á stærðfræði 5. bekkjar grunnskóla, stæðist ekki 10 ára börnum snúning í fræðigreininni. Ekki minnkaði þrýstingurinn þegar drengurinn sagðist ætla að fá A plús en ekki F mínus. Mér datt í hug, við þessa yfirlýsingu skólasveinsins, að hann hefði komist í gömul einkunnablöð afa síns. Það er þó ólíklegt því hann virtist einlæglega hafa fullt traust á afa sínum og stærðfræðiþekkingu hans. Við settumst því yfir prófið.

Mér til léttis sá ég fljótt að það voru engar hundakúnstir í prófinu. Það snerist um samlagningu, frádrátt, deilingu og margföldun. Þótt ég hafi á menntaskólaárunum, forðum daga, tekið fyrstu beygju frá stærðfræði yfir í aðrar þekkilegri greinar lá fyrir að í sameiningu myndum við langfeðgarnir ráða við þessar þrautir. Raunar reyndi ekki mikið á mig því strákurinn kunni skil á þessu öllu, hafði greinilega haft góða kennara í útlandinu, auk þess sem ég hef grun um að stærðfræðin liggi betur fyrir honum en afa gamla.

Það eina sem truflaði okkur báða var að á sama tíma og við glímdum við stærðfræðiþrautirnar var sá aldni sagnaþulur David Attenborough að sýna kengúrur og kúnstir þeirra í sjónvarpinu. Það verður að viðurkennast að kengúrur eru miklu skemmtilegra viðfangsefni en stærðfræði, með fullri virðingu fyrir þeirri merku fræðigrein.

Við kláruðum samt prófið, en ekki fyrr eftir að kengúruþættinum lauk. Þegar þetta er skrifað veit ég ekki hvort drengurinn fær ágætiseinkunn fyrir frammistöðuna – en fari svo, eins og við vonum báðir, verður það í fyrsta skipti sem afinn fær A plús í stærðfræði.

(Endurbirt frá 2019)

Jónas Haraldsson október 7, 2019 07:32