Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar
Ætli það sé ekki til vitnis um undarlegt skopskyn að hafa gaman af umræðum á alþingi? Þær umræður eru sjaldnast uppbyggilegar eða mikið spennandi. Eilíft stagl, með einhverju sem á að vera virðuleg formlegheit, en er fátt annað en þunglamaleg ávörp og klingjandi bjölluhljómur af minnsta tilefni, og því oft á tíðum ákaflega lítið og jafnvel ómerkilegt innihald. Ef eitthvað er, þá undirstrikar útkoman hvað stór hluti þessa liðs er gjörsamlega úr takti við daglegt líf borgara þessa lands. En þrátt fyrir litla tiltrú og lítið álit almennings er til fólk sem hlustar og jafnvel horfir á beinar útsendingar frá þingfundum. Ég er einn af þeim Og það undarlega er, að ég hef oft gaman af þessu.
Þetta er allt Bretunum að kenna. Þeir þurftu að koma með hina stórgóðu sjónvarpsþætti Yes minister á níunda áratug síðustu aldar. Og ríkissjónvarpið sýndi þetta. Betur var líklega ekki hægt að draga fram spaugilegu hliðarnar á stjórnmálum þess tíma. Fyrir þá sem fylgdust með þessu var eiginlega ekki hægt annað en að fá áhuga á pólitískri umræðu. En Bretarnir hafa meira á samviskunni. Beinar útsendingar á erlendum sjónvarpsstöðvum frá neðri málstofu breska þingsins, Westminster, undanfarin ár, og kannski aðallega undanfarin tvö til þrjú ár eftir að Brexit kom til, eru stórkostleg skemmtun, svo vægt sé til orða tekið. Það er oft grátlega skemmtilegt að horfa á þessar útsendingar sem gefa breskri leikritagerð, og leikrænum tilburðum almennt, fátt eftir. Þar hefur reyndar verið einn náungi sem ber höfuð og herðar yfir samleikara sína í neðri málstofunni, sjálfur þingforsetinn, John Becow. Hann, fyrrverndi þingmaður breska íhaldsflokksins, er þekktastur fyrir köll sín yfir þingsalinn, Order! Order! Becow lætur engan í þingsalnum komast upp með eitthvað múður og gerir engan greinarmun á almennum þingmönnum, annars vegar, og ráðherrum, hins vegar. Hann kemur eins fram við alla. Sumir mættu taka Becow sér til fyrirmyndar í fundarstjórn jafnt sem framkomu við fólk.
Ég held reyndar að forseti Alþingis hafi einmitt verið að reyna að herma eftir Becow þeim breska, en því miður, oftast ef ekki alltaf með lélegum árangri. Þetta kom skýrt fram í snörpum orðaskiptum forsetans og formanns Viðreisnar á þingi um daginn. Flokksformaðurinn var að kvarta yfir ákveðnu máli undir hinum bráðskemmtilega lið þinghaldsins, fundarstjórn forsta. Á ákveðnum tímapunkti í samskiptum þeirra missti forsetinn gjörlega stjórn á sér, og hreytti hvassyrtur orðum sínum að flokksformanninnum og sagði: „Forseti stendur ekki í orðaskiptum við þingmenn. Forsetinn segir það sem hann vill segja og þingmenn hlusta.“ Svona orðalag minnir auðvitað því miður frekar á fallna útlenska einræðisherra fyrri tíma en á þingforseta í lýðræðisríki nú til dags. Að tala um sjálfan sig svona í þriðju persónu er hlægilegt.
John Becow hefði aldrei látið sér detta í huga að tala með þessum hætti til hinna bresku vinnufélaga hans í neðri málstofu breska þingsins. Ef hann hefði viljað koma sambærilegum skilaboðum til skila og forseti Alþingis var að gera eins ósmekklega og raun ber vitni gagnvart formanni Viðreisnar, þá hefði sá breski örugglega gert það á þann veg að fólk hefði að minnsta kosti brosað út í annað. Það er akkúrat í hnotskurn það sem greinir Alþingi frá breska þinginu. Þar er húmor en hér er fýla. Málið er bara það, að stundum er fýlan svo mikil að hún verður hlægileg. Og þá getur þrátt fyrir allt verið gaman að fylgjast með, sem auðvitað ber vott um undarlegt skopskyn.
Fulltrúar stjórnvalda segjast vilja stuðla að því að auka tiltrú almennings á Alþingi, sem eins og allir vita er ákaflega takmarkað. Það verður hins vegar ekkert af slíku á meðan þau sem eiga að vera í þjónustu fyrir þennan sama almenning tala niður til fólks. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að þau sem fylla flokk stjórnvalda og hinir ýmsu fylgihlutir þeirra stígi niður af þeim palli sem þessi valdastétt hefur því miður svo ríka tilheigingu til að koma sér fyrir á.