Ákjósanleg samfélagsleg áhrif af afnámi skerðinga

Haukur Arnþórsson

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur skrifaði grein um skerðingar í lífeyriskerfinu í Morgunblaðið um helgina. Greinin er svohljóðandi:

Ábending til félags- og jafnréttismálaráðherra

Afnám skerðinga á lífeyri gæti raunverulega kostað ríkissjóð 3-4,5 kr. af hverjum 10 sem hann leggur fram. Samfélagslegu áhrifin yrðu mjög ákjósanleg.

Í svari félagsmálaráðuneytisins til Alþingis á þingskjali 1121, dagsett 18. ágúst 2017, er fjallað um kostnaðarauka ríkisins vegna niðurfellingar „krónu-á-móti-krónu“ skerðingar á lífeyri.

Svarið er að kostnaðurinn sé 10-15 milljarðar. Spurningin og svarið er á óskiljanlegu stofnanamáli og sjónarhóllinn þröngur. Ekki kemur fram heildarkostnaður af afnámi allra skerðinga eða afnámi þeirra í hlutum, t.d. gagnvart hópum (með varanlega örorku, tímabundna örorka, aldraðir) eða gagnvart tegundum tekna (laun, greiðslur frá lífeyrissjóðum, vaxtatekjur). Af þessu tilefni vil ég benda á eftirfarandi almenn sjónarmið í málinu.

Ríkissjóður gefur og tekur

Ríkið bæði gefur og tekur og sumum finnst það leggja nokkra áherslu á hið síðarnefnda. Ef ríkið leggur fram fé til afnáms skerðinga mun umtalsverður hluti þess koma til baka. Full ástæða er til þess að reiknað sé út á vegum Stjórnarráðsins hvað afnám tekjuskerðinga; allra tekjuskerðinga bæði hjá öryrkjum og öldruðum sem og tekjuþaka, kosta ríkissjóð raunverulega og hver samfélagslegur ávinningur verður.

Sanngirni í skattheimtu

Minnt skal á að skerðingarnar eru skattur (jaðarskattur) sem fer upp í og jafnvel yfir 100%. Skattþrep eru því í raun fleiri en tvö hér á landi. Þær eru siðferðilega óverjandi, til dæmis vegna þess að þær gera greiðslur til lífeyrissjóða óþarfar sem nemur skerðingunum. Lögum samkvæmt renna að lágmarki 12% af öllum launum til lífeyrissjóða en mikill meirihluti greiðenda nýtur ekki ávinningsins til fulls. Skerðingarnar kunna því einnig að vera ólöglegar og brjóta í bága við meginreglur stjórnsýslu og stjórnarskrár, svo sem eignarréttarákvæði. Lífeyrisþegar eiga augljósa kröfu á að tekjur þeirra séu skattlagðar í sömu skattþrepum og almennt gilda.

Það var mikill hiti í fólki vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu á landsfundi Landssambands eldri borgara í maí síðast liðnum

Tekjuskattur

Skerðing lífeyris kemur til þegar aflað er viðbótartekna eftir að persónufrádráttur lífeyrisþega hefur þegar verið nýttur. Því fær ríkið 36,94% af kostnaðarauka félagsmálaráðuneytisins til baka í formi staðgreidds tekjuskatts. Ef samanlagðar tekjur öryrkja eða aldraða fara yfir 834.707 krónur er skattþrepið 46,24%. Áætla má með að ríkið taki strax til baka um 38% framlags sína og því komi aðeins 62% af því til greiðslu.

Aðrir skattar og gjöld

Almennur virðisaukaskattur er 24% og áætla má að ríkið fái ekki minna en 20% af upphæðinni sem kemur til greiðslu til baka með honum. Þá eru ótaldir aðrir skattar og gjöld og sértekjur stofnana sem aukast með aukinni einkaneyslu og virkni lífeyrisþega. Því má álykta að skattar taki til baka ekki minna en 51% af útlögðum kostnaði ríkisins vegna niðurfellinga skerðinga á lífeyri.

Aukin atvinnuþátttaka

Atvinnuþátttaka ætti að aukast með lækkuðum sköttum. Þá er hvatinn til þess að vinna til staðar, en hann er þó mjög mismikilvægur. Gagnvart öryrkjum með tímabundna örorku er hann mikilvægastur, en samfélagsleg áhrif af virkni í starfi og leik eru þó ótvírætt öllum til hagsbóta, ekki síst geðsjúkum, en félagsleg einangrun er oft hlutskipti þeirra. Forsjárhyggjumenn gætu svo sagt að aldraðir ættu ekki að vinna, en margir þeirra vilja það. Vinnuframlag þessara hópa yrði væntanlega mismikið eftir árferði, þeir gætu orðið nokkurs konar varavinnuafl í þensluástandi.

Með afnámi skerðinga aukast einnig líkur á að tekjur sem falla undir hið „svarta“ hagkerfi komi upp á yfirborðið sem vissulega eykur tekjur ríkisins.

Hér er áætlað að framtaldar vinnutekjur öryrkja og aldraðra aukist að jafnaði um 5 þús. kr. mánaðarlega við afnám skerðinga eða um 60 þús. kr. á ári sem hlýtur að vera hóflegt. Skattar af þeim tekjum myndu nema um 2 milljörðum.

Samfélagsleg áhrif

Samfélagslegur ávinningur er einkum auknar ráðstöfunartekjur einstaklinganna. Þær aukast annars vegar með afnámi skerðinga sem má áætla að nemi 4,9 milljörðum pr. hverja 10 milljarða sem ríkið leggur fram sé miðað við óbreytt vinnuframlag og hins vegar vegna aukinna atvinnutekna sem hér er miðað við að séu 1,8 milljarður.

Áætlað er að um 10 þúsund erlendir starfsmenn komi til starfa hér á landi á árinu. Það kallar á kostnaðarsama innviði svo sem húsnæði, samgöngur, fjarskipti og annað. Enda þótt alþjóðleg gögn sýni að innflutningur vinnuafls borgi sig má reikna með að vinnuafl öryrkja og aldraða borgi sig enn betur, meðal annars í ljósi þess að allir innviðir fyrir þá eru þegar fyrir hendi.

Niðurlag

Hér hefur verið gefin mynd af því hvaða áhrif afnám skerðinga hefur á ríkissjóð og samfélagið og á grundvelli hennar má áætla að af hverjum 10 milljörðum sem ríkið leggur fram séu aðeins 3-4,5 raunveruleg útgjöld og að samfélagslegu áhrifin séu mjög jákvæð bæði siðferðilega, félagslega og efnahagslega og svo umtalsverð og þau verður að taka með í reikninginn. Skoða þarf málið betur.

Í ljósi þess að félags- og jafnréttismálaráðherra stefnir að því að afnema skerðingar á lífeyri og einfalda lífeyriskerfin verður að vænta þess að ráðuneytið gefi framvegis heildstæðar og réttar upplýsingar um málið.

Engin ástæða er til að bíða með framkvæmd þess. Núverandi þensluástand skapar kjöraðstæður fyrir afnám skerðinga á lífeyri.

 

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017).

Ritstjórn ágúst 28, 2017 13:08