Fiskibollur úr dós eða tofu

Hvað er þjóðlegra en gamli góði rétturinn fiskibollur úr dós. Hann var mjög oft á borðum landsmanna í gamla daga. Sumpart af því að hráefnið var ódýrt og svo var það bara ágætlega næringarríkt og mörgum þótti þetta herramanns matur. Oft var rétturinn samsettur þannig að bollurnar voru steiktar i smjörlíki, karrísósa eða tómatsósa sett út á og látið malla saman. Kartöflur voru soðnar og bornar fram með. Og í raun var þetta uppáhaldsmatur margra. Nú langar okkur á Lifðu núna að nota þetta „eðalhráefni“ og blanda því saman við framandi hráefnistegundir. Tegundir sem foreldrar okkar sáu aldrei í gamla daga, hvað þá smökkuðu. Gjörið svo vel og njótið!

1 dós Ora fiskibollur eða 400 g tofu

4 soðnar kartöflur, skornar í bita
1 laukur, smátt saxaður

300 g brokkolí, skorið niður

6 sveppir, skornir í bita

2 tómatar skornir í munnbita eða 6 kirsuberjatómatar
6 sveppir, skornir í bita
olía til steikingar

1 hvítlauksrif, smátt saxað

ferskt kóríander og 2 lúkur af fersku spínati

1 dós kókosmjólk, t.d. frá Biona

1 – 2 msk. karrímauk eða eftir smekk, t.d. frá Blue dragon

Setjið saxaðan laukinn í heita olíuna á pönnu og bætið sveppum og brokkolí út í og látið malla um stund. Bætið fiskibollunum eða tófu út á pönnuna og steikið með. Bætið tómötunum út í og að síðustu hvítlauknum. Setjið karrímaukið út á pönnuna og að síðustu kókosmjólkina. Látið þetta malla við vægan hita í 10 mínútur á meðan hráefnið blandast vel.

 

 

 

 

 

Ritstjórn mars 27, 2020 11:39