Afar og ömmur hafa alltaf gegnt hlutverki uppfræðara í lífi barnabarnanna. Þau hafa líka séð um barnagæslu og umönnun frá örófi alda. Tæknin hefur hins vegar bæði flækt og bætt þessi hlutverk. Með tækninni er hægt að halda sambandi við barnabörn búsett í fjarlægu landi en hvað á að gera þegar börnin virðast ekki hafa neinn áhuga á öðru en símanum?
Þeim finnst leiðinlegt að spila, feluleikur barnalegur, allar bækur lélegar og ekkert gaman að vera úti. En tölvuleikurinn í símanum er frábær sem og myndböndin á YouTube, TikTok og hvað þeir heita allir þessir miðlar. Það er hægt að sýna áhuga á því sem barnið er að gera og reyna að taka þátt í því. Með því móti er komið í veg fyrir að barnið horfi á eitthvað sem ekki hæfir aldri þess og þroska. Það er líka hægt að tala um það sem barnið sér og gerir. Það hjálpar því að vinna úr hlutunum vitsmunalega.
Það getur líka verið erfitt að feta línuna milli hins ásættanlega og hins sem þau alls ekki vilja. Þegar þau stálpast vilja þau til dæmis að amma og afi fylgist með þeim á SnapChat eða TikTok? Það ber að virða rétt þeirra til einkalífs og það borgar sig alltaf að spyrja þau áður en þeim er send vinabeiðni eða ýtt á follow-takkann. Afi og amma ættu ekki setja þau í þá stöðu að þurfa að neita vinabeiðni frá þér eða loka á þig. Þeim finnst það kannski óþægilegt og eru hrædd um að það virki eins og höfnun á ykkur. Hins vegar finnst þeim líka óþægilegt að vita að þið lesið og sjáið einhvern fíflagang þeirra og vina þeirra.
Ljósmyndir á samfélagsmiðlum
Myndir á samfélagsmiðlum eru vandmeðfarnar og opna á fleira en fólk grunar. Til dæmis geta menn reiknað út hvar viðkomandi er staddur á einhverri tiltekinni stundu eða hvar hann býr þegar myndir birtast ítrekað af heimilinu. Eftir að búið er að hlaða upp myndum verður það ekki aftur tekið. Óravíddir Internetsins gleypa þær og geyma. Í Bandaríkjunum eru dæmi þess að óprúttnir aðilar hafi út frá myndum fundið út hvar fólk býr og í hvaða skóla börnin ganga og nálgast þau eftir það.
Í raun er alltaf viðkvæmt hvernig myndir, hversu oft og hvar má birta myndir af börnum. Sumir foreldrar vilja alls ekki að afi og amma birti myndir af börnunum þeirra á samfélagsmiðlum og það ber að virða. Þótt myndirnar fari ekki endilega á flakk eða komi fyrir augu óæskilegra manneskja er ekki víst að barnið kunni þér þakkir síðar fyrir að birta alls konar myndir sem því þykja vandræðalegar, ljótar eða sýna minningar sem það vildi halda prívat.
Prívatsíður fyrir myndir og myndbönd
Flestir samfélagsmiðlar gera fólki kleift að loka aðgangi almennings að ákveðnu efni og deila því aðeins með nánum vinum eða ættingjum. Það er sjálfsagt að notfæra sér þann valmöguleika þegar kemur að myndefni af barnabörnunum. Á YouTube eða Vimeo er hægt að deila myndböndum án þess að aðrir en þeir sem fá boð um það sjái. Þar er hægt að lesa kvöldsögu fyrir barnabarnið, segja því frá einhverju skemmtilegu sem henti þig og færa því fréttir af öðrum í fjölskyldunni. Þá getur barnið horft á þetta eins oft og það vill og sent þér efni til baka án þess að nokkur annar komi þar að.
Í dag eru smáskilaboð algengasti samskiptamáti manna á milli. WhatsApp, Messenger, Signal, Telegram og fleiri eru notuð óspart um allan heim og billjónir skilaboða fara um þau daglega. Meðal unglingur í dag fær á þriðja hundrað skilaboð daglega í gegnum símann sinn. Rafræn skilaboð eru góð leið til að hafa samband og minna barnabörnin á sig. Þau eru líka ódýr ef þau búa í öðru landi. Nú er hægt að senda litlar skemmtilegar myndir emoji með til að gera skilaboðin líflegri og gleðja börnin. En það þarf að gæta þess að gera ekki of mikið af þessu og trufla þau. Eins ættu afi og amma aldrei að senda eitthvað sem getur reynst vandræðalegt fyrir barnið ef vinir þess sjá það.
Það er sjálfsagt að nýta sér tæknina til að njóta samveru með barnabörnunum og skapa tengsl við þau en enginn ætti samt að hætta að reyna að kynna þau fyrir veröld sem var. Þeirri veröld sem afi og amma ólust upp í, með bókum sem haldið var á og lesið upphátt úr, útileikjum, spilum og notalegri nánd.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.