Síðustu fimmtán ár hef ég verið 46 ára. Það hefur ekkert með afneitun að gera, heldur er það ákvörðun að vera ungur í anda, rækta líkamann og þjóna öðrum. Lykillinn að því að vera ungur fram eftir öllum aldri er að njóta dagsins og vera í ástríðunni, starfa við það sem fær mann til að gleyma stund og stað; NJÓTA.
Vissulega færast árin yfir en kosturinn við það er viskan, reynslan og þekkingin. Og ekki síst frelsið. Ég verð frjálsari með ári hverju, frjáls undan skoðunum annarra og öðlast hugrekki til að fylgja innsæinu. Ég hlakka til hvers dags, hlakka til að halda fyrirlestra fyrir unga fólkið, hlakka til að vinna með landsliðinu í fótbolta, hlakka til að skrifa bækur og hreyfa við ungu fólki. Og síðast en ekki síst hlakka ég til að fara að sofa af því á næturna fer ég á flug, eitthvert, og kem endurnærður til baka. Og þegar á hólminn er komið nýt ég hvers einasta augnabliks, af því það sem gerðist í gær mun aldrei gerast aftur og morgundagurinn er óskrifað blað.
Sem barn var ég í sveit hjá ömmu minni og afa en þau voru einstakir dugnaðarforkar og viskubrunnar. Ég var heppinn að búa hjá þeim á menntaskólaárunum en hafði hins vegar hvorki reynslu né þroska til að njóta visku þeirra og lífreynslu til fullnustu. Víða erlendis er augljóslega borin meiri virðing fyrir eldra fólki en á Íslandi og það fær að vinna eins lengi og það vill, gera gagn í samfélaginu. Það að skerða lífeyrisréttindi og eftirlaun harðduglegs fólks, sem hefur starfsþrek fram eftir öllum aldri, er ósanngjarnt. Það getur verið stórmunur á líkamlegu og andlegu atgervi jafnaldra og þeir sem eru hörkuduglegir áratugum saman eiga að njóta ávaxtanna.
Mín draumsýn er sú að kynslóðir sameinist, að börn fái að njóta betur nærveru ömmu og afa. Það hefur ótal kosti í för með sér því sumt ungt fólk er í kapphlaupi hégómans, fórnar andlegu þreki og einlægu uppeldi til þess að reyna að byggja skýjaborgir. Kemur á óvart að lesskilningur sé á undanhaldi og kvíði og þunglyndi að aukast? Forgangsröðunin virðist furðuleg en vonandi breytist hún eftir að óværan hverfur af vettvangi. Mín draumsýn er að eldast vel, andlega og líkamlega og öðlast einstaka visku og þekkingu til að geta miðlað af reynslu minni til unga fólksins — þar til andinn flýgur yfir á annað tilverustig.
Þorgrímur Þráinsson