Samgöngustofa og Félag eldri borgara stendur fyrir námskeiði þessa dagana um hvað beri að varast i akstri þegar aldurinn færist yfir. Boðið er uppá kennslu í þrjá daga og einnig fá þeir sem það vilja, hálftíma akstur með ökukennara sem metur akstursfærni þeirra. Tólf manns eru á námskeiðinu.
Er að endurnýja ökuskírteinið
Hörður Bergmann var að koma í akstursmatið hjá Kjartani Þórðarsyni hjá Samgöngustofu, þegar tíðindamaður Lifðu núna fór að kynna sér námskeiðið. Hörður er hættur að reka bíl. „Ég nota hjól til að afla vista og hitta kærustuna“, sagði hann. En hann er með ökuskírteini og þarf að endurnýja það árlega eins og aðrir sem hafa náð áttræðisaldri. „Það er eins gott að þurfa ekki að hugsa sig lengi um í umferðinni. Það er gott að rifja upp hvaða reglur gilda og hvað merkin þýða til að standa betur að vígi þegar maður þarf að hreyfa sig með slakari skrokk en áður og seinni þankagang“, segir hann.
Aka ekki í slæmu skyggni
Það þarf að fá vottorð frá heimilislækni þegar ökuskírteinið er endurnýjað, en hann prófar bæði hreyfigetu og sjón. Hörður segir að það skipti miklu máli fyrir eldri ökumenn að skyggnið sé gott. Það sé vitað að þeir lendi yfleitt ekki í slysum að næturlagi eða í hálku, enda gæti þeir þess að taka ekki þá áhættu að aka þegar skyggnið sé slæmt. „Það er algengt að heyra það hjá eldra fólki að það sé hætt að aka í myrkri og hálku“, segir hann.
Þurfa að skapa öryggi í kringum sig
Kjartan Þórðarson sem kennir á námskeiðinu segir að það sem eldri ökumenn þurfi helst að gæta að, sé að passa upp á sitt rými í umferðinni og skapa öryggi í kringum sig. Þá sé það atriði að huga að viðbrögðum og stirðleiki geti einnig gert vart við sig og haft áhrif á hreyfigetu. Sjón getur einnig hrakað og það er ástæða til að huga að því.
Við erum eftirbátar annarra
Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er uppá námskeið fyrir eldri ökumenn hér á landi, en Norðmenn hafa haldið slík námskeið í 15-20 ár. Kjartan segir að þau hafi reynst vel, bæði þar og víðar, en við séum eftirbátar annarra í að veita eldra fólki þessa þjónustu. Hún sé hins vegar liður í því að auka öryggi eldra fólks í umferðinni og gera því kleift að aka sem lengst.