Áhugaverðar samræður við vini hvetjandi fyrir heilann

Það er ýmislegt hægt að gera til að þjálfa minnið og halda heilanum almennt í þjálfun. Hérna eru sex ráð frá Samtökum eftirlaunafólks í Bandaríkjunum, en þau koma heim og saman við helstu umfjöllunarefnin á ráðstefnu um Alzheimer sem var haldin í Kaupmannahöfn fyrr í sumar.

                        1. Lærðu eitthvað

Það skiptir miklu máli að örva heilann, til að vera betur í stakk búinn til að verjast sjúkdómum eins og Alzheimer. Þetta segir Dr. Paul D.Nussbaum prófessor við læknadeild Háskólans í Pittsburgh, en hann hefur unnið með Samtökum eftirlaunafólks í Bandaríkjunum að verkefni sem snýr að heilbrigði heilans. „Það skiptir ekki máli hvað þú ert gamall“, segir hann. „Það er hægt að hafa áhrif á heilann alla ævi“.

                       2. Sofðu nægilega mikið

Að sofa minna en sex klukkustundir á nóttu eykur líkur á menn fái heilablóðfall að mati bandarískra sérfræðinga í svefni. Rök hafa meira að segja verið færð fyrir því að það sé hollt að fá sér kríu yfir daginn. Það gerði Winston Churchill ævinlega. Stundum hefur því verið haldið fram að það sé óhollt að fá sér blund að degi til, en nýjar rannsóknir sýna að það getur skerpt á hugsuninni að hvíla sig þannig yfir daginn.

                        3. Borðaðu rétt

Þú ættir að setja grænblaða grænmeti á rúmlega hálfan diskinn þegar þú færð sér að borða. Fæði sem inniheldur mikinn fisk, hnetur og olífuolíur en lítið af unnum kolvetnum er gott fyrir heilann. Columbia háskólinn í New York gerði rannsókn árið 2009, sem sýndi að mataræði þar sem þetta er haft til hliðsjónar getur dregið úr líkum á því að menn fái Alzheimer.

                        4. Reyndu á höfuðið

Það sem fólk kvartar mest yfir varðandi minnið, er að það eigi erfitt með að muna nöfn. „Fólk þarf að hætta að væla yfir þessu og skilja að það getur vel munað þau, segir taugasérfræðingur í samtali við bandarísku vefsíðuna aarp. Og hann gefur uppskrift að því hvernig menn geti vanið sig á að muna nöfn betur. „Settu þér að muna þrjú ný nöfn á dag – til dæmis nafn ákveðins fréttamanns í sjónvarpinu, nafn eins af nágrönnum þínum og nafn leikmanns í uppáhalds íþróttafélaginu þínu“.

                        5. Farðu í göngutúr með góðum félaga

Geðlæknar hafa kallað þetta þríþætta leið til að vinna gegn Alzheimer. Menn fá hreyfingu og þjálfa þannig líkmann, góður félagsskapur léttir áhyggjur og áhugaverðar samræður við góðan vin virka hvetjandi á heilabúið.

                        6. Slakaðu á

Það eykur blóðstreymi til heilans að róa sig niður. Fljótvirk leið til þess er að anda á meðan talið er uppí sjö, halda niðri í sér andanum og telja upp að sjö, anda frá sér á meðan talið er uppí sjö. Þetta má svo endurtaka nokkrum sinnum

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 20, 2014 16:49