Lögbundinn ellilífeyrir og frítekjumark fylgi almennri launaþróun

„Við viljum koma fram við fullorðið fólk eins og fullorðið fólk,“ segja Píratar í stefnuskrá sinni um málefni eldra fólks. Þeir vilja eyða fátækt eldri borgara sem reiði sig eingöngu á lögbundinn ellilífeyri. Það verði aðeins tryggt með því að lögbundinn ellilífeyrir og frítekjumark fylgi almennri launaþróun.

„Lífeyrir á að duga fyrir framfærslu allra sem hann þiggja,“ segir í stefnuskránni. Píratar vilja að óháðir sérfræðingar reikni út „kjaragliðnun ellilífeyris“ undanfarinna ára og að gliðnunin sé unnin upp með reglubundnum hækkunum á næsta kjörtímabili.

Þá segjast Píratar vilja standa vörð um rétt eldra fólks til að hætta að vinna 67 ára, en jafnframt tryggja valfrelsi til að vinna lengur og fresta töku ellilífeyris án þess að hann skerðist. „Starfslok eiga að vera á forsendum fólks og færni, ekki aldurs.“

Píratar vilja einnig gera eldra fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili kjósi það svo. Þeir vilja tryggja húsnæði og þjónustu við hæfi í heimahéraði og koma í veg fyrir hreppaflutninga og að hjónum sé stíað í sundur.

Á hinn bóginn sé brýnt að byggja upp fjölbreytt búsetuform til hagsbóta fyrir alla aldraða, segir jafnframt í stefnuskránni. Píratar segjast taka undir ályktun Landssambands eldri borgara (LEB) um að víða vanti millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. „Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra á einungis að verja til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.“

Þá vilja Píratar koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og auka félagslegan stuðning við eldra fólk með aðgerðum sem eigi að draga úr einangrun og auka virkni. „Einnig viljum við styrkja fjölbreytt félagsstarf þvert á kynslóðir og efla stuðning til sjálfshjálpar. Allt verði þetta gert í samráði og samstarfi við eldra fólk, enda er aðkoma fólks að eigin málefnum lýðræðisleg, valdeflandi og í anda Pírata.“

Píratar bjóða fram undir listabókstafnum P í alþingis­kosn­ing­un­um 2021. Kosninga­stefnu­skrá flokksins er aðgengileg á eftirfarandi slóð: piratar.is/kosningastefnuskra.

Ritstjórn september 17, 2021 11:00